Þorgerður Katrín talar hreint út um lykilmál

ÞorgerðurEr mjög ánægður með að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, talar hreint út um lykilmálin sem blasa við, hefur afgerandi skoðanir á ESB-málum og talar um fíaskó flokksins í Reykjavík, þar sem hann er að missa kjölfestuhlutverk sitt með lélegri forystu leiðtogans og sundrungu í kjölfar þess. Ef marka má orð hennar er augljóst að hún kallar eftir að tekið verði á vandanum sem fyrst.

Enda ekki óeðlilegt þar sem kannanir á stöðu mála í borginni eru alvarlegt mál sem Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að sætta sig við og eru alvarleg áminning um að flokksmenn haldi vöku sinni. Þögn eða afneitun á þeirri alvarlegu stöðu á ekki að vera valkostur. Sérstaklega sárnar þeim sem vilja flokknum vel hversu mjög hefur verið haldið illa á málum og afleitt ef ekki á að ákveða sem fyrst hver verði borgarstjóri. Óvissan mánuðum saman hefur skaðað flokkinn mjög og verður að taka á því sem fyrst.

Hvað varðar Evrópumálin fagna ég því að forystumaður innan flokksins tekur frumkvæði í umræðunni og kemur með afgerandi stefnu. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur talað mjög skynsamlega um þessi mál en mér hefur þótt vanta að formaður eða varaformaður flokksins kæmu með skýr svör við þeim mikilvægu spurningum sem brenna á fólki. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB hljómar vel og ég held að það sé rétt skref sem felst í því að láta þjóðina taka af skarið um þessi mál, en láta ekki aðeins stjórnmálamenn móta vegvísinn í áttina að því að meta hvort við viljum tilheyra ESB.

Þorgerður Katrín talar af krafti og ábyrgð um þessi mál. Fyrir það verður að þakka. Hef ekki alltaf verið sammála henni, en met það helst við hana að hún er einbeitt og ákveðin í tali sínu um lykilmál. Það er alltaf mikilvægt að stjórnmálamenn hafi skýrar línur og leiði mál áfram og taki af skarið en láti ekki hlutina dankast og vera of lengi í biðferli. Svör hennar á fundinum sýna vel að þar fer leiðtogi sem þorir að tjá sig hreint út.

mbl.is Hefur áhyggjur af borgarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þorgerður Katrín talar af ábyrgðarleysi og því sennilega af alvarlegri vanþekkingu um þessi mál.

Jón Valur Jensson, 15.5.2008 kl. 01:47

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

En finnst ykkur ekki skondin fyrirsögnin á fréttinni, þegar aðalinnihaldið er þessi kúvending varaformannsins í Evrópuumræðunni.

Gísli Sigurðsson, 15.5.2008 kl. 10:39

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Stefán Friðrik!

Ég er eins og svo oft sammála hverju einasta orði í þessum pistli þínum og ég er viss að flestir sjálfstæðismenn myndu taka undir orð þín. Það er af og frá að eftirláta stjórnmálamönnum einum umræðuna um ESB aðild. Hér er um svo stórt mál að ræða að grasrótin verður að ræða málin vel og vandlega áður.

Ég tel að með þessum skýru orðum Þorgerðar Katrínar hafi orðið verið gefið laust. Það mikilvægasta núna er að koma með alla kosti og galla aðildar upp á borðið. Síðan þarf að vega og meta þá á málefnalegan hátt og án þess að láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur. Hugmynd Björns Bjarnasonar um vegvísi í átt að ESB aðild og hugmyndir Framsóknarflokksins um tvöfalda atkvæðagreiðslu eru allt spor í rétta átt.

Mín hugmynd varðandi fundi Sjálfstæðisflokksins er að fá hægrimenn frá félaginu Heimssýn á fundi félagsins, sem gert geta göllum aðildar skil og síðan reyndan stjórnmálamann á borð við Þorstein Pálsson til að koma með kosti aðildar. Á þennan hátt getum við flokksmenn myndað okkur sjálfstæða skoðun á málinu.

Kær kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.5.2008 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband