Styttist í prófkjör - fjörugur leiðtogaslagur

Sjálfstæðisflokkurinn Það styttist óðum í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, en það verður haldið eftir rúman hálfan mánuð, laugardaginn 25. nóvember nk. Þar verður eftirmaður Halldórs Blöndals á leiðtogastóli í kjördæminu kjörinn og valdir efstu frambjóðendur á lista flokksins í þingkosningum að vori. Flokkurinn hefur mikinn meðbyr hér á þessu svæði og skv. nýjustu könnun Gallups eru fjórir þingmenn inni sem kjördæmakjörnir. Það er glæsileg staða fyrir okkur öll í aðdraganda prófkjörsins.

Nú þegar hafa leiðtogaefnin Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson opnað heimasíður á netinu og kosningaskrifstofu hér á Akureyri. Ennfremur hefur Ólöf Nordal, frambjóðandi í annað sætið, opnað hér kosningaskrifstofu. Um helgina stefnir Arnbjörg Sveinsdóttir að því að opna kosningaskrifstofu á efri hæð að Glerárgötu 20, sama húsi og Greifinn er í. Það er okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri að sjálfsögðu mikið gleðiefni að frambjóðendur í efstu sætin opni hér kosningaskrifstofu og kynni sig og áherslur sínar vel fyrir okkur.

Það er þessum frambjóðendum enda pólitískt séð nauðsynlegt að höfða vel til Akureyringa, þar sem stærsta þéttbýlisbyggð kjördæmisins er. Það stefnir í mjög fjörugan leiðtogaslag. Það er gleðiefni að við höfum val um það hvern við viljum sjá sem leiðtoga hér. Við erum að sjá kapphlaup um lausan leiðtogastól sem getur fært mikla möguleika fyrir þann sem sigrar, svo skiljanlega eru margir sem sýna áhuga og vilja taka þátt. Það styrkir okkur öll að hafa val um hver eigi að leiða listann.

Ég bendi hérmeð á heimasíður þeirra frambjóðenda sem hafa opnað vefgátt
Arnbjörg Sveinsdóttir
Kristján Þór Júlíusson
Ólöf Nordal
Sigríður Ingvarsdóttir
Sigurjón Benediktsson
Þorvaldur Ingvarsson

Ég vona að þetta prófkjör styrki okkur að lokum og við stillum upp samhentri sigursveit til verka í kosningabaráttunni allt fram til 12. maí og að þann dag vinnum við hér sigur og tryggjum að eftirmaður Halldórs á leiðtogastóli verði fyrsti þingmaður kjördæmisins og ráðherra í ríkisstjórn að vori. Eins og staða mála sýnir okkur vel í könnunum er möguleikinn á því svo sannarlega til staðar - sóknarfærin eru til staðar. Við verðum að nýta þau vel og stilla upp sem sterkustum lista. Það mun ég allavega gera.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband