Dagar Guðmundar hjá OR og REI taldir

Guðmundur Þóroddsson Ekki kemur það að óvörum að dagar Guðmundar Þóroddssonar í forystusveit hjá Orkuveitu Reykjavíkur og REI séu taldir eftir það sem gengið hefur á síðustu mánuði í borgarmálunum, einkum eftir augljós átök á milli hans og þáverandi borgarstjóra í Reykjavík í fjölmiðlum er REI-málið stóð sem hæst í vetur. Deilt var þá um trúverðugleika þeirra beggja og augljós trúnaðarbrestur milli aðila.

Þá þegar var varla pláss fyrir báða þessa menn eftir það sem gekk á og átök um atburðarás og stefnuna sem taka ætti í REI og orkuútrásinni. Þá var greinilega kallað eftir því meðal sjálfstæðismanna að Guðmundur ætti að víkja. Hik á að hann kæmi aftur til starfa hjá OR staðfesti það og þessar fregnir um að hann hætti störfum alfarið hjá fyrirtækjunum rökrétt framhald þeirra sögusagna sem geisað hafa síðustu mánuði og deilur um hvert ætti að stefna og persónuleg átök milli aðila í meirihluta og í forystu OR.

Allar lykilpersónur REI-málsins voru stórlega skaddaðar eftir það og gilti þar einu um þá sem leiddu málið innan Orkuveitunnar og innan borgarkerfisins, hinna kjörnu pólitísku fulltrúa. Enda eiga þeir allir að víkja úr lykilstöðum, slík voru mistökin sem gerð voru og mikilvægt að tekið væri á því. Er enginn munur í sjálfu sér hvort að það væru embættismenn eða kjörnir fulltrúar. Niðurstaða REI-málsins er giska einföld og afgerandi hvað það varðar.

Í REI-málinu var sérstaklega alvarlegt að borgarfulltrúar voru ekki upplýstir um hvað var að gerast í Orkuveitunni, í fyrirtæki sem er rekið af borginni sjálfri. Enda varð ljóst að þarna væri uppi sama verklag og var í valdatíð Alfreðs Þorsteinssonar, nú haldið áfram undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, hlutirnir voru illa kynntir meira að segja fyrir borgarfulltrúum meirihlutans og minnihlutinn var í kuldanum. Þetta var afleitt verklag.

Brotthvarf Guðmundar leiðir til þess að spurningin um pólitísk örlög Vilhjálms verði æ háværari. Hann er auðvitað stórlega skaddaður. Staða hans sem leiðtoga hefur gufað að verulega miklu leyti upp. Eftir tólf ára minnihlutasetu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn var með ólíkindum hversu illa hann stóð sig einkum í REI-málinu. Enda tel ég að enginn geri ráð fyrir því að hann verði borgarstjóri aftur, hafi ekki stöðu í það.

Vilhjálmur hefur misst stuðning og traust samherja sinna, þó einhver sátt að nafninu til hafi náðst. Eftir eru brestir sem erfitt er að sparsla í, nema þá bara fyrsta kastið á eftir. Nú þegar að Guðmundur yfirgefur skipið er spurt um stöðu Vilhjálms Þ, þess hins eina sem enn situr með umtalsverð völd af þeim sem mótuðu málið sem fór svo arfavitlausa leið.

mbl.is Guðmundur hættir hjá OR og REY
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Guðmundur var undirmaður stjórnarmanna OR í REI-málinu.  Þeir drógu vagninn.  Ef Vilhjálmur hefði viljað að þessir hlutir sem hann var búinn að vita af svo vikum saman væru kynntir fyrir borgarfulltrúunum sem Vilhjálmur umgengst oft á dag þá hefðu þeir verið kynntir fyrir þeim.  Villi hélt þeim hins vegar frá þeim og Guðmundur, verandi undirmaður hans, hlýddi því.

Sjálfstæðismenn mega ekki tala illa um Villa því hann er pólitískur "leiðtogi" þeirra í borginni.  Þess vegna tala þeir illa um Guðmund.

Þetta er einungis enn eitt klúðrið á þessu skelfilega kjörtímabili Sjálfstæðismanna í borginni sem verður lengi í minnum haft.  Það er skelfilegt að það séu ennþá um tvö ár eftir af þessu kjörtímabili.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 30.5.2008 kl. 17:22

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Embættismenn hjá OR hafa haft völd langt umfram það sem eðlilegt er að mínu mati. Hafa verið eins og kóngar í ríkinu. Finnst það ekki eðlilegt satt best að segja. Þetta er rökrétt endalok málsins. Hinsvegar er ég alls ekki að kenna þeim einum um málið, eins og sést af skrifunum. Þeim beini ég ekki síður að stjórnmálamönnum sem leiddu málið en embættismönnunum. En það fegrar ekki embættismennina sem brugðust, enda hef ég engan varið í þessu máli. Það klúðruðu allir málum og þeir eiga að taka pokann sinn.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.5.2008 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband