Baráttan um forsetaembættið í USA að hefjast

Giuliani Í þessum mánuði eru tvö ár til forsetakosninga í Bandaríkjunum. George W. Bush getur skv. stjórnarskránni ekki gefið kost á sér til endurkjörs. Undirbúningur vegna kosninganna er hafinn innan Repúblikanaflokksins. Nú hafa tveir af þeim, sem orðaðir hafa verið við forsetaembættið, hafið vinnuna við framboð. Bæði Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóri í New York, og John McCain, öldungadeildarþingmaður, hafa stofnað fjáröflunarnefnd grunnhliðar framboðs.

Þrátt fyrir að þingkosningar séu aðeins nýlega afstaðnar er stutt stund milli stríða í þessum efnum. Það er auðvitað mikið verkefni að halda í forsetaframboð í Bandaríkjunum og krefst allt að eins og hálfs árs grunni við uppbyggingu maskínu til verka. Það má því gera ráð fyrir að línur um hverjir fari fram þar muni ráðast fyrir mitt næsta ár. Svipuð vinna er þegar hafin í herbúðum Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmanns í New York, sem hlaut glæsilegt endurkjör á dögunum. Það varð ekki til að stöðva orðróminn um framboð að Hillary talaði í sigurræðu sinni til allra landsmanna með þjóðernisást og hvatningu á vörum, en ekki bara þeirra sem kusu hana í borg háhýsanna.

McCain Skv. skoðanakönnunum eru Rudolph Giuliani og Hillary Rodham Clinton vinsælust þessa stundina innan flokka sinna. Það yrði öflugt ef þau myndu mætast í kosningaslag árið 2008. Flestir töldu að þau myndu takast á í öldungadeildarkjörinu í New York árið 2000, en Giuliani fór þá ekki fram vegna veikinda, en hann greindist með krabbamein árið 2000. Þess í stað hlaut Hillary auðvelda kosningu og þurfti ekki að há harðan slag. En nú stefnir mjög margt í að það verði þau sem takist á um forsetaembættið í Bandaríkjunum þegar að George W. Bush lætur af embætti. Það mun verða spennandi slagur, ef af verður. En fyrst taka við forkosningar stóru flokkanna.

John McCain varð undir í hörðum forkosningaslag innan repúblikana við George W. Bush. Það var eftirminnilegur slagur vissulega, enda leit út fyrir framan af að McCain myndi sigra forsetasoninn frá Texas og niðurlægja framboðsvonir hans. Svo fór ekki, Bush komst í höfn og vann að lokum sögulegan sigur í Flórída-fylki gegn Al Gore. 36 dagar óvissunnar í Flórída í nóvember og desember 2000 gleymist engum stjórnmálaáhugamanni sem upplifði þá merkilegu daga. Að lokum stóð hann uppi sem sigurvegari. Árið 2004 hjálpaði McCain Bush við að ná endurkjöri með athyglisverðum hætti. Nú vill hann reyna aftur við að ná forsetaembættinu.

Hillary John McCain verður 72 ára árið 2008. Yrði hann kjörinn forsetaefni repúblikana og forseti Bandaríkjanna í kjölfarið yrði hann elsti forseti Bandaríkjanna, þrem árum eldri en Ronald Reagan var er hann hlaut forsetakjör árið 1980. Enn er Reagan elsti forsetinn við völd, en hann var orðinn tæplega 78 ára er hann lét af embætti. Það verður spennandi slagur reyndar innan Repúblikanaflokksins núna. Þar eru auk þessara tveggja nefndir George Pataki, fráfarandi ríkisstjóri í New York, Mitt Romney, fráfarandi ríkisstjóri Massachusetts, og Bill Frist, fráfarandi þingmaður í öldungadeildinni og leiðtogi flokksins þar, en hann gaf ekki kost á sér í nóvember.

Það stefnir í gríðarleg átök líka í Demókrataflokknum og ljóst að ekki verður Hillary Rodham Clinton krýnd sem forsetaefni vilji hún taka skrefið alla leið. Það verða lífleg átök á báðum stöðum. Þetta er reyndar óvenju galopinn forsetaslagur, enda er þetta í fyrsta skipti frá árinu 1952 þar sem hvorki sitjandi forseti eða varaforseti verða í kjöri og því mikil uppstokkun framundan innan beggja flokka.

mbl.is Giuliani tekur fyrsta skref í átt að forsetaframboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband