Beiskur sigur ISG - lítil nýliðun - Guðrún fellur

ISG Úrslit í Samfylkingarprófkjörinu í borginni urðu eins og var þegar að ég hætti að uppfæra í gær. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hlaut fyrsta sætið. Sigurinn er þó nokkuð beiskur fyrir hana. Hún er með rétt um 70% atkvæða í fyrsta sætið, en t.d. hafði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, um 90% í fyrsta sætið í prófkjöri flokksins í októberlok. Vekur þetta sérstaka athygli auðvitað vegna þess að ekkert annað framboð var í fyrsta sætið.

Um var að ræða beina og breiða braut fyrir formanninn. Þetta er því varla gleðiefni fyrir hana. Í Silfri Egils laust eftir hádegið voru Ingibjörg Sólrún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýr kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, að fara yfir tíðindi gærdagsins og mátti greina beiskju í tali ISG. Hún sagði að í Samfylkingunni tíðkaðist nú svo sannarlega ekki að menn fengju rússneskar kosningar. Þetta var ekki sannfærandi tal hjá flokksformanninum, sem var án allra kosninga krýnd sem forsætisráðherraefni, frambjóðandi í Reykjavík norður árið 2003 og varaformaður Samfylkingarinnar.

Kjörsókn hjá Samfylkingarmönnum var heldur ekkert til að hrópa ferfalt húrra fyrir. Þar kusu innan við 5000, færri en í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suður- og Suðvesturkjördæmi í gær. Miðað við að þarna var um að ræða galopið prófkjör vekur þetta allverulega athygli. Sjálfstæðismenn fengu vel yfir 10.000 manns til að kjósa í lokuðu prófkjöri í Reykjavík í lok síðasta mánaðar. Ingibjörg Sólrún hlýtur ekki sterkt umboð sem leiðtogi í Reykjavík, miðað við að hafa verið borgarstjóri í níu ár og auk þess ein í kjöri auðvitað um sætið. Það var allavega ekki sannfærandi að hlusta á hana tala um þetta. Þess má reyndar geta að þetta er fyrsta prófkjörið hennar.

Þetta var prófkjör hinna sitjandi þingmanna heilt yfir sagt. Í sjö efstu sætunum eru sitjandi þingmenn, sem raða sér þar upp. Össur Skarphéðinsson heldur leiðtogastól sínum í Reykjavík og fær nokkuð góða kosningu, miðað við allt sem á hefur gengið hjá honum. Hann missti flokksformennskuna fyrir einu og hálfu ári þegar að svilkonan Ingibjörg Sólrún lagði í hann. Össur má vel við una og hefur risið upp aftur pólitískt svo um munar. Gratúlera með hinum vestfirska sagnamanni. Jóhanna Sigurðardóttir missti leiðtogastólinn sinn og verður í öðru sætinu á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu. Jóhanna er eins og flestir vita starfsaldursforseti þingsins.

Ágúst Ólafur Ágúst Ólafur varaformaður er að fá sterka og góða kosningu ofarlega á lista og hlaut fjórða sætið. Sjö manns sóttust eftir fjórða sætinu og hafði varaformaðurinn sigur í þeirri baráttu. Margir höfðu talið fyrir prófkjörið að hann ætti við ramman reip að draga, en svo fór ekki. Hann hlaut gott umboð, miðað við aðstæður, enda var greinilegt að margir vildu ekki láta hann fá forskot þrátt fyrir varaformennskuna. Helgi Hjörvar hlaut góðan stuðning í fimmta sætið og fékk góðan meðbyr. Hann vann skiljanlega vel á því að vera fulltrúi t.d. öryrkja, enda er hann blindur. Ásta Ragnheiður fékk góða kosningu, betri en margir höfðu búist við.

Um sjöunda sætið tókust undir lok talningarinnar þau Mörður Árnason og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Mörður hafði sætið að lokum og Steinunn Valdís varð áttunda. Það hljóta að teljast mikil vonbrigði fyrir Steinunni Valdísi að hafa ekki komist ofar, sé tekið mið af því að hún var borgarstjóri fyrir Samfylkinguna undir lok stormasamrar valdasögu R-listans og borgarfulltrúi fyrir flokkinn allt frá stofnun. Steinunn Valdís stefndi á fjórða sætið, en endar sem fjórða á öðrum listanum í borginni. Þetta er skv. skoðanakönnunum ekki tryggt þingsæti. Níunda varð Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, en hún var sjötta í fyrstu tölum, og hlýtur hún að vera sár með að hafa ekki halast inn ofar.

Valgerður Bjarnadóttir, ekkja Vilmundar Gylfasonar og dóttir Bjarna Benediktssonar (og því systir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra) varð tíunda í prófkjörinu. Vala hefur lengi verið virk í stjórnmálum. Hún var stoð og stytta Vilmundar á stormasömum stjórnmálaferli og vann ötullega með honum í blíðu og stríðu. Hún hvarf úr íslensku þjóðlífi að mestu eftir sviplegt fráfall Vilmundar. Fyrir nokkrum árum sneri hún aftur og varð virk innan Samfylkingarinnar og fór nú fram í fyrsta skipti. Ég taldi að hún yrði ofar, en ég hefði haldið að Vala yrði öflugur liðsmaður fyrir flokkinn í öruggt sæti. Heilt yfir er því staða mála sigur sitjandi þingmanna og aðeins einn nýliði í átta efstu.

Guðrún Ö. Guðrún Ögmundsdóttir, alþingismaður, féll í prófkjörinu en hún lenti í ellefta sæti og er því á útleið af þingi. Það eru nokkur tíðindi. Fyrirfram hafði ég talið hana standa sterkar en Ástu Ragnheiði t.d. en svo fór sem fór. Það verður sjónarsviptir fyrir kvennaarm Samfylkingarinnar að missa Gunnu Ö. Fyrir neðan Guðrúnu urðu Ellert B. Schram, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir og Glúmur Baldvinsson. Athygli vekur að Ellert og Þórhildur komist ekki ofar, en þetta var þröngur vettvangur vissulega og mjög sterkir frambjóðendur heilt yfir. Þarna voru t.d. 10 frambjóðendur af 15 með þingreynslu.

Tíðindi prófkjörsins er því sigur sitjandi þingmanna, beiskur 70% sigur ISG í fyrsta sætið þar sem enginn slagur var í raun og fall Guðrúnar Ögmundsdóttur. Ofan á allt annað situr eftir merkilega lítil kjörsókn miðað við galopið prófkjör í sjálfri höfuðborginni. Var ekki Bingi annars að segja á vef sínum að þetta sé svipað og var í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík í janúar? Ekki held ég að ISG verði hrifin af þeim samanburði, hreint út sagt.

mbl.is Niðurstaðan ljós í prófkjöri Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband