Endurkoma Sykurmolanna

Sykurmolarnir Sykurmolarnir er ein vinsælasta hljómsveitin í íslenskri tónlistarsögu og henni hlotnaðist alheimsfrægð. Í kvöld koma Sykurmolarnir saman í Laugardalshöll í fyrsta skipti í tæpan einn og hálfan áratug. Tveir áratugir eru frá stofnun Sykurmolanna á þessu ári. Þetta er því dagur endurkomu fyrir þessa merku hljómsveit og má búast við líflegum tónleikum. Þúsund tónleikagestir koma gagngert á tónleikana erlendis frá.

Sykurmolarnir var stofnuð árið 1986 í framhaldi af stofnun Smekkleysu. Stofnendur Sykurmolanna voru Bragi Ólafsson, Björk Guðmundsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Einar Melax, Friðrik Erlingsson og Sigtryggur Baldursson. Síðar bættust við þau Þór Eldon og Margrét Örnólfsdóttir. Fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar var smáskífa með lögunum Ammæli og Köttur. Varð Ammæli gríðarlega vinsælt um allan heim og markaði það sem við tók. Varð Ammæli eitt vinsælasta lag níunda áratugarins og er hiklaust þekktasta lag hljómsveitarinnar.

Fyrsta stóra plata Sykurmolanna hét Life´s Too Good og kom út árið 1988 og naut mikilla vinsælda um allan heim. Erlendis urðu Sykurmolarnir auðvitað þekktir sem The Sugarcubes. Aðrar plötur Sykurmolanna voru Here Today, Tomorrow, Next Week! og kom út árið 1989 og svo hin stórfenglega Stick Around for Joy, á árinu 1991. Safnplötur Sykurmolanna voru Its It og The Great Crossover Potential. Hljómsveitin hætti störfum árið 1992. Lokatónleikar hljómsveitarinnar voru 17. nóvember 1992, á þessum degi því fyrir fjórtán árum.

Ég hef alltaf verið mikill unnandi tónlistar Sykurmolanna. Hún markaði skref í tónlistarsöguna og eftir standa eftirminnileg lög og lífleg augnablik. Það er ánægjulegt að hún komi aftur saman nú. Ekki eru gefnar neinar vonir með frekari hljómleika, svo að þetta gæti orðið einstök upplifun fyrir aðdáendur hljómsveitarinnar.

mbl.is Þúsund tónleikagestir til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband