Andlát Gylfa Gröndal

Gylfi GröndalGylfi Gröndal, rithöfundur, var jarðsunginn í gær, en hann lést þann 29. október sl. Með Gylfa er fallinn í valinn góður fræðimaður, maður sem ritaði fjölda áhugaverðra bóka sem eftir munu standa til vitnis um vönduð vinnubrögð hans og yfirburðarþekkingu. Gylfi ritaði fjöldann allan af ævisögum. Í huga mér standa þar fremst gríðarlega góðar og fágaðar ævisögur þriggja fyrstu forseta lýðveldisins. Þar var skrifað með hárfínum og nákvæmum hætti um ævi þjóðhöfðingjanna.

Önnur ævisaga Gylfa sem ég met mikils og hef oft lesið er ævisaga hans um Robert F. Kennedy, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, stjórnmálamann sem ég hef alltaf metið mikils. Gylfi skrifaði um hann skömmu eftir morðið á honum fágaða og notalega ævisögu sem stendur eftir með lesandanum lengi eftir lesturinn. Einnig ritaði hann vandaða bók um Lincoln sem ég met mikils. Annað stórvirki má nefna eitt af hans síðustu verkum, ævisöguna um Stein Steinarr. Það var alveg einstaklega gott verk og vandað, skrifað af næmleika og þekkingu um Stein, sem var eitt af merkustu skáldum þjóðarinnar.

Einnig má nefna ævisöguna um alþýðuhetjuna Jóhönnu Egilsdóttur (ömmu Jóhönnu Sigurðardóttur), Sigurjónu Jakobsdóttur (ekkju Þorsteins M. Jónssonar), Tómasar Þorvaldssonar, Eiríks Kristóferssonar skipherra, Björns Pálssonar á Löngumýri, Valdimars Jóhannssonar, dr. Kristins Guðmundssonar, Þorvalds í Síld og Fisk, Huldu Jakobsdóttur í Kópavogi, Kristjáns Sveinssonar augnlæknis, Helgu M. Níelsdóttur og svo síðast en ekki síst Katrínu Hrefnu (dóttur Einars Ben).

Allt eru þetta stórfenglegar bækur, en Gylfi var einn af umfangsmestu höfundum ævisagna og afkastamikill höfundur. Hans ævistarf er mikið og hefur verið farsælt. Ég á megnið af þessum bókum, en ég erfði þær þegar að Lína amma dó, en hún var mikil bókakona og átti þessar bækur. Hún treysti mér fyrir þeim, sem ég mat alltaf mikils. Sennilega vegna þess að ég hef ábyggilega mest gaman af þeim.

En leiðarlok hafa nú orðið hjá Gylfa. Það var sorglegt að honum gáfust ekki fleiri ár til fræðistarfa. En ævistarf hans ber vitni vönduðu verklagi og næmu auga öflugs rithöfundar sem markaði skref í íslenska bókamenningu okkar tíma. Blessuð sé minning hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Dagmar Magnúsdóttir

Já Gylfi Gröndal var sterkur rithöfundur og skáld. Einhverntíman þegar ég var lítil heyrði ég að hann hefði það sem hálfgert hobbý að sitja yfir gömlu fólki á grafarbakkanum. Í dag skil ég hvers vegna. Afraksturinn var frásagnir af sterkum einstaklingum sem lifðu horfna tíma og settu margir hverjir mark sitt á sögu okkar.

Takk fyrir þessa grein Stefán.

Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 11.11.2006 kl. 20:26

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góð orð um skrifin.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.11.2006 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband