Obama á sigurbraut - reiðarslag fyrir Hillary

Hillary og Obama Barack Obama er í seilingarfjarlægð frá því að hljóta útnefningu sem forsetaefni demókrata eftir niðurstöðu flokksnefndar í málefnum Flórída og Michigan. Til að eiga raunhæfa möguleika á útnefningunni úr þessu hefði Hillary Rodham Clinton þurft að fá þingfulltrúa í prósentumælingu við sigra hennar í fylkjunum. Þó þetta sé næstbesta lausnin í stöðunni fyrir hana er þetta reiðarslag fyrir möguleika hennar.

Nú vantar Obama aðeins 65 þingfulltrúa til að hljóta útnefninguna en Hillary vantar 240. Þar sem aðeins þrjár forkosningar eru eftir, allar á þriðjudaginn næstkomandi, verður hún að stóla á að ofurfulltrúar færi henni útnefninguna þegar að fyrir liggur að Obama hefur meirihluta þingfulltrúa úr forkosningum síðustu mánaða, með fleiri atkvæði á landsvísu og fleiri ofurfulltrúa. Frekar ólíklegt er að það gerist og væntanlega verður þessi slagur búinn eftir forkosningarnar á þriðjudag og ofurfulltrúar munu þá færa Obama útnefninguna og ljúka þessum harðvítugu og langdregnu átökum.

Hörð orðasenna er niðurstaða nefndarinnar lá fyrir í kvöld gefur til kynna að flokkurinn sé enn mjög klofinn þó þessum átökum um örlög þingfulltrúanna frá Michigan og Flórída sé lokið. Hörðustu fylgismenn Hillary létu þar harkaleg ummæli falla og greinilega ekki sátt í sjónmáli nema þá að nafninu til þegar að Hillary og Obama munu sættast að nafninu til á næstu vikum, allavega til þess að sameinast um flokkshag. Eflaust verður þar spurt um hvort niðurstaðan verði að þau fylki liði saman, þar sem þau hafa bæði notið mikils stuðnings og Hillary t.d. unnið forkosningar seint í ferlinu.

En fókusinn mun nú fyrr en varir færast yfir á baráttu Obama við John McCain um forsetaembættið. Sá slagur mun eflaust verða óvæginn og spennandi - er reyndar þegar hafinn með skotum þeirra á milli síðustu dagana. Við höfum svosem séð harkaleg átök í síðustu tveimur forsetakosningum, en væntanlega verður þetta enn kuldalegra núna. Mennirnir sem munu keppa um forsetaembættið eru enda mjög ólíkir, menn tveggja ólíkra kynslóða og með mjög ólíka reynslu að baki sem undirbúning fyrir þetta valdamesta embætti heims í alþjóðapólitík.

Demókrata þyrstir auðvitað í völdin eftir átta ár utan Hvíta hússins og munu leggja allt í sölurnar fyrir að sigra í kosningunum. Þess vegna verður það lykilatriði fyrir Demókrataflokkinn að sameinast eftir harkaleg átök Hillary og Obama síðustu mánuði, sem lengst af minntu á langvinna styrjöld þar sem ein liðssveit barðist innbyrðis með litlum árangri, nema þá skemma móralinn. Sú vinna sem blasir við nú fyrir Obama er að sameina þá að baki sér sem stutt hafa Hillary mánuðum saman og haldið lífi í baráttu hennar í ólgusjó að undanförnu.

Þegar að repúblikanar töpuðu þingkosningunum 2006 og misstu völdin í öldunga- og fulltrúadeild Bandaríkjaþings vegna óvinsælda George W. Bush og óánægju með utanríkisstefnu hans var ég viss um að næsti forseti Bandaríkjanna yrði demókrati. Átti von á að það yrði reyndar Hillary Rodham Clinton, þó vissulega hafi allir velt því fyrir sér hvort að Barack Obama gæti sigrað hana. Harður forkosningaslagur demókrata hefur í senn veikt og styrkt flokkinn. Þó ekki slúffað möguleikum hans. Enn er þó spurt um hvernig flokkurinn sameinist.

Demókratar hefðu getað gert sér kosningabaráttuna á þessu ári auðveldari með því að sameinast fyrr að baki forsetaframbjóðanda. Langvinn barátta mánuðum saman hefur verið lýjandi fyrir bæði Hillary og Obama. Þau fengu svo til svipað fylgi og nú loksins blasir við hver frambjóðandinn verði. Þó hann hafi haft pálmann í höndunum síðan á ofur-þriðjudegi með tólf forkosningasigrum í röð hefur Hillary tekist með sigrum að lengja slaginn og vekja um leið spurningar um styrkleika Obama, hefur líka afhjúpað veikleikana.

Stóra spurningin verður nú um hvernig Obama og McCain gangi að sameina flokkana að baki sér. Nokkrir mánuðir eru síðan að John McCain náði útnefningu Repúblikanaflokksins og hefur haft sinn tíma til að vinna vissa grunnvinnu. Hann þurfti að sameina flokkinn að baki sér, hefur alla tíð verið umdeildur innan raða hans og átti mikið verk fyrir höndum. Greinilegt er á öllu að honum hefur tekist það, enda átti hann auðveldar með að ná sinni útnefningu en Obama, en það hefur tekið hann langan tíma til að klára sína rimmu.

Stóra spurningin á næstunni er hver varaforsetaefni þessara ólíku forsetaframbjóðanda muni verða. Þar er oftast reynt að finna sigurstranglegt mótvægi, sem geti höfðað til annarra hópa en forsetaefnið og jafnvel yngra og eldra. Þess vegna má búast við að Obama velji eldri og reyndari frambjóðanda til að vega upp reynsluleysi sitt á meðan að McCain velur yngri frambjóðanda sér við hlið til að yngja framboðið, en hann verður elsti forseti Bandaríkjanna frá upphafi, 72 ára, ef hann sigrar.

Kannanir á þessum tímapunkti eru veganesti fyrir frambjóðendur en fjarri því augljóst merki um hvernig muni fara. Löng leið er enn til flokksþinganna síðsumars og ennþá lengri vegferð til kjördags 4. nóvember nk. Dæmi eru um að frambjóðendur nái yfir 15% forskot í sumarbyrjun og missi hana niður og jafnvel tapi kosningum á kjördegi. Löng leið er því eftir. Þó er fyrirfram ljóst að demókratar ættu að hafa sterkari stöðu þegar að einn óvinsælasti forseti Bandaríkjanna er að hætta í pólitík.

Þar má þó ekkert út af bregða og frambjóðendur munu þurfa á öllu sínu að halda til að eygja von á Hvíta húsinu. Eins og staðan er nú bendir flest til þess að repúblikanar eigi á brattann að sækja, en á móti kemur að John McCain er fjarri því með sömu skoðanir og George W. Bush á öllum málum og mun reyna allt til að fjarlægja sig honum eftir því sem nær dregur.

Á meðan að Obama mun predika að tími sé fyrir breytingar mun McCain tala fyrir því að reynslan skipti máli og auk þess muni hann verða traustari fulltrúi í utanríkis- og varnarmálum. Skýr merki um átakalínur blasa þegar við í þessum sögulega slag, þar sem elsti maðurinn og fyrsti blökkumaðurinn berjast um Hvíta húsið.

mbl.is Umdeildir fulltrúar fá hálft atkvæði hver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband