Áhugavert prófkjör Samfylkingarinnar í borginni

Frambjóðendur SF í Reykjavík Yfir 2500 manns hafa nú kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fer í dag. Þetta er síðasta prófkjör Samfylkingarinnar og væntanlega hið mest spennandi. Þar eru 15 í kjöri, þar af hafa tíu þeirra tekið sæti á þingi, meðal þeirra eru þau 8 sem sitja nú á þingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Allir þingmenn flokksins þar gefa því kost á sér til endurkjörs.

Flest þeirra sem við bætast í prófkjörið nú er því fólk sem er þekkt fyrir störf sín að stjórnmálum. Auk þessu eru nokkrir nýliðar í slagnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er ein í kjöri um fyrsta sætið. Um annað sætið, hinn leiðtogastólinn, takast þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Samstaða virðist að mestu um að þau þrjú verði í efstu sætunum. Það verður spennandi að sjá hvort þeirra verði í öðru sætinu. Þau leiddu lista flokksins í borginni í kosningunum 2003.

Þá var Össur í fyrsta sætinu, enda formaður flokksins, og Jóhanna í öðru, en hún sigraði Bryndísi Hlöðversdóttur í slag um annað sætið. Jóhanna hefur verið á þingi í nærri þrjá áratugi, frá árinu 1978, því með mikla reynslu að baki og er nú starfsaldursforseti þingsins. Jóhanna sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 1999 og verið drjúg í prófkjörum. Össur hefur verið á þingi í 15 ár og var formaður Samfylkingarinnar 2000-2005 og er nú þingflokksformaður. Það blasir við að það þeirra sem verður undir tekur þá annað sætið á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu. Mikið hefur verið talað um slæma útkomu kvenna í prófkjörum flokksins og það gæti hjálpað Jóhönnu Sigurðardóttur í dag.

Um fjórða sætið verður barist af krafti. Þar eru sjö í baráttunni, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þarna getur allt gerst. Hver örlög þeirra verða sem undir verða verður fróðlegt að sjá. Aftur fram á pólitíska sjónarsviðið eru svo komnir þingmennirnir fyrrverandi Ellert B. Schram og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ellert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og 1983-1987 en Þórhildur fyrir Kvennalistann 1987-1991. Ellert fór síðast í prófkjör árið 1982 en Þórhildur hefur það aldrei gert. Fylgst verður mjög vel með hvernig þeim gengur.

Meðal annarra frambjóðenda eru Glúmur Baldvinsson (systursonur Ellerts, sonur Bryndísar Schram og Jóns Baldvins Hannibalssonar), Kristrún Heimisdóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir. Þau eru ungliðarnir í hópnum og hafa öll verið áberandi, hvert á sínu sviði. Kristrún er núverandi varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Reykjavík, Glúmur hefur t.d. verið fréttamaður og Bryndís Ísfold (yngst frambjóðenda) hefur verið virk í ungliðastarfi jafnaðarmanna og er t.d. í mannréttindaráði borgarinnar. Tillaga hennar um græna konu í stað karls í umferðarljós vakti svo sannarlega athygli á dögunum.

Þetta verður altént spennandi prófkjör og fróðlegt að sjá hvernig raðast upp. Meginhluti þessa fólks er allt mjög sterkt pólitískt og hefur gegnt pólitískum trúnaðarstörfum svo að það verður fróðlegt að sjá útkomuna í kvöld.

mbl.is Yfir 2.500 hafa kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband