Demókratar ná völdum í öldungadeildinni

Þinghúsið í Washington Stórtíðindi urðu í bandarískum stjórnmálum nú laust eftir miðnætti að íslenskum tíma þegar að demókratar náðu völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings eftir tæplega fjögurra ára meirihlutasetu repúblikana. Demókratar hafa því unnið stórsigur í þessum þingkosningum. Þeim tókst að sigra fulltrúadeildina fyrir tæpum sólarhring og hafa nú náð fullum völdum í þingdeildum Bandaríkjanna og hafa fellt báða þingmeirihluta repúblikana, sem voru rausnarlegir fyrir kosningar þriðjudagsins.

Demókratar tókst með naumum hætti að vinna sigra bæði í Virginíu og Montana. Nú undir lokin voru auga allra á stöðunni í Virginíu. Þar hefur Jim Webb nú tekist að fella George Allen úr öldungadeildinni og Jon Tester felldi Conrad Burns úr sæti sínu í Montana. Þetta eru stórpólitísk tíðindi. Þessir sigrar eru naumir en gríðarlega táknrænir og til marks um algjört afhroð repúblikana í kosningunum. Meirihluti repúblikana var 15 sæti í fulltrúadeildinni en 6 í öldungadeildinni. Þeir hafa nú fallið eins og spilaborg í þessum eftirminnilegu kosningum. Miklar sviptingar það.

Þessi kosningaúrslit eru gríðarlegt pólitískt áfall fyrir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Hann hefur nú þegar fórnað Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, og liggur afsögn hans fyrir og tilnefning Robert Gates sem eftirmanns hans. Fyrir viku sagðist Bush ætla að halda Rumsfeld til loka kjörtímabilsins. Vika er langur tími í pólitík og nú er allt breytt - Rumsfeld er á útleið. Það má kannski segja að sólarhringur sé langur tími í pólitík fyrir George W. Bush. Pólitísk staða hans hefur veikst til mikilla muna. Nú þarf hann að búa við þingið undir stjórn demókrata það sem eftir lifir valdaferli hans. Það verður honum ekki auðvelt.

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, verður nú leiðtogi meirihlutans í þinginu og sá sem þar ræður för. Það verður svo sannarlega athyglisvert að fylgjast með næstu tveim árum í bandarískum stjórnmálum. Það verður lokasprettur stjórnmálaferils George W. Bush. Hans gullaldartíð í bandarískum stjórnmálum heyrir nú sögunni til og hann verður nú að feta í fótspor t.d. Ronalds Reagan fyrir tveim áratugum og una við yfirstjórn þingsins í höndum algjörra andstæðinga sinna. Þeir ráða stöðu mála við staðfestingu dómara- og ráðherraefna forsetans og í fleiri mikilvægum málum, t.d. skipan rannsóknarnefnda. Yfirtaka demókrata á öldungadeildinni er miklu meira pólitískt áfall en það að missa fulltrúadeildina.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í pólitískum refskákum í þinghúsinu tignarlega í heimsborginni Washington, þar sem valdahlutföll hafa færst með dramatískum hætti á örskotsstundu frá liðsmönnum forsetans til andstæðinga hans. Þær tilfærslur hafa gríðarleg áhrif á það sem við tekur og stefnumótun forsetans. Nú verður hann að hugsa sína pólitísku tilveru og hugmyndir út frá því sem andstæðingarnir vilja.

Það má telja það nokkuð öruggt að það verði erfitt fyrir mann af hans tagi. Hann hefur nú þegar boðað Nancy Pelosi og Harry Reid á sinn fund í Hvíta húsinu á morgun til að ræða stöðu mála og reyna að vinna hlutina fram á veg í sameiningu. Einstefna repúblikana í bandarískum stjórnmálum er á bak og burt og nú verður Bush að líta til demókrata við keyrslu sína í gegnum stjórnmálastörfin. 

Framundan eru líflegir tímar fyrir okkur bandaríska stjórnmálaáhugamenn næstu 24 mánuðina, þangað til að Bush flýgur til Texas sem almennur borgari úr valdakerfinu í Washington.

Dems win Senate - frétt CNN

mbl.is Enn mjótt á munum í Virginíu; óljóst hvort kemur til endurtalningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband