Gerald Ford langlífastur bandarískra forseta

Gerald Ford Þegar að Ronald Reagan lést í júní 2004 var hann orðinn langlífasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna, 93 ára að aldri. Í dag varð Gerald Ford, 38. forseti Bandaríkjanna, langlífasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna, en nú hefur hann lifað jafnlengi og Ronald Reagan er hann lést. Gerald Ford hefur þá sérstöðu meðal forseta Bandaríkjanna að hafa aldrei verið kjörinn til forsetaembættisins af kjósendum. Hann átti stormasaman pólitískan feril og tók við forsetaembættinu á erfiðum tímum, bæði fyrir þjóðina og Repúblikanaflokkinn.

Gerald Ford var þingmaður repúblikana í fulltrúadeildinni fyrir Michigan á árunum 1949-1973. Nær allan feril Ford í fulltrúadeildinni voru repúblikanar í minnihluta þar, þeir náðu ekki meirihluta þar fyrr en árið 1994, og það með sögulegum hætti, en misstu hann svo aftur nú í kosningunum í vikunni. Ford var leiðtogi minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni á árunum 1965-1973. Það ár sagði Spiro Agnew, varaforseti í stjórn Richard M. Nixon, forseta, af sér embættinu vegna hneykslismála. Nixon ákvað að tilnefna Ford sem nýjan varaforseta og fór hann fyrir öldungadeildina og var staðfestur sem varaforseti í desember 1973.

Á þeim tíma sem Ford tók við varaforsetaembættinu var um fátt meira talað um Watergate-hneykslið, mál sem tengdist inn í helstu innviði stjórnkerfisins. Skref fyrir skref veikti málið sífellt stöðu Nixons forseta og lykilsamherja hans. Að því kom að sannanir sýndu svo ekki var um villst að Nixon vissi af málinu áður en hann hafði sagt áður. Honum varð ekki sætt eftir að þingið ákvað að stefna honum fyrir embættisafglöp og flest benti til að hann yrði rekinn frá embætti með skömm. Hann sagði af sér þann 9. ágúst 1974 og með því varð Ford fyrsti forseti Bandaríkjanna sem aldrei hafði verið kjörinn af landsmönnum sem forseta- eða varaforsetaefni. Hann tók við erfiðu búi. Stjórnkerfið var lamað vegna hneykslismála og erfiðleika.

Ford ákvað að náða Nixon skömmu eftir afsögn hans. Það olli miklum deilum og leiddi til óvinsælda forsetans sem náði aldrei að hrista skuggann af sér. Ford þótti vandvirkur stjórnmálamaður og standa sig vel miðað við aðstæður í forsetaembættinu, en hans biðu miklir erfiðleikar og lömuð ríkisstjórn hvað almenningsálitið varðaði, enda höfðu bæði forsetinn og varaforsetinn sem kjörnir voru í kosningunum 1972 hrökklast frá vegna alvarlegra hneykslismála. Staðan var breytt og forsendur mála við forsetakjörið 1972 hafði algjörlega breyst, enda hvorugur þeirra sem þá hlutu kjör eftir í embættum sínum.

Ford gaf kost á sér í forsetakosningunum 1976. Það gekk þó ekki auðveldlega fyrir hann að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans, en hann tókst á við Ronald Reagan, fyrrum ríkisstjóra í Kaliforníu, um útnefninguna og hafði betur eftir harðan slag. Forsetatign Fords réði þar úrslitum. Reagan átti síðar eftir að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna í sögulegum forsetakosningum árið 1980, elstur forseta við völd og sat í átta ár. Ford valdi Bob Dole (sem varð forsetaefni repúblikana árið 1996) sem varaforsetaefni sitt. Tókst Ford á við Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóra í Georgíu, um embættið. Vann Carter nauman sigur á forsetanum eftir tvísýna og spennandi atkvæðatalningu.

Gerald Ford vék úr sviðsljósi stjórnmálanna, eftir tapið í forsetakosningunum 1976, er hann lét af embætti þann 20. janúar 1977, er kjörtímabili Richards M. Nixon lauk formlega. Til greina kom þó við forsetakosningarnar 1980 að Ronald Reagan myndi velja Ford sem varaforsetaefni sitt. Svo fór ekki og Reagan valdi George H. W. Bush í staðinn. Það er sennilega kaldhæðni örlaganna að eftir að Carter lét af embætti árið 1981, eftir að hafa tapað fyrir Reagan, hafa Gerald og Betty Ford orðið perluvinir Jimmy og Rosalynn Carter.

Heilsa Ford var jafnan upp á hið allra besta en henni hefur þó hrakað jafnt og þétt seinustu tvö árin. Hann kemur nú ekki lengur fram opinberlega og hefur oft á þessu ári verið lagður inn á sjúkrahús vegna veikinda og greinilegt að mjög er tekið að halla undan fæti hjá honum.

Æviágrip Gerald Ford á vef Hvíta hússins

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband