Örlög John Bolton hjá SÞ ráðin

John Bolton Valdahlutföllin í Washington eru breytt eftir þingkosningarnar á þriðjudag og demókratar taka brátt við völdum í deildum Bandaríkjaþings. Mikið er nú spáð í framtíð John Bolton, sendiherra USA hjá Sameinuðu þjóðunum. Bendir nú flest til þess að hann missi embættið vegna valdaskiptanna. Hefur verið við því búist það eina og hálfa ár sem Bolton hefur verið í embættinu að til þessa kæmi. Allt frá því að Bush tilkynnti um útnefningu Boltons í embættið þann 7. mars 2005 hefur verið deilt harkalega um hann og ágæti hans.

Deilt var um fortíð Boltons og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin var upp dökk mynd af honum og á það m.a. minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni jókst jafnt og þétt og að því kom að hann var ekki öruggur um stuðning í embættið. Til þess kom í sumarleyfi þingsins í ágúst 2005 að Bush beitti rétti sínum að skipa Bolton án samþykkis þingsins og með flýtimeðferð og gildir sú skipun fram til 3. janúar, er nýtt þing kemur saman.

Nú er sú skipan mála að renna út og benti Bush forseti á það með mildilegum hætti í gær til fráfarandi þingmeirihluta repúblikana í öldungadeildinni að það væri lag að samþykkja Bolton fyrir lok starfstíma þingsins. Verður utanríkismálanefnd þingsins að samþykkja valið áður en það getur farið fyrir þingdeildina. Virðist sú von vera byggð á mjög veiku sandrifi enda leið ekki á löngu þar til að Lincoln Chafee, einn af þingmönnum repúblikana í öldungadeildinni, sem féll í kosningunum á þriðjudag í Rhode Island sagðist ekki myndu láta það vera sitt síðasta embættisverk í þinginu að samþykkja skipan John Bolton, eftir að utanríkisstefna forsetans hefði fengið svo afgerandi skell.

Örlög Boltons virðast því ráðin. Repúblikanar eru ekki samstíga um Bolton úr þessu og borin von er, svo vægt sé til orða tekið, að demókratar samþykki hann. Málið er því fast í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og fer ekki þaðan áður en valdaskiptin verða, enda er málið fallið á jöfnu í deildinni með afstöðu Chafee. Það er því ljóst að Bush forseti verður að fara að leita sér að nýju sendiherraefni í Sameinuðu þjóðirnar sem getur tekið til starfa þar þegar að umboð hins lánlausa John Bolton rennur út þann 3. janúar með umboði fráfarandi deilda Bandaríkjaþings.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Ég segi nú ekki annað en "hamingjunni sé lof", því þessi skaðræðis tréhestur er ekki til stórræðanna - það veit hver heilvita maður með lágmarks þekkingu á forsögu þessa greppitrýnis. Hann hefði verið til tóms tjóns hjá SÞ, og í raun enn einn dómgreindarbresturinn hjá Bush að fá ekki samþykktan einhvern sér handgengan sem sæmileg sátt hefði ríkt um. Það þolir enginn þetta fífl - ekki einu sinni Repúblikanar ... en Bush greyið er reyndar sérfræðingur í að raða ónýtum aulabárðum í lykilstöður kringum sig.

Jón Agnar Ólason, 11.11.2006 kl. 01:33

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll

Er alveg sammála þér. Skipan Bolton sem sendiherra USA hjá SÞ voru mistök. Það er ljóst að hann verður ekki skipaður áfram, og vonandi að í staðinn komi mildari fulltrúi USA í þetta áhrifamikla embætti hjá SÞ.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.11.2006 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband