Fylgishrun D-listans í RVK - nýjan leiðtoga strax!

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Illa er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Gallup-könnunin staðfestir aðeins það sem allir vita - flokkurinn er forystulaus og hefur ekki náð að leiða mál áfram af krafti og myndugleik. Sífellt betur sést hversu gríðarleg pólitísk mistök það voru að taka ekki af skarið með leiðtogaskipti eftir að öllum var ljóst að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var búinn að vera sem stjórnmálamaður og trúverðugur leiðtogi.

Fylgishrunið er afgerandi merki þess að kjósendur flokksins sætta sig ekki við forystuleysið og vandræðaganginn sem einkennir stærsta flokk borgarmálanna á kjörtímabilinu. Eftir REI-málið og vandræðaganginn í febrúar sem náði hámarki með klaufalegasta blaðamannafundi íslenskrar fjölmiðla- og stjórnmálasögu er borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í alvarlegum vandræðum og fylgismæling Gallups eru afgerandi skilaboð til flokksmanna í borginni og um land allt að taka af skarið og krefjast þess að þar verði unnið úr málum og tekið á vandanum.

Þetta fylgishrun eru sterk skilaboð sem verður að taka mjög alvarlega, einkum meðal flokksmanna í hverfisfélögum Sjálfstæðisflokksins. Þetta er áfall sem verður að vinna sig úr, ekki aðeins í lokuðum herbergjum í Valhöll heldur með fundum í flokksfélögum í borginni. Man ekki eftir svona mælingum hjá Sjálfstæðisflokknum í borgarmálunum frá því í aðdraganda stofnunar R-listans í ársbyrjun 1994. Markús Örn Antonsson sagði af sér sem borgarstjóri í mars 1994 eftir að flokkurinn hafði verið að mælast í 25-30% um skeið gegn sameinuðu framboði félagshyggjuaflanna. Það var þá, en flokkurinn hafði þá verið við völd í tólf ár.

Ef ekki verður tekið á málum mjög fljótlega og línur skýrðar með vali nýs leiðtoga og borgarstjóra að ári stefnir Sjálfstæðisflokkurinn í mikið afhroð í næstu kosningum. Ekki er viðunandi að flokkurinn mælist með svo lítið fylgi og andstæðingar hans með meirihlutafylgi, þar af Samfylkingin á mörkum þess að hljóta hreinan meirihluta og fella fimmta mann Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru váleg tíðindi og afgerandi merki þess að Sjálfstæðisflokknum hefur mistekist að taka völdin af ábyrgð og krafti eftir tólf ára minnihlutasetu. Allar hrakfaraspár þeirra sem vildu leiðtogaskipti í febrúar og hreinar línur, en ekki sama hjakkið hafa því miður ræst.

Svona mælingar hefðu verið skiljanlegar á fyrstu valdadögum nýs meirihluta F- og D-lista en eftir hundrað daga er ljóst að meirihlutinn hefur verið dæmdur úr leik af kjósendum. Enda hefur hann verið afskaplega slappur og mál ekki verið leidd áfram af myndugleik og krafti. Farsinn í borgarmálunum virðist endalaus og skiljanlegt að fólki sé nóg boðið. Í veikri stöðu Vilhjálms Þ. í febrúar sagði ég reyndar í einni bloggfærslu að þeir tímar væru liðnir að kjósendur létu bjóða sér upp á veika forystu og stjórnleysi. Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að hugsa sín mál. Það hafa reynst orð að sönnu.

Staðan er alvarleg. Nú verður forysta Sjálfstæðisflokksins í höfuðvígi hans á landsvísu að fara að sýna myndugleik og taka á slæmri stöðu flokksins í borgarmálunum. Þetta er skrípaleikur sem flokksmenn á landsvísu sitja ekki þegjandi undir.

mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta eru mjög skýr skilaboð og afgerandi. Kjósendur dæma meirihlutann frá, vilja ekki sjá hann og skila sér frekar yfir á Samfylkinguna en VG. Niðurstaðan er því sterk staða Samfylkingarinnar í þessu ítalska ástandi borgarmálanna. Á mannamáli: allir flokkar, sérstaklega meirihlutaöflin, fá þungan skell miðað við aðstæður nema Samfylkingin. Þar finnst fólki greinilega að það sé heiðarlegasta aflið í öllum glundroðanum. Mælingin er afgerandi.

Þetta er mjög skýr staða miðað við allt og eðlilegt að spurt sé hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætli að taka á þessu. Þetta er auðvitað fylgishrun - kjósendur eru að fella áfellisdóm yfir Vilhjálmi Þ. Hann er búinn að vera sem trúverðugur leiðtogi fyrir löngu, sést varla og á meðan er Sjálfstæðisflokkurinn höfuðlaus her. Þar vantar leiðtoga sem getur farið að vinna að næstu kosningum, vantar front á hópinn í stað ósýnilegs leiðtoga sem er gufaður upp pólitískt.

Þetta er stóri vandi Sjálfstæðisflokksins, auk þess sem meirihlutinn er augljóslega að fá falleinkunn. Það sem kemur mér mest á óvart er hvað Samfylkingin fær afgerandi mikið af óánægjufylginu frá Sjálfstæðisflokki. Þeir fá það alveg óskipt sýnist mér.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki á sínum málum mjög fljótlega blasir afhroð við þar, mjög sögulegt afhroð sem mun leggja í rúst stöðu Sjálfstæðisflokksins sem stærsta flokksins í borgarmálunum frá stofnun árið 1929.

Hvað varðar borgarstjórann er hann greinilega orðinn pólitískt landlaus. Fylgi við hann mælist varla. Sagði reyndar hér um daginn að ekki væri hægt að muna eftir veikari borgarstjóra. Það eru orð að sönnu, svo sannarlega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.5.2008 kl. 20:25

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Stefán Friðrik!

Já, hér er um grafalvarlegt mál að ræða og varðar í raun ekki aðeins stöðu flokksins í Reykjavík, heldur gæti þetta einnig haft alvarleg áhrif á gengi flokksins á landsvísu. Það má aldrei gleymast að hér um tvö af stærstu kjördæmum landsins að ræða.

Reyndar má segja að skýrari línur þyrfti að marka í fleiri málum innan flokksins eða í minnsta kosti að byrja að ýta undir umræður um nokkur mál. Þarna á ég við mál á borð við samgöngumál (sporvagna, lestar o.s.frv.), enn frekari nýtingu orkulindanna og svo auðvitað aðild Íslands að ESB.

Ég er ansi hræddur um að verði síðastnefnda málið ekki sett með skipulögðum hætti á dagskrá flokksins á næstu mánuðum, þá gæti svipað hrun blasað við í næstu kosningum og nú blasir við í borginni. Það er erfitt að snúa slíkri þróun við rétt fyrir kosningar og byggja upp trúverðugleika, þegar hann er að fullu glataður. Margir "hægri kratar" innan flokksins - stór hluti flokksmanna - gætu þá endað - og þá í raun þvert um sitt geð - sem kjósendur Samfylkingarinnar.

Ég veit að mikilvægt er að fara ekki á taugum í erfiðri stöðu líkt og nú er uppi í landsmálum og í Reykjavík, en aðgerðarleysið er einnig hættulegt. Er ég kannski eini sjálfstæðismaðurinn á landinu, sem hefur þessar áhyggjur?

Kær kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.5.2008 kl. 21:00

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin Guðbjörn, og eins hitt kommentið um daginn um sama mál.

Það er alveg heiðarlegt að tala hreint út. Þetta eru mælingar sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur ekki séð áður, ef aðdragandi kosninganna 1994 er undanskilinn. Allir vita hvert stærsta vandamálið er og greining á því hvað verði að gera er augljós. Þetta eru afgerandi skilaboð sem verður að taka alvarlega og ég held að allir sem þekkja til sögu flokksins í borginni viti hvað sé að og hvað verði að gera. Spurningin er hvort að þeir geri það eða taki áhættuna á að fá slíkt afhroð yfir sig af meiri þunga síðar. Ef ekkert verður að gert mun fylgi flokksins ekki verða mikið meira í næstu kosningum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.5.2008 kl. 21:05

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sæll Stefán

Aðalmálið er þetta og það ætti öllum að vera ljóst Villi verður að stiga til hliðar.

Með kveðju úr Kópavoginum.

Óðinn Þórisson, 13.5.2008 kl. 21:17

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Óðinn. Algjörlega sammála þér. Það versta er að allt sem ég spáði í febrúar að myndi gerast í kjölfar þeirrar arfavitlausu ákvörðun að láta eins og allt væri í lagi með að hafa veikan leiðtoga á frontinum hefur ræst. Vond staða.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.5.2008 kl. 21:23

6 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég er ekki vanur að vorkenna andstæðingum mínum í pólitík,en Þegar þú Stefán hinn ágæti penni og orðvari maður kvartar sáran undan veikum foringja og illa sé komið fyrir flokknum þínum í borgarmálum,þá eru það örugglega vágleg  tíðindi.

Hins vegar getur þú sem aðrir Sjálfstæðismenn treyst á hina sauðtryggu kjósendur,þeir skila sér í hús þegar kosið er.Láttu ekki einhverja pólutíska depru ná tögum á þér,vi'ð siglum inn í sumarblíðuna kátir og hressir.

Kristján Pétursson, 13.5.2008 kl. 23:32

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Þrymur og góð orð um greinina.

Kristján: Mér var kennt það í æsku að segja hug minn sama á hverju gengur. Ég skrifa ekki um pólitík til að hossa flokknum mínum sama á hverju gengur. Ég gekk ekki í flokk eða tók þátt í starfi fyrir hann til að gera eitthvað í blindni. Eins mikilvægt og það er að styðja flokk og forystumenn til þeirra verka sem standa hugsjónum hvers og eins er mikilvægt að verða ekki blindur þegar á móti blæs og þegar þarf að tala upphátt um vanda sem er til staðar. Í þessu máli segi ég mínar skoðanir. Má vera að ekki öllum líki skilaboðin en þetta er kalt mat engu að síður og eitthvað sem ég tel að þurfi að segja. Enda held ég að flestir séu þessarar skoðunar í flokknum. Er ekki sár að neinu leyti, með því að skrifa hreint út hreinsaði ég út það sem mér var í huga vegna könnunarinnar. Þetta eru skilaboð um að taka á vandanum og það er verkefnið sem blasir við hjá okkar fólki í borginni. Það er ekki óyfirstíganlegt verkefni, tveim árum fyrir kosningar ef rétt er að verki staðið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.5.2008 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband