Segolene Royal forsetaefni franskra sósíalista

Segolene Royal Segolene Royal hefur verið kjörin forsetaefni franskra sósíalista. Hún er fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á því að verða forseti Frakklands. Skv. skoðanakönnunum nú er líklegast að helsti andstæðingur hennar í kosningunum verði innanríkisráðherrann Nicolas Sarkozy. Jacques Chirac, núverandi forseti Frakklands, hefur enn ekki tekið formlega ákvörðun um hvort að hann gefi kost á sér til endurkjörs, en hann hefur verið forseti frá árinu 1995. Forsetakosingar fara fram 22. apríl og 6. maí nk. í tveim umferðum, ef þess þarf.

Segolene Royal hlaut yfir 60% atkvæða í forvali franskra sósíalista. Það hefur blasað við nú um mjög langt skeið að hún væri langlíklegasti frambjóðandi sósíalista. Sigur hennar á Laurent Fabius, fyrrum forsætisráðherra, og Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, var því heldur betur afgerandi. Þeir voru fulltrúar hins gamla valdatíma franskra sósíalista á valdatíma Francois Mitterrand sem forseta 1981-1995 og Lionel Jospin sem forsætisráðherra 1997-2002. Sá tími er greinilega liðinn og niðurlægjandi ósigur þessara lykilmanna boðar nýja tíma meðal franskra sósíalista.

Segolene Royal er 53 ára og er í sambúð Francois Hollande, leiðtoga franska Sósíalistaflokksins. Orðrómur var lengi uppi um forsetaframboð hans, en hann ákvað að styðja frekar Segolene heldur en að gera út af við möguleika hennar. Royal vann í tæpan áratug sem ráðgjafi Francois Mitterrand, forseta Frakklands, í Elysée-höll á sviði félagsmála. Árið 1988 var hún kjörin á franska þingið. Hún var til skamms tíma umhverfisráðherra Frakklands og ennfremur aðstoðarráðherra á sviði menntamála og málefna fjölskyldu og barna. Hún var kjörin forseti héraðsstjórnarinnar í Poitou-Charentes í vesturhluta Frakklands í vinstribylgjunni í apríl 2004.

Bretar áttu Margaret Thatcher, þjóðverjar eiga Angelu Merkel og bæði Chile og Finnland hafa kjörið kvenforseta á síðustu tólf mánuðum. Það stefnir í sögulegar forsetakosningar í Frakklandi með vorinu. Í fyrsta skipti á kona raunhæfa möguleika á að verða húsbóndi í Elysée-höll. Það má búast við spennandi og líflegum átökum um forsetaembættið í þessum kosningum. Það bíða nú flestir eftir formlegri ákvörðun Jacques Chirac, forseta, um hvort hann fari fram eður ei.

mbl.is Segolene Royal valin forsetaefni franska Sósíalistaflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband