Þorsteinn Pálsson minnist ekkert á Suðrið

Þorsteinn Pálsson

Í leiðara í Fréttablaðinu í morgun fer Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrum forsætisráðherra, yfir úrslitin í prófkjörum helgarinnar. Mikla athygli vekur að Þorsteinn skrifi ekkert um úrslitin í Suðurkjördæmi. Í 16 ár var Þorsteinn Pálsson kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi og leiddi flokkinn þar af krafti. Í ljósi þeirrar stöðu varð Þorsteinn ráðherra til fjölda ára og ennfremur formaður Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn víkur í engu orðum að stöðu mála á sínu gamla svæði. Að sumu leyti er það vissulega skiljanlegt.

Árni Johnsen var í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi í aðdraganda alþingiskosninganna 1999 kjörinn eftirmaður Þorsteins á leiðtogastóli og var í þeim stóli í tvö ár, eða þar til honum varð alvarlega á í messunni og hrökklaðist úr pólitík með skömm. Nú rúmum fimm árum síðar er Árni kominn aftur með sterkt umboð flokksmanna á svæðinu og hlaut t.d. 1877 atkvæði í fyrsta sætið, innan við þúsund færri en Árni M. Mathiesen, nýr kjördæmaleiðtogi í Suðrinu. Það er ljóst að pólitísk tíðindi helgarinnar er að finna að mestu í Suðrinu, þó margt athyglisvert hafi gerst hjá Samfylkingunni í Reykjavík.

Í kosningunum var eftirmanni Árna Johnsen á leiðtogastóli í gamla Suðurlandskjördæmi, Drífu Hjartardóttur, sem tók þingsæti Þorsteins eftir kosningarnar 1999, hafnað með athyglisverðum hætti. Það er mjög eftirtektarvert að ritstjóri Fréttablaðsins fer yfir prófkjörsúrslit helgarinnar og þar er ekki stafkrókur um stöðuna í hans gamla kjördæmavígi á árum áður. Sennilega telur hann það ekki rétt að spá í spilin þar, en þá hefði hreinlegast og best verið að skrifa um eitthvað annað. Svona yfirferð um kjördæmaspilin eftir prófkjörin án umfjöllunar um pólitíska upprisu Árna Johnsen, leiðtogakjör Árna M. Mathiesen og fall Drífu Hjartardóttur er varla trúverðugt.

Ég verð að viðurkenna að mér hefur fundist í senn fróðlegt og áhugavert að lesa leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar eftir að hann kom sér fyrir á ritstjóraskrifstofum Fréttablaðsins við Skaftahlíð. Þar skrifar enda lífsreyndur maður með mikla og fjölþætta reynslu af lífinu og tilverunni. Þar talar reyndur maður á sviði stjórnmála og fjölmiðla og er ennfremur vel kunnugur lífinu utan landsteinana. Þorsteinn er enda víðsýnn maður og getur skrifað með jafnöflugum hætti um alþjóðastjórnmál sem hina hversdagslegu rimmu íslenskra stjórnmála.

En ég rakst fljótt á að ekkert var skrifað um Suðrið er ég las Fréttablaðið í morgun og sú þögn er hrópandi í hausi mér enn þegar að liðið er að kvöldi dags, satt best að segja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Auðvitað veistu að Sjálfstæðismenn munu aldrei skrifa né tala um suðrið að fyrra bragði. Því minna sem talað er um hneykslið, því betra fyrir íhaldið. 

Sveinn Arnarsson, 13.11.2006 kl. 23:19

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég skil reyndar Þorstein mjög vel. Þetta er gamla kjördæmið hans og þetta er gamalt pólitískt vígi hans á árum áður. Hann vann þar lengi fyrir sjálfstæðismenn og markaði sín pólitísku spor þar. Það er erfitt fyrir hann að skrifa einhvern dóm á úrslitin, enda á hann þar marga vini og samherja enn í dag. Það er hinsvegar rökrétt að annar hefði skrifað þessa samantekt með tilliti til þess. En það er annars svona þegar að menn ráða fyrrum forsætisráðherra þjóðarinnar til vinnu á stóru dagblaði að þeir geta ekki skrifað um allt. Það eru reyndar ein helstu tíðindi ársins að fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra þjóðarinnar hafi verið ráðinn til að stýra flaggskipi prentmiðla Baugs.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.11.2006 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband