Óveður í nóvember - frambjóðendur í háska

Sjálfstæðisflokkurinn Það hefur verið rosalegt veður hér á svæðinu að undanförnu. Hér á Akureyri hefur verið vonskuveður alla vikuna og ekki ferðaveður. Við erum svo sannarlega minnt á náttúruöflin. Það eru nú aðeins átta dagar í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Utankjörfundarkosning hófst hér á Akureyri á mánudaginn og hef ég verið að fylgjast með henni. Veðrið hefur auðvitað haft áhrif á prófkjörsbaráttuna og orðið til þess að framboðsfundum hefur verið aflýst.

Spáin fyrir næstu viku lofar ekki góðu. Það mun vonandi ekki fara svo að veðrið hafi áhrif á kjördaginn 25. nóvember. Ef svo verður mun tefjast að fá úrslit og þetta taka lengri tíma en ella. Við erum í mjög stóru kjördæmi, sem nær yfir Siglufjörð í norðri til Djúpavogs í austri. Veður hefur því úrslitaáhrif um það hvernig að prófkjörið gengur fyrir sig. Við verðum með 20 kjörstaði þann 25. nóvember, svo að allt stendur og fellur með veðrinu. Eins og fyrr segir hafa frambjóðendurnir verið einstaklega óheppnir með veðrið og fundir fallið niður. Þetta hefur því gengið brösuglega og verið einstaklega erfitt að lenda í svona aðstæðum.

Einnig hafa frambjóðendur lent í háska. Ólöf Nordal lenti í bílslysi við Reyðarfjörð í gær og var stórheppin að sleppa lítið sem ekkert slösuð í mjög vondu slysi. Ég vil senda Ólöfu mínar bestu kveðjur og vona að hún nái sér sem allra fyrst. Kristján Þór og fleiri frambjóðendur eru veðurtepptir á Egilsstöðum, eins og fram kemur í dagbókarfærslu á vef hans. Fundarhöldum þar var auðvitað aflýst og greinilegt að ekki mun ganga að funda á öllum stöðum eins og lagt var upp með í upphafi. Veðrið gerir alveg út af við þá hlið mála.

En vonandi fer veðrið að skána og þetta geti gengið vel fyrir sig. Ef marka má þó veðurspár stefnir ekki í að svo muni fara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband