Styttist í jólin

Jól Það styttist óðum í jólin, notalegasta tíma ársins. Það er kominn nokkur jólafílingur í mig, eins og ávallt þegar að nóvember hefst. Hef alltaf verið mikill áhugamaður um jólin og ég byrja að plana þau snemma ávallt á hverju ári. Til dæmis er það ævinlega þannig hjá mér að ég skrifa öll jólakort í nóvember, þá kaupi ég þær jólagjafir sem ég gef, ef nokkrar eru undanskildar og ég skipulegg allt.

Desember er mánuður rólegheita hjá mér. Það hefur nær alltaf verið þannig. Ég vil nota aðventuna til að slappa af og hafa það rólegt, njóta góðra laga og stemmningarinnar sem fylgir þessari miklu hátíð. Ég nenni ekki að eyða mánuðinum í því geðveikislega stressi sem fylgir búðunum í desember, því miður. Ég nenni ekki að taka þátt í því og nota því nóvember til að klára það sem mikilvægast er. Það er langbest, trúið mér bara. Annars er ég varla einn um þetta. Ég mun skrifa á öll jólakort sem ég sendi, sem er allnokkur slatti, í næstu viku og allar gjafir nema tvær hafa þegar verið keyptar.

Ég á afmæli í desember, tveim dögum fyrir jól, svo ég kannast við stressið sem fylgir því að eiga afmæli svo til í aðdraganda jólanna. Það vandist skemmtilega vel, en ég hef alltaf vanið mig á það að geta slappað af á þessum afmælisdegi og liggja ekki í búðarrandi. Á ekki við mig. Því er svo gott að geta klárað allt í nóvember og notað desember til hugleiðingar um gildi jólanna, en ekki standandi ergelsis í verslunum Baugsfeðga.

Þessi tími er mun meira virði en það, að mínu mati. Mjög einfalt mál í mínum huga. Vonandi eigum við öll notalegan og ergelsislausan fyrripart desember framundan. Ég ætla allavega ekki að ergja mig í búðum á aðventunni og sérstaklega ekki eyða þorláksmessu hlaupandi í örvæntingu milli verslana eða morgni aðfangadags. Það á að nota nóvember í að klára svona hluti, að mestu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég er að klára öll ytri atriði jólanna í nóvember; gjafir, jólakort og þess háttar. Það geri ég ekki í desember. Í byrjun þess mánaðar skreyti ég húsið og þess háttar og nýt þess að það séu að koma jól. Það á að vera tími rólegheita, íhugunar og notalegheita umfram allt. Það er jólamánuðurinn. Ég nenni ekki að eyða þeim mánuði standandi í stressi uppfyrir haus. En það er allavega svona sem að ég geri þetta.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.11.2006 kl. 09:47

2 identicon

Sæll Stebbi minn!

Alveg er ég sammála þér varðandi undirbúning jólanna. Auðvitað á aðventan að vera tími íhugunar og notalegheita. ekki hefur mér til þessa tekist að láta slíkt gerast. Ástæða þess er að í lok nóvember og í dessember fór mikill tími í fjárhagsáætlanagerð. Nú eru breyttir tímar og önnur vinnubrögð. Rammafjárhagsáætlun sem unnin er á nokkrum mánuðum og líka það að ég er hætt í sveitarstjórnarvafstrinu og get því notað tíma minn betur heima fyrir og með fjölskyldunni. Yndislegt. Kveðja Svansa

Svanhildur Árna (IP-tala skráð) 10.11.2006 kl. 11:09

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir skrifin Svansa mín. Gaman að lesa þetta. Já, ég get svo sannarlega trúað því að þetta verði rólegri aðventa hjá þér en áður hefur verið. Sérstaklega hljóta að hafa verið miklar annir hjá þér meðan að þú varst t.d. forseti bæjarstjórnar á Dalvík á síðasta kjörtímabili. Þannig að þetta verður aðventa rólegheitar hjá þér eins og mér. Ég verð endilega að líta til þín í kaffispjall næst þegar að ég á leið á Dalvík, fer reyndar orðið sjaldan úteftir en ég lít fljótlega. :)

kær kveðja, Stebbi

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.11.2006 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband