Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er rúinn trausti

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Mjög illa er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, hann er rúinn trausti. Gallup-könnunin staðfestir aðeins það sem allir hafa vitað mánuðum saman - flokkurinn er forystulaus og hefur ekki náð að leiða mál áfram af krafti og myndugleik. Sífellt betur sést hversu gríðarleg pólitísk mistök það voru að taka ekki af skarið með leiðtogaskipti eftir að ljóst var orðið að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var búinn að vera sem stjórnmálamaður og trúverðugur leiðtogi.

Fylgishrunið er auðvitað afgerandi merki þess að kjósendur flokksins sætta sig ekki við forystuleysið og vandræðaganginn sem einkennir stærsta flokk borgarmálanna á kjörtímabilinu. Núverandi meirihluti hefur þar að auki staðið sig illa og er réttilega að fá falleinkunn. Eftir REI-málið og vandræðaganginn í febrúar sem náði hámarki með klaufalegasta blaðamannafundi íslenskrar fjölmiðla- og stjórnmálasögu er borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í alvarlegum vandræðum og fylgismæling Gallups eru afgerandi skilaboð til flokksmanna í borginni og um land allt að taka af skarið og krefjast þess að þar verði unnið úr málum og tekið á vandanum.

Þetta fylgishrun eru sterk skilaboð sem verður að taka mjög alvarlega, einkum meðal flokksmanna í hverfisfélögum Sjálfstæðisflokksins. Þetta er áfall sem verður að vinna sig úr, ekki aðeins í lokuðum herbergjum í Valhöll heldur með fundum í flokksfélögum í borginni. Þetta mesta fylgishrun flokksins frá því á vordögum 1994 í aðdraganda afsagnar Markúsar Arnar Antonssonar, þáverandi borgarstjóra, er tíðindi sem eru grafalvarleg fyrir flokkinn. Þetta eru mælingar sem ekki er hægtað sætta sig við og því algjörlega með ólíkindum að ekki hafi verið tekið af málum af forystu flokksins. Hún hefur sofið allt of lengi þetta mál af sér.

Ef ekki verður tekið á málum mjög fljótlega og línur skýrðar með vali nýs leiðtoga og borgarstjóra að ári er Sjálfstæðisflokkurinn dæmdur til þess að stefna í mikið og sögulegt afhroð í næstu kosningum. Ekki er viðunandi að flokkurinn mælist með svo lítið fylgi og andstæðingar hans með meirihlutafylgi, þar af Samfylkingin ein flokka með meirihluta. Þetta sýnir vel að tryggir kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru unnvörpum að snúa baki við flokknum og horfa þeir helst til Samfylkingarinnar til að finna nýja kjölfestu í borgarmálunum. Þetta er þróun sem verður að snúa við. En fyrst verða menn að vakna.

Við öllum blasir að Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík hefur mistekist að taka völdin af ábyrgð og krafti eftir tólf ára minnihlutasetu undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Hann á að axla ábyrgð á glataðri forystu sinni og víkja sem fyrst, ella eiga menn sem hafa til þess völd að leiða hann af velli. Nú verður að fara að sýna myndugleik og snúa hinu tapaða spili og afglöpum sem orðið hafa á vakt flokksins við í tækifæri. Verði ekki snúið vörn í sókn erum við hér að stefna í mesta afhroð flokksins í höfuðvígi hans.

Kominn er tími til að forysta Sjálfstæðisflokksins í höfuðvígi hans á landsvísu verði að fara að sýna myndugleik og taka á slæmri stöðu flokksins í borgarmálunum, ella taka ábyrgð á henni. Þetta er skrípaleikur sem flokksmenn á landsvísu sitja ekki þegjandi undir.

mbl.is Fylgi D-lista aldrei minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mæltu manna heilastur  Stefán Friðrik,þetta er veruleikin/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 31.5.2008 kl. 22:51

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Kemur þú ekki bara suður Stebbi til að redda málum ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.6.2008 kl. 00:57

3 Smámynd: Bumba

Gæti ekki verið meira sammála þér frændi. Meiri farsinn sem þetta er allt saman orðið. Hvað er orðið að festunni og uppbyggingu flokksins að innanverðu? Alveg ótrúlegt, þau eru farin að minna á Samfylkinguna hvað trúverðugleika snertir. Aumt er það. Með beztu kveðju.

Bumba, 1.6.2008 kl. 08:07

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sjálfseyðingarhvöt Sjálfstæðismanna í borginni er með ólíkindum. Spurning hvort að flokkurinn þurfi ekki að fara að skoða sitt innra starf betur. Væri t.d. ekki ráð að fara að hlusta aðeins meira á þá sem kjósa flokkinn?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 1.6.2008 kl. 08:12

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sammála þér Stefán þetta getur ekki gengið svona áfram.

Óðinn Þórisson, 1.6.2008 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband