Spennandi örlagastund í Virginíu og Montana

Þinghúsið í Washington Augu allra stjórnmálaskýrenda í Bandaríkjunum beinast nú að Virginíu- og Montana-fylki þar sem það mun ráðast hvort að repúblikanar eða demókratar fara með völd í bandarísku öldungadeildinni næstu tvö árin, það sem eftir lifir af seinna kjörtímabili George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Þegar er auðvitað ljóst að demókratar hafa náð völdum í fulltrúadeildinni, eftir tólf ára valdasetu repúblikana þar eins og ég fjallaði um í ítarlegri færslu snemma í morgun.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer varðandi þessi tvö þingsæti sem ráða því hversu laskaður Bush forseti er orðinn pólitískt. Tapi repúblikanar líka öldungadeildinni versnar staðan enn meira fyrir þá og stjórn forsetans. Bush virðist vera kominn í sömu stöðuna og Bill Clinton var megintíma valdaferils síns. Á árunum 1995-2001, meira en helming forsetaferilsins, höfðu repúblikanar meirihluta í báðum þingdeildum með Clinton við völd og hann var endurkjörinn sem forseti í nóvember 1996 án þess að ná þinginu á vald demókrata í leiðinni.

Það sem virðist vera öðruvísi í tilfelli Bush nú en Clintons áður er að hann leitaði eftir samstarfi við pólitíska andstæðinga og reyndi sitt besta til að halda friðinn við þá. Það eru allt aðrir tímar núna. Bandarískir hermenn eru í Írak og það mál hefur klofið þjóðina í tvær fylkingar. Umfram allt annað virðist Bush vera að verða fyrir þessum pólitíska skelli nú vegna þess máls. Þetta er algjör áfellisdómur yfir hans forystu í málinu. Það eru því meginskil milli þess pólitíska veruleika sem blasti við Clinton til fjölda ára og það sem stefnir í að komi fyrir Bush forseta nú. En heilt yfir er þetta jafnmikið pólitískt áfall og Clinton veiktist gríðarlega við valdamissi demókrata í þinginu þá.

Það má búast við endurtalningu í Virginíu þar sem að George Allen berst fyrir endurkjöri í hörkuslag við Jim Webb. Þar munar svo litlu að með ólíkindum er og hugurinn leitar ósjálfrátt til Flórída fyrir sex árum þar sem það réðst hvort að George W. Bush eða Al Gore varð forseti Bandaríkjanna. Munurinn þá var ótrúlega lítill og það sem gerðist þá varð sögulegt að öllu leyti, og vonandi mun aldrei gerast aftur í bandarískum forsetakosningum. Ekki síður er mikil spenna í Montana þar sem munurinn milli Conrad Burns og Jon Tester er ótrúlega lítill ennfremur. Þetta verða spennandi dagar. Fari svo að endurtalning fari fram og lagaflækjur verði ráðandi í málinu gætu úrslit ekki ráðist fyrr en í desember.

Það er ljóst að beðið er með spennu á brá eftir þessum úrslitum. Það verður slæmt tefjist þau mjög úr hömlu og vonandi að staða mála ráðist sem allra fyrst. En munurinn er í þessum fylkjum vissulega svo lítill að það verður að vinna stöðuna vel og tryggja að rétt sé á málum haldið. Það er mikið í húfi svo sannarlega í bandarískum stjórnmálum í þessum fylkjum þar sem örlögin ráðast að lokum. Segið svo að hvert atkvæði skipti ekki máli!

mbl.is Demókratar hársbreidd frá því að ná meirihluta í öldungadeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband