Milton Friedman látinn

Milton Friedman Meistari Milton Friedman er látinn, 94 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn af allra helstu talsmönnum einstaklingsfrelsis í heiminum og frjálshyggjugúrú sem athygli vakti og naut vinsælda um allan heim. Friedman fæddist þann 31. júlí 1912. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1976 og er almennt viðurkenndur sem leiðtogi Chicago skólans í hagfræði.

Friedman kom til Íslands í ágúst 1984 og flutti þar fyrirlestur undir heitinu "Í sjálfheldu sérhagsmunanna" (The Tyranny of the Status Quo), þar sem hann sagði, að einn meginvandinn af ríkisafskiptum væri, að gróðinn af þeim dreifðist á fáa, en tapið á marga, svo að hinir fáu, sem græddu á afskiptunum, berðust harðar en hinir mörgu, sem töpuðu, og sigruðu því ósjaldan.

Friedman hafði mikil áhrif á efnahagsstefnu Bandaríkjanna og Bretlands í valdatíð Ronald Reagan og Margaret Thatcher. Um hann hefur mikið verið ritað og áhrif hans ná víða yfir. Í ferð minni til Washington í október 2004 heimsótti ég Cato-stofnunina í borginni. Það var eftirminnileg ferð og gagnleg. Þar fengum við að gjöf merk rit og kynnisefni um þennan mikla hagfræðimeistara, sem markaði skref í heimssöguna með verkum sínum og hugmyndafræði.

Friedman vakti athygli fyrir eftirminnileg ummæli sín og snjallyrði. Hann sagði eitt sinn að hádegisverðurinn væri aldrei ókeypis, með eftirminnilegum hætti, og í Íslandsförinni fyrir rúmum tveim áratugum sagði hann að frelsið væri lausnarorðið fyrir Íslendinga, aðspurður af Boga Ágústssyni, fréttamanni, í ógleymanlegu viðtali. Að leiðarlokum minnumst við Milton Friedman með mikilli virðingu. Blessuð sé minning hans.

Ítarleg umfjöllun um Milton Friedman

mbl.is Milton Friedman látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband