Geir talar mjög afgerandi gegn ESB-aðild

Geir H. Haarde Óhætt er að segja að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, tali það afgerandi gegn ESB-aðild að nær útilokað sé að Sjálfstæðisflokkurinn færist í ESB-átt í formannstíð hans. Hef reyndar ekki heyrt hann tala jafn afgerandi gegn ESB í langan tíma og vekja þessi ummæli athygli vegna umræðunnar síðustu vikurnar. Væntanlega verður mikil umræða um Evrópumálin á næsta landsfundi, haustið 2009, en afar litlar líkur eru á því að tekin verði upp önnur stefna en flokkurinn hefur nú.

Væntanlega markar Geir þarna stefnu Sjálfstæðisflokksins á næstu árum, einkum í aðdraganda næsta landsfundar að ári, en þessi orð eru það afgerandi að hverfandi líkur eru á því að hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins muni leggja sérstaka áherslu á málið í næstu alþingiskosningum verði hann áfram formaður flokksins og forsætisráðherra, eða beiti sér fyrir því á landsfundi.

Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er ekki lögð áhersla á Evrópusambandsaðild og er augljóst að stjórnarflokkana greinir á um hvaða stefnu eigi að móta þar, nægir að líta á stefnu flokkanna fyrir síðustu kosningar og á landsfundi beggja flokka í apríl 2007. Í þeim efnum hafa flokkarnir orðið sammála um að vera ósammála og málið ekki á dagskrá á tímabilinu.

Vel má vera að ESB verði kosningamál í næstu alþingiskosningum. Þrátt fyrir umræðu um ESB síðustu árin hefur það aldrei verið hjartans mál heillar kosningabaráttu. Samfylkingin fór í ESB-átt fyrir kosningarnar 2003 en tók ekki skrefið til fulls og ekki heldur í aðdraganda kosninganna 2007. Framsókn gældi við ESB fyrir kosningarnar 2003 en fetaði ekki skrefið er á reyndi.

Geir H. Haarde hefur talað mjög afgerandi og greinilegt að ekki mun flokkurinn taka ESB-skref undir forystu hans. Í ljósi sterkrar stöðu hans innan flokksins er mjög ólíklegt að sá kúrs breytist á kjörtímabilinu.

mbl.is Geir: Ég vil ekki ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geir er réttur maður á réttum stað.  Sjálfstæðisflokkurinn og þeir flokkar sem ekki vilja ganga í ESB, vinna stórsigur í næstu kosningum. Ég vil ekki ganga í ESB.

Ólafur B. Jónsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 13:03

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki verða neinar kosnigar um esb aðild á þessu kjörtímabili.
Það er sjálfsagt að umræður séu um esb aðild og þá á Sjálfstæðisflokkurinn að leiða þær umræður.
Staða Geirs er gríðarlega sterk og ekki miklar líkur á mótframboði á næsta landsfundi þannig að ég er sammála þér,  það verða engar stökkbreytingar í afstöðu flokksins til esb aðildar í hans formannstíð og er það jákvætt.

Óðinn Þórisson, 17.5.2008 kl. 13:14

3 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég get ómögulega skilið þennan hroka að það sé endilega flokkurinn sem ekki vill ræða ESB sem eigi að stjórna umræðunni um Evrópumál. Ég spái því að þegar þessi kynslóð sem stjórnar flokkunum um þessar mundir er farin frá völdum og næsta kynslóð tekur við, þá fari Evrópuumræðan á fullt og við verðum komin í ESB eftir ca 8 - 12 ár.

