Nancy Pelosi vill afsögn Donalds Rumsfelds

Nancy Pelosi Nancy Pelosi, verðandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, verður brátt ein valdamesta konan í 220 ára sögu Bandaríkjanna. Hún verður önnur í valdaröðinni, á eftir varaforsetanum, er hún tekur við forsetaembættinu í janúar af Dennis Hastert. Pelosi hefur alltaf verið harðjaxl í stjórnmálum og aldrei verið ófeimin við að tjá skoðanir sínar. Hún kemur með krafti nú inn í fremstu víglínu bandarískra stjórnmála. Það sést vel að hún ætlar að krefjast breytinga á valdamiklum stöðum - nýrrar stefnu í lykilmálum.

Ein sterkasta vísbendingin í þessa átt sást á blaðamannafundi aftur í dag er hún fór yfir áherslur sínar í kjölfar þess að hún verður fyrst kvenna til að leiða þingdeild í sögu Bandaríkjaþings. Hún krefst afsagnar Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og er ófeimin við að kalla eftir breytingum í Íraksmálinu og fleiri umdeildum málum. Pelosi og demókratar munu láta finna fyrir sér og nota sóknarfærið til að sækja að Bush forseta og stjórn hans.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, mun í kvöld halda blaðamannafund í Hvíta húsinu þar sem hann tjáir skoðanir sínar um fall meirihluta repúblikana í fulltrúadeildinni og jafna stöðu í öldungadeildinni. Úrslit kosninganna eru pólitískt áfall fyrir forsetann og flokk hans. Best sést staða mála í kosningunni um fulltrúadeildina þar sem öll sæti voru undir og ósigurinn sérstaklega afgerandi og umboð demókrata sterkt til verka þar. Það verður fróðlegt að heyra skoðanir forsetans á stöðu mála.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig valdasambúð forsetans og demókrata mun ganga er á hólminn kemur. Það verður stormasöm sambúð og því verður sérstaklega áhugavert að sjá mat forsetans á því sem gerst hefur. Bush verður að búa við þessa stöðu það sem eftir lifir valdaferilsins og það mun verða erfitt fyrir hann að koma málum í gegn og beita völdum sínum með sama hætti og verið hefur, enda hafa samherjar hans ráðið þinginu nær allan forsetaferil hans, fulltrúadeildinni frá 1994 en öldungadeildinni frá 2003.

Það er allavega greinilegt á ummælum Nancy Pelosi í dag að hún ætlar ekki að vera róleg í tíðinni og það eiga eftir að verða heldur betur stormasamar sviptingar í þessari valdasambúð þeirra.

mbl.is Væntanlegur þingforseti hvetur til afsagnar Rumsfelds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband