Ólafur Ragnar minnist Eysteins Jónssonar

Ólafur Ragnar Það er orðið mjög langt síðan að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hóf stjórnmálaferil sinn. Hann var ungur að árum er hann steig sín fyrstu skref á pólitísku sviði. Þau skref voru stigin innan Framsóknarflokksins. Alla tíð var Ólafur Ragnar umdeildur, ekki síður innan Framsóknarflokksins en á öðrum þeim vettvangi sem hann valdi sér áður en að hann varð forseti Íslands, með fyrri eiginkonu sína, Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur, sér við hlið fyrir áratug. Það var gæfa Ólafs Ragnars að vera vel giftur þá.

Ólafur Ragnar sat í miðstjórn Framsóknarflokksins 1967-1974 og í framkvæmdastjórn 1969-1973. Á þessum fyrstu árum Ólafs Ragnars í Framsóknarflokknum var Eysteinn Jónsson, formaður flokksins. Eysteinn var öflugur maður í íslenskri stjórnmálabaráttu. Hann varð yngstur allra ráðherra, leiddi flokkinn og var lengi forystumaður á sínum heimavelli í pólitík fyrir austan. Í skjóli Eysteins Jónssonar hóf Ólafur Ragnar Grímsson stjórnmálaþátttöku sína. Það kom mér því ekki að óvörum að forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson hefði flutt ávarp til heiðurs Eysteini, en hann hefði orðið tíræður um þessar mundir. Þar er talað af virðingu um pólitísk verk Eysteins og forystu hans í íslenskum stjórnmálum.

Eysteinn Jónsson Austfirðirnir voru pólitískt heimavígi Eysteins Jónssonar. Þar var hans vettvangur í stjórnmálastarfi alla tíð. Eysteinn varð aldrei forsætisráðherra, en hann setti mikið mark á Framsóknarflokkinn og ríkisstjórn landsins um áratugaskeið. Það er mjög vel við hæfi að hans sé minnst. Það er ekki óheppilegt og óeðlilegt að það sé einmitt Ólafur Ragnar Grímsson sem það geri við þetta tíræðisafmæli Eysteins, sem lést árið 1993. Þá skrifaði Ólafur Ragnar hugheila minningargrein. Þar segir Ólafur Ragnar frá bílferð þeirra og Sólveigar, eiginkonu Eysteins, en hann var þá að keyra þeim á milli staða, ungur maður á leið til náms erlendis.

Segir Ólafur Ragnar svo í minningargreininni um það er Eysteinn þar í þeirri ferð tilkynnti Ólafi Ragnari að hann ætlaði að hætta formennsku í flokknum árið 1968: Í skugga sólarinnar, sem sleikti hin sögufrægu fjöll, sagði hann mér að nú ætlaði hann að hætta formennsku í Framsóknarflokknum. Rétti tíminn væri kominn. Honum varð ekki þokað þótt ég beitti öllum þrótti og ákafa ungs manns til að telja honum hughvarf. Auðvitað lét svo sterkur stofn íslenskra stjórnmála ekki ungan strák hagga sér. Hugurinn var skýr. Ákvörðunin hafði verið tekin. Rökin voru margvísleg en þó var fjarri því að hann ætlaði að draga sig í hlé.

Í upphafi áttunda áratugarins lenti Ólafur Ragnar upp á kant við forystu flokksins og hann stofnaði ásamt fleirum ungliðum í Framsóknarflokknum, samtök Möðruvellinga, sem voru til vinstri í flokknum. Ólafur Ragnar vildi kanna þann kost að sameina Framsóknarflokkinn og vinstri flokkana í einn flokk. Ólafur Jóhannesson, sem á þeim tíma var forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var andvígur þessum hugmyndum og Ólafur Ragnar yfirgaf flokkinn ásamt samherjum sínum með miklum hvelli. Hann gekk þá í flokk Hannibals Valdimarssonar, Samtök frjálslyndra og vinstri manna og var t.a.m. formaður framkvæmdastjórnar flokksins 1974-1976. Eftirmálann þekkja allir.

Ólafur Ragnar skrifar af virðingu um Eystein Jónsson. Ræða Ólafs Ragnars er minnisvarði um einn merkasta stjórnmálamann íslensku þjóðarinnar. Það er ekki óvarlegt að telja að Austfjarðagoðinn Eysteinn Jónsson hafi verið sá stjórnmálamaður sem mest mark setti á Ólaf Ragnar Grímsson og mótaði hann til framtíðar í íslenskum stjórnmálum. Leikur lítill vafi á því. Eysteinn mótaði þann mann hugsjónalega sem nú er forseti Íslands til verka í stjórnmálum og þess sem síðar tók við.

Ræða Ólafs Ragnars Grímssonar um Eystein Jónsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband