Afsögn Rumsfelds - Gates tekur við í Pentagon

Donald Rumsfeld Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér og hefur Robert Gates, fyrrum forstjóri CIA, verið tilnefndur sem eftirmaður hans. Afsögn Rumsfelds var tilkynnt formlega nú síðdegis á blaðamannafundi og kom varla að óvörum eftir úrslit þingkosninganna í Bandaríkjunum þar sem að repúblikanar urðu fyrir gríðarlegu pólitísku áfalli. Það var ekki um neitt annað að ræða en að skipta um kúrs og áherslur - skipta um yfirmann í Pentagon.

Rumsfeld hefur verið varnarmálaráðherra frá 20. janúar 2001, allt frá valdatöku Bush Bandaríkjaforseta, og verið einn af hans nánustu pólitísku ráðgjöfum um utanríkis- og varnarmál. Hann stýrði stefnumótun forsetans í málaflokknum og verið lykilmaður í bandarískum stjórnmálum. Rumsfeld var áður varnarmálaráðherra 1975-1977 í forsetatíð Geralds Ford og er bæði yngsti og elsti maðurinn sem gegnt hefur embættinu. Hann er nú 74 ára gamall og því óneitanlega nokkuð roskinn. Hann er einn umdeildasti ráðherra í seinni tíma stjórnmálasögu Bandaríkjanna.

Það hefur verið brugðist við afgerandi úrslitum þingkosninganna með þeim eina hætti sem mögulegur var og réttur; því að skipta um yfirmann í Pentagon og breyta um áherslur. Það að Rumsfeld sé settur af eru stórpólitísk tíðindi og greinilega ákvörðun forsetans eftir þessi kosningaúrslit. Það blasti við að ekki gat öðruvísi farið. En nú reynir á samvinnu, enda er forsetinn ekki að fara neitt. Hann á sitt umboð til 20. janúar 2009 og situr þann tíma. Það er greinilegt að hann leitast nú eftir samstarfi við demókrata og það er eðlilegt. Það er jú þjóðin sem ræður för, hún velur þingið og forsetann. Það er bara þannig.

Robert Gates Robert Gates, fyrrum forstjóri CIA, hefur nú verið tilnefndur sem nýr varnarmálaráðherra, eins og fyrr segir. Mér finnst val forsetans á honum gott. Það er mikilvægt að stokka hlutina upp og það var kominn tími til að skipta um yfirmann í Pentagon. Gates er fæddur árið 1943, því orðinn 63 ára gamall. Gates var yfirmaður CIA í forsetatíð George H. W. Bush, föður núverandi forseta, á árunum 1991-1993 og hefur langan starfsferil þar að baki, en hann vann þar í heil 26 ár.

Tíðindi dagsins eru stór og síðasti sólarhringur verið viðburðaríkur. Bush forseti þarf nú að hefja samstarf við aðra valdhafa inni í þinginu og leita málamiðlana og samkomulags, eitthvað sem hann hefur ekki vanið sig mikið á. Miklar breytingar eru framundan hjá honum á lokaspretti valdaferilsins. Það verða viðbrigði fyrir hann og fleiri lykilmenn hans. Það eru svo sannarlega nýjir tímar framundan í bandarískum stjórnmálum.

En nú hefst hasarinn fyrir forsetakosningarnar 2008 í raun. George Walker Bush verður ekki sögupersóna í þeim kosningahasar. Þar verður nýr húsbóndi í Hvíta húsinu kjörinn. Það verður sérstaklega áhugavert að sjá í hvaða stefnu Repúblikanaflokkurinn þróast í þeirri atburðarás. Búast má við nokkrum breytingum þar með nýju forsetaefni, sem hefur jafnvel aðrar hugmyndir og áherslur á sömu málum og Bush forseti.

mbl.is Bush: Réttur tími til að skipta um forustu í Pentagon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband