24.5.2008 | 13:31
Óheppileg ummæli Hillary um Bobby Kennedy
Enginn vafi leikur á því að Hillary Rodham Clinton urðu á mistök þegar að hún talaði sérstaklega um morðið á Bobby Kennedy, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og öldungadeildarþingmanni, í júní 1968, sem sérstakt dæmi um atburði í langvinnum forkosningaslag. Þó mátti skilja tóninn er hún talaði um forkosningabarátturnar 1968 og 1992 en þetta var mjög óheppilega orðað og eðlilega biður hún afsökunar á þeim hluta, enda var morðið á Bobby mikill harmleikur.
Hillary hefur, eins og ég benti á í síðustu færslu, rétt fyrir sér með það að forkosningaslagir geta verið langvinnir og erfiðir. Demókratar hafa oft upplifað erfiðleika í valinu og það hefur dregist á langinn. Sjálfur líkti ég reyndar forkosningaslagnum nú og 1968 saman fyrir nokkrum vikum í skrifum hér, en það var auðvitað í ljósi þess hve flokkurinn var sundraður í valinu þá. Hið sama hefur stefnt í að undanförnu og stóra spurningin nú er reyndar hvernig muni ganga að sameina brotin, enda hafa tveir frambjóðendur sögulegra þáttaskila barist mánuðum saman og enn enginn náð útnefningunni í slagnum, þó öllu hafi verið beitt. En beint tal um morðið á Bobby er óheppilegt.
Hillary hefur hlotið lítinn stuðning frá Kennedy-fjölskyldunni í baráttu sinni fyrir því að verða fyrsta konan á forsetastóli. Ted Kennedy studdi Obama og í kjölfarið studdu systkinabörn hans; Caroline Kennedy Schlossberg, dóttir Kennedys forseta, og Maria Shriver, ríkisstjórafrú í Kaliforníu, hann. Börn Bobby Kennedy hafa þó skipst í fylkingar í þessum slag. Kathleen Kennedy Townsend, fyrrum vararíkisstjóri í Maryland, og Bobby Kennedy yngri hafa stutt Hillary á meðan Patrick Kennedy, fyrrum fulltrúadeildarþingmaður, og Rory Kennedy, sem var ófædd er faðir hennar var myrtur, fylgdu fordæmi Teddys frænda síns og studdu Obama. Eins og vel hefur komið fram hefur Ethel Kennedy, ekkja Bobbys, stutt Obama og það með þeim orðum að kraftur hans minni sig á kraftinn í Bobby.
Hillary hefur sögulegar tengingar við Bobby Kennedy í pólitísku starfi. Hún situr í öldungadeildarþingsætinu í New York sem hann sat í á sjöunda áratugnum, eftir að hann yfirgaf ríkisstjórnina eftir dauða bróður síns vegna ósættis við Johnson forseta og allt til dauðadags. Aðdáun Hillary á Bobby hefur alltaf komið vel fram en Hillary byrjaði að starfa í flokknum að mig minnir í forkosningaslagnum 1968, þá tvítug, og þekkir því aðstæður vel. Hún hefur alla tíð talað vel um Bobby Kennedy og pólitísk verk hans. Því átti hún að vita betur, enda eiga sorgleg örlög hans ekki að vera umræðuefni í þessum leðjuslag demókrata nú.
Vissulega er alltaf rétt að minnast Bobby Kennedy. Hann var einn traustasti forystumaður demókrata og var bæði mikill pólitískur hugsuður og framkvæmdamaður á mikilvægu skeiði flokksins við völd á sjöunda áratugnum. Bobby lék lykilhlutverk er bróðir hans var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1960, varð dómsmálaráðherra í stjórn hans og var mjög umdeildur sem slíkur en um leið mjög áhrifamikill og stóð sig mjög vel, reyndar svo vel að ný bygging dómsmálaráðuneytisins sem byggð var í upphafi aldarinnar var kennd við hann. Hann var svo mjög traustur sem þingmaður fyrir New York á síðustu árum ævi sinnar.
Bobby Kennedy var í baráttu ævi sinnar þegar að hann dó. Forkosningaslagurinn 1968 var í senn sögulegur og harkalegur. Hann fór í slaginn eftir að Lyndon B. Johnson ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs vegna óvinsælda sinna í Víetnam-stríðinu og átti góða möguleika á að ná alla leið. Enginn veit hvort Bobby hefði náð forsetaembættinu ef hann hefði lifað, en barist var upp á hvern þingfulltrúa í þeirri sögulegu rimmu og náði það hámarki með óeirðunum á götum Chicago-borgar er flokksþingið fór fram.
Eðlilegt er að segja þá sögu. Hinsvegar á Hillary Rodham Clinton bæði að vera það reynd og mælsk að geta talað um aðstæður árið 1968 án þess að tala sérstaklega um sorgleg örlög baráttumannsins Bobby Kennedy, en morðið á honum í miðjum forkosningaslag er einn sorglegasti atburður í sögu bandarískra stjórnmála. Þar sem Hillary situr í þingsætinu hans Bobby Kennedy í New York átti hún að vita betur.
Clinton biðst afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.