Gísli Sigurðsson, 17.5.2008 kl. 13:27

4 identicon

Mjög gott mál. Forsætisráðherrann talaði enga tæpitungu í þessu máli. Það þarf að standa vel í ístaðinu gagnvart hrikalegum áróðri þeirra afla sem vilja okkur með góðu eða illu inní þetta afturhalds hafta bandalag. Forsætisráðherra rökstuddi líka mál sitt. Það er ábyggilega rétt sem Ólafur B segir í athugasemdum hér að ofan þeir stjórnmálaflokkar sem hafa dug og þor til að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar í næstu þingkosningum munu vinna stórsigra. Evrópusambandsaðildar flokkarnir munu stórtapa, setji þeir þetta á oddinn. Þetta er ekki kosningamál sem verður neinum til framdráttar. Fólk sér nefnilega í gegnum "nýju fötin keysarans". Verði Ingibjörgu Sólrúnu að góðu að sýna kjósendum sig í þessum klæðum fyrir næstu kosningar.  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 13:30

5 identicon

„Geir sagði, að ef Ísland væri í Evrópusambandinu hefðu stjórnvöld ekki haft jafn (mikið) svigrúm til að laga sig að breytingum í alþjóðlegu umhverfi eins og gert hefði verið á síðustu mánuðum. Íslandi væru þá allar bjargir bannaðar við núverandi aðstæður. Þá hefði gengi gjaldmiðilsins verið fast og vextirnir ákveðnir í Seðlabanka Evrópu“.

Hefði þá Davíð ekki getað stjórnað úr Seðlabankanum? Verður Geir þá að fara að vinna vinnuna sína? Æ, æ. :-)

Ég held að við komum ekki til með að ráða neinu um það hvort af aðild verður. Ef stórfyrirtækin fara að flýja land og inn á Evrusvæðið, þá neyðumst við til að fylgja eftir. Annars er hætt við að ástandi í atvinnumálum verði afar svart, nema það verði skellt niður álverum í hvern fjörð. Og hvaða húsnæðiseigandi vill ekki skaplegri vexti? Eða betra verð á dagvöru? Og útflytjandi aðgang að stærri markaði?

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 17:02

6 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Varðandi ummæli Geirs, er þá ekki möguleiki að þessi erfiða staða hefði einmitt ekki komið upp ef við hefðum verið í ESB? Þá væri enginn Davíð lengur að þvælast fyrir heldur væru það færustu hagspekingar Evrópu sem hefðu þessi mál á sínum snærum.

Gísli Sigurðsson, 18.5.2008 kl. 12:45

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Það er ekkert leyndarmál að mér fannst einkennilegt, að yfirlýsing Geirs Haarde væri jafn afdráttarlaus og hún var og er ég alveg sammála um að ekki verður að ESB aðild á meðan að hann er formaður Sjálfstæðisflokksins.

Ég er hugsanlega líkari Þorgerði Katrínu og er alltaf að spá í hvað Jón og Gunna eru að hugsa, því þau eru vinafólk mitt. Þau hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn frá því þau fengu kosningarétt. Þau hafa gert það af því að þau hafa verið sannfærð um að það þjónaði þeirra hagsmunum best. Stjórnmálamenn eiga kannski ekki að hlaupa upp til handa og fóta, þótt þau hjón séu stundum ekki alveg sátt við flokkinn sinn í einni og einni skoðanakönnun. Þetta er alveg rétt athugað hjá stjórnmálamönnunum, þar sem þau hjón eru ekki með gott minni, þau eru eiginlega með mjög slæmt minni. Á undanförnum árum hefur stundum verið hringt í þau og stundum sögðust þau í könnunum myndu kjósa annan flokk, t.d. þegar fjölmiðlamálið var á döfinni og þegar Baugsmálið var í algleymingi. Þessu fólki leiðast svona mál og vilja að sínir stjórnmála einbeiti sér að stjórnmálum, sem gerir þeirra líf betra.

Vinir Jóns og Gunnu eru Stína og Palli og þau eru í Samfylkingunni. Eins og aðrir kvarta Jón og Gunna nú undan myntkörfuláninu á bílnum sínum og svo yfir hækkunum í Bónus. Palli og Stína segja að lausnin sér að ganga í ESB. Þau klifa á því að matvælaverð lækki við aðild og einnig bankavextir, stöðugleikinn aukist og við hættum að fá fyrir hjartað á nokkurra ára fresti, þegar krónan og verðbólgan fer af stað. Líkt og Palli og Stína reka Jón og Gunna eigið fyrirtæki því velta þau - auk fyrrnefndra kosta - einnig fyrir sér lægri viðskiptakostnaði vegna viðskipta í Evrum. Jón og Gunna eiga börn, sem vilja stunda nám innan ESB, þau velta fyrir sér skólagjöldum barnanna sinna, sem ekki þyrftu að borga skólagjöld ef við værum í ESB. Það er um fátt annað talað þegar þessi vinahjón hittast og síðan eru fjölmiðlarnir einnig fullir af fréttum um þessa undralausn.

Jón og Gunna eru ekkert að velta fyrir fullveldi þjóðarinnar og muna lítið eftir Jóni Sigurðssyni og sjálfstæðisbaráttunni, muna mest eftir eigin lífsbaráttu, sem er á köflum ansi hörð og þá aðallega í lok VISA tímabilsins. Þau átta sig ekki röksemdum hagfræðinga Seðlabankans og finnst hann bara ekki hafa staðið sig neitt sérstaklega vel undanfarið ár eða svo. Jón og Gunna eru  í ágætis vinnu og flest skyldmenna þeirra hafa örugga vinnu, annaðhvort í álveri staðarins eða í annarri þjónustu, hjá hinu opinbera o.s.frv. Vinnan hefur verið nokkuð örugg undanfarin 10-12 ár. Að auki sjá hjónin ekki betur en að atvinnuleysið sé einmitt að gjósa upp núna og það þótt við höfum krónuna og íslensku stýrivextina að vopni. Jón og Gunna sjá ekki betur en að þrátt fyrir að við séum hér með þessi frábæru hagstjórnunartæki - sem krónan víst er - þá sé verðbólgan hér nú í 11-12%.

Þau Jón og Gunna blanda þessu öllu saman, olíuverðshækkunum, hækkunum á aðföngum og hækkunum vegna falls krónunnar. Jón og Gunna eru alls ekki heimsk, bara venjulegir Íslendingar, sem sjá bara að karfan hjá þeim í Bónus og bílalánið í erlendu myntinni hefur hækkað gífurlega að undanförnu. Hjá Stínu og Palla, sem unnu hjá Eimskip í Hamborg, hafa þau að auki heyrt af því að tryggingar séu ódýrari innan ESB. Þau lögðu reyndar ekki við hlustirnar þegar vinir þeirra hneyksluðust á verðinu á kalda og heita vatninu og reyndar mörgu öðru og bættu við að skattarnir væru þar hærri en hér. Svona eins og flest fólk hafa þau farið til Spánar og keypt þar í matinn og séð hversu ódýr maturinn er. Þau hafa engan áhuga á að vita hvað venjulegur Spánverji hefur í laun og hversu hátt atvinnuleysið er. Líkt og við flest, heyra þau einungis það sem þau vilja heyra.

Á svona tímum er létt að sannfæra fólk eins og Jón og Gunnu og Stínu og Palla um að ESB aðild sé einmitt lausnin á vandamálinu.

Af því að mér líkar vel við núverandi formann og vil honum og flokki mínum allt það besta, finnst mér hálfleiðinlegt að hann og flokksforustan sjái þetta í öðru ljósi en ég. Ég vona að þau hafi á réttu að standa en ekki ég. Ég veit af eigin reynslu að vopnin geta snúist hratt í höndunum á manni og þá er oft erfitt að bakka út úr hlutunum og þetta gildir jafnt um þingmenn, ráðherra og stjórnmálaflokka.

Einu sinni var flokkur, sem hét Framsóknarflokkurinn og var hann um langan tíma mikilvægt stjórnmálaafl á Íslandi ...

Kær kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.5.2008 kl. 22:49

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góð komment.

Þakka þér sérstaklega Guðbjörn fyrir fínar pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.5.2008 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband