Lieberman heldur velli - Santorum fellur

Joe Lieberman Úrslitin eru óðum að verða ljósari í bandarísku þingkosningunum. Það stefnir í að demókratar séu að ná árangri, en ekki ræðst enn hver full úrslit verða. Fyrir stundu varð ljóst að Joe Lieberman heldur velli í öldungadeildinni í baráttu stjórnmálaferils síns. Honum tókst að hafa sigur sem óháður í baráttu við Ned Lamont, sem felldi hann í forkosningu demókrata í fylkinu í ágúst um hver ætti að verða frambjóðandi flokksins. Lieberman hefur setið í öldungadeildinni fyrir demókrata frá 1989.

Jákvæð afstaða Lieberman til Íraksstríðsins og stuðningur hans við ákvarðanir Bush-stjórnarinnar fyrir og eftir stríðið leiddi til víðtækrar óánægju með störf hans meðal íbúa í fylkinu og staða hans varð ótrygg. Svo fór að Lamont, sem var lítt kunnur viðskiptamaður, gaf kost á sér gegn honum. Framan af þótti hann ekki eiga séns gegn hinum víðreynda og vinsæla Lieberman sem var einn af forystumönnum flokksins á landsvísu og hafði verið varaforsetaefni demókrata í forsetakosningunum 2000, fyrsti gyðingurinn í lykilframboði í bandarísku forsetakjöri.

Liebermanbushkiss Á nokkrum mánuðum breyttist staðan. Svo fór að Lamont tókst að fella Lieberman í forkosningunum og ná útnefningu flokksins í þessu örugga vígi hans. Flestir töldu eftir tapið að Lieberman myndi lamast sem stjórnmálamaður. Allar stjörnur demókrata sem studdu hann snerust yfir til Lamont og flokksmaskínan sem malaði gegn Lamont varð að vinna fyrir hann. Lieberman hélt ótrauður sínu striki og boðaði óháð framboð á eigin vegum og tókst að koma standandi frá þessu.

Lamont náði aldrei eftir forkosningarnar náð alvöru forskoti á Lieberman og nú hefur hann tapað sjálfum kosningunum, þó formlegur flokksframbjóðandi demókrata sé. Fátt virðist hafa gengið Lamont í hag í átökunum sjálfum, handan forkosninganna meðal flokksmanna. Hann hefur ekki komist út úr talinu um Íraksstríðið og varð bensínlaus á miðri leið, þrátt fyrir áfangasigurinn. Honum mistókst að fókusera sig á aðra málaflokka og öðlast tiltrú kjósenda sem breiður stjórnmálamaður ólíkra hópa. Því fór sem fór.

Santorum Ein stórtíðindi kvöldsins eru svo auðvitað fall Rick Santorum þingmanns fyrir Pennsylvaníu úr öldungadeildinni. Hann var einn af lykilmönnum flokksins í þinginu og verið áberandi í stjórnmálum. Hann hefur setið í öldungadeildinni í tólf ár, var kjörinn í kosningunum sögulegu árið 1994 og endurkjörinn í kosningunum 2000, samhliða forsetakjörinu eftirminnilega á milli Bush og Gore. Repúblikanar hafa nú þegar misst þrjú öldungadeildarsæti en missi þeir sex hafa þeir misst deildina úr höndum sér.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi nótt. Meðal helstu tíðinda annarra sem af er telst auðvitað sigur Edward M. Kennedy, bróður John F. Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, í Massachusetts en hann hefur verið í öldungadeildinni allt frá árinu 1962 og hefur því unnið níu sinnum kjör í deildina og er að verða sá þingmaður þar sem lengst hefur setið. Kennedy er orðinn 74 ára gamall og verður því orðinn rösklega áttræður er kemur að næstu kosningum eftir sex ár.

Ein tíðindi kvöldsins eru tækniörðugleikar á kjörstað. Ljótt er að heyra. Vonandi verður ekkert Flórída-syndrome í nótt, segi ég og skrifa. Gleymi annars aldrei þessum 36 örlagaríku dögum fyrir sex árum er deilt var um hvor væri nýkjörinn forseti (president-elect) Bush eða Gore. Ógleymanlegir dagar svo sannarlega. Þá var Flórída nafli alheimsins, í orðsins fyllstu merkingu.

mbl.is Tækniörðugleikar valda töfum á kjörfundum víða í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband