Stjórn SUS ályktar um Árna Johnsen

Árni Johnsen Við í stjórn SUS samþykktum síðdegis í dag eftirfarandi ályktun um málefni Árna Johnsen, fyrrum alþingismanns, sem varð í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um helgina:

"Að gefnu tilefni gerir stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna þá kröfu til Árna Johnsen sem hugsanlegs þingmanns Sjálfstæðisflokksins að hann sýni auðmýkt þegar hann ræðir um þau brot sem hann var sakfelldur fyrir í starfi sínu sem þingmaður. Háttsemi sú sem Árni var dæmdur fyrir var ekki „tæknileg mistök" heldur alvarleg og mjög ámælisverð afbrot.

Þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafa nú veitt Árna Johnsen annað tækifæri til að sýna að hann geti staðið undir því trausti sem kjósendur sýna kjörnum fulltrúum. Fyrsta skrefið í að endurvinna traust flokksmanna og almennings í landinu er að iðrast fyrri mistaka af einlægni og koma fram af auðmýkt og virðingu.

Ef Árni Johnsen tekur sæti á Alþingi munu fjölmiðlar og aðrir fylgjast vandlega með störfum hans þar. Ætla má að embættisstörf hans verði í meira mæli undir smásjánni en gildir um aðra þingmenn. Standi Árni Johnsen undir þeim auknu kröfum sem til hans verða gerðar hefur hann nýtt tækifærið og lagt grunninn að því að endurheimta það traust sem hann glataði við áðurnefnd afbrot."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

 Ég varð ánægð er ég sá þetta.  Það geta ekki flest allir  verið á þeirri skoðun eða verið sáttir með þessa útkomu  hjá flokknum  á suðurlandi eins og formaður lét í vaka. Og eftir að Árni mælti þessi orð,  þá hefur aukist neikvæðnin í garð flokksins. Ef  Árni væri nú smáhugsandi þá gæfi hann eftir þetta sæti og færi aftar.

Sigrún Sæmundsdóttir, 15.11.2006 kl. 23:34

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þakka SUS fyrir þessa góðu ályktun. Þetta sýnir að æsku þessa lands - já meira segja í Sjálfstæðisflokknum - er ekki alls varnað

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.11.2006 kl. 03:24

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur Sigrún og Salvör fyrir góð orð um ályktunina. Það var nauðsynlegt að SUS kæmi með þessa hlið mála sérstaklega inn í umræðuna. Ályktunin hefur líka fengið góða umfjöllun, sem er í senn ánægjulegt og mikilvægt.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.11.2006 kl. 20:53

4 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

Manni blöskrar að heyra hann svo segja að enginn hafi tapað á þessu !

Ólafur Örn Nielsen, 17.11.2006 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband