Edwards styður Obama - útnefning í augsýn

John Edwards og Barack Obama Stuðningsyfirlýsing John Edwards við Barack Obama á leiftrandi fjöldafundi í Grand Rapids í Michigan er fyrst og fremst táknræn staðfesting þess að forkosningaferlið er á lokastigi. Obama hefur útnefninguna nú í augsýn - æ augljósara verður með hverjum deginum sem líður að hann verður frambjóðandi demókrata í nóvember.

Hillary Clinton hefur barist af krafti síðustu vikur en nær útilokað er fyrir hana að snúa töpuðu spili við. Ræða Obama í kvöld var augljóslega sett fram sem sterk skilaboð um að hann vill tryggja sameinaðan flokk að baki sér í forsetakosningunum þegar að hann nær útnefningunni á næstu vikum. Þar fái allir sem hafi barist við hann um útnefninguna sitt pláss og hann ætli að tryggja sterkt framboð flokksins með þeim brag að hann fari sameinaður í kosningarnar. Þetta eru skýrustu skilaboðin til þessa um að þegar Hillary viðurkennir ósigur muni hann rétta fram sáttahöndina til hennar.

Stóra spurningin í þessum forkosningaslag er ekki lengur um hver nái útnefningunni heldur hver verði varaforsetaefni Barack Obama í forsetakosningunum. Eðlilega er velt því fyrir sér hvort Obama muni til að styrkja flokkinn og sameina sundraðar hjarðir í honum bjóða Hillary sess við hlið sér og með því tryggja að hann eigi auðveldar með að ná stuðningi þeirra sem hafa tryggt henni kraft til að taka baráttuna svo lengi þó vitað hafi verið vikum saman að hún muni ekki ná á leiðarenda. Þessir hópar hafa fært henni sigur þegar allir telja hana af og augljóst er að það styrkir hana alla leið út forkosningaferlið.

Sigur Hillary í Vestur-Virginíu var fyrst og fremst táknrænn, enda sáust þá mjög vel veikleikarnir á framboði Obama, eins og ég fjallaði um hér í gærkvöldi. Þrátt fyrir mjög sterka stöðu og að vera með útnefninguna í sjónmáli nær hann ekki að sigra Hillary í fylkjum hvítra þar sem hún hefur lykilstöðu. Fólkið þar styður Hillary þó æ ólíklegra sé að hún nái útnefningunni. Í því felast skilaboð og augljóst á umsögn allra stjórnmálaskýrenda vestanhafs í dag að framboð hans er veikt ef hann nær ekki þessum lykilhópum á sitt band.

Óvissuferðin er framundan fyrir Obama þó útnefningin sé hans á næstu vikum. Í þeim efnum skiptir máli að hann sameini flokkinn að baki sér og sætti þá sem studdu Hillary við að styðja framboð sitt. Þetta er mikilvægasta verkefnið fyrir Obama á næstu vikum. Hann verður að sameina flokkinn í aðdraganda flokksþingsins í Denver. Í þeim efnum verður áhugavert að sjá hvernig Hillary lýkur baráttu sinni og hversu erfið lokahrinan í slagnum verði.

Hillary er þegar farin að dempa sig niður, eins og sást af ræðunni í Vestur-Virginíu og hún er að færast nær Obama. Væntanlega vill hún klára forkosningarnar fimm sem eru eftir á næstu þrem vikum, þó allir viti hvernig fer að leiðarlokum. Og stóra spurningin er hvernig hún mun færa sig nær Obama og hvort að þau sættist á að fylkja saman liði, hann með sína styrkleika og hún með sína.

mbl.is Edwards lýsir stuðningi við Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Obama vinnur ekki þessar kosningar án Hillary,það er næsta vist/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 15.5.2008 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband