Stórsigur hjá Hillary Clinton í Kentucky

Hillary Rodham Clinton Mér finnst það stórmerkilegt eins og staða mála er orðin að Hillary Rodham Clinton vinni enn góða sigra í forkosningabaráttu demókrata. Sigur hennar í Kentucky er afgerandi en hefur þó aðallega táknræna þýðingu á stöðu mála. Barack Obama er kominn það nálægt útnefningunni að hann verður ekki stöðvaður. En sigrar Hillary, nú og í Vestur-Virginíu, sýna veikleikana í framboði hans.

Hillary er auðvitað mikið hörkutól. Mér finnst hún hafa verið mjög sterk síðustu vikurnar og unnið sína vinnu mjög vel. Þrátt fyrir erfiða stöðu hefur henni tekist að halda dampi og sýna að hún hefur mjög sterkan kjarna með sér. Mistök á mikilvægasta kafla kosningabaráttunnar kostuðu hana sigurinn, en hún hefur sýnt síðustu vikurnar að hún getur sigrað, þrátt fyrir að allt bendi til þess að slagurinn sem slíkur sé búinn. Þrátt fyrir að hún eigi mjög lítinn vonarneista í að taka þennan slag á leiðarenda yfirgefa stuðningsmenn hennar í alþýðuhreyfingunni hana ekki og sýna vel styrkleika hennar í baráttunni.

Útgönguspárnar sýndu strax sterkan sigur Hillary. Hún hafði stuðning 62% karla á móti 32% Obama og hjá konum hafði hún 67% á móti 27%. Hún vann í öllum aldurshópum; 55% gegn 39% kjósenda á aldrinum 17-29 ára, 61% gegn 35% kjósenda á aldrinum 30-44; 65% gegn 28% kjósenda á aldrinum 45-64 og 77% gegn 18% á aldrinum 65 og eldri. Semsagt hún rúllaði Obama upp í Kentucky að öllu leyti. Merkileg úrslit eins og umræðan hefur verið í forkosningaslagnum síðustu dagana, þar sem flestir bíða eftir því að Obama nái útnefningunni. Þetta sýnir styrkleika Hillary umfram allt.

Athygli vekur að í alþýðufylkjum á borð við Kentucky segjast aðeins 41% demókrata verða ánægð ef Obama nær útnefningunni. Á meðal stuðningsmanna Hillary eru aðeins 33% ánægð með að hann nái útnefningunni. Á móti segjast 76% demókrata þar verða ánægð ef Hillary nær útnefningunni. Ergó: Obama á mikið verk fyrir höndum þegar að hann nær útnefningunni í fylkjum á borð við þetta.

Demókratar eiga mjög mikið verk fyrir höndum að sameina flokkinn, hann er heldur betur klofinn víða um land eftir harða rimmu Hillary og Obama um útnefninguna.

mbl.is Clinton spáð sigri í Kentucky
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband