Talning í póstkosningu Framsóknar í Norðvestri

Framsókn Talning hefst innan skamms á atkvæðaseðlum í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Rúmlega 1.600 manns skiluðu inn kjörseðlum eða um 65% þeirra sem höfðu atkvæðisrétt. Talið er að Borðeyri við Hrútafjörð og munu úrslit póstkosningarinnar liggja fyrir öðru hvoru megin við miðnættið. Póstkosningin hófst 3. nóvember sl. og lauk síðdegis í dag er skilafresti á atkvæðaseðlum lauk. Mikið mun hafa verið um nýskráningar að ræða og ríkir spenna um úrslitin.

Kosið er í fimm efstu sæti listans. Baráttan um efsta sætið er á milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður á Sauðárkróki, er sú eina sem sækist eingöngu eftir öðru sætinu. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Magnús leiddi listann í síðustu alþingiskosningum og vann átakakosningu milli þeirra um leiðtogastólinn á kjördæmisþingi í nóvember 2002. Síðan hefur allt að því ríkt kalt stríð þeirra á milli.

Það þótti mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi, eins og lagt var upp með. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar á kjördæmisþingi í september. Með þessu er auðvitað ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003, en þó er skilyrt að kona þurfi að vera í þrem efstu sætum.

Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð, eins og fyrr segir. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn. Fyrst og fremst hefur vakið mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er ekki alveg upp á sitt besta. Þar eru átök bakvið tjöldin.

Spenna verður því á Borðeyri í kvöld þar sem talningin fer fram og úrslitanna er beðið með miklum áhuga innan Framsóknarflokksins. Þar ráðast pólitísk örlög þingmannanna tveggja og innri átök í þeim þráðum sem þeim tengjast innan flokkins. Mikla athygli vekur svo sannarlega að talið sé á svo fjarlægum stað og á þessum tíma sérstaklega. Það er engu líkara en verið sé að reyna að fela sem mest innri átökin sem fylgja kjörinu. En já, þetta verður sannkallað spennukvöld innan Framsóknarflokksins.

mbl.is Fyrstu tölur hjá framsókn í NV-kjördæmi birtar um kl. 22
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er bara töff hjá Framsókn á telja á Borðeyri. Íbúar Stranda, Dala og Húnaþings vestra hafa lengi talið að þeirra héruð séu jaðarbyggðir í kjördæminu þrátt fyrir að vera miðsvæðis í því. Með þessu litla atriði sýnir Framsókn að þetta fólk er ekki alveg gleymt.  

 Jón

Jón (IP-tala skráð) 17.11.2006 kl. 20:20

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll

Það er vissulega alveg rétt að það er snjall leikur hjá Framsókn í því ljósi að telja þarna. Minni byggðir hafa orðið að einhverskonar jaðarbyggðum (því miður) í svona stórum kjördæmum eins og Norðvestur, Norðaustur og Suður eru. Í þessum kjördæmum eru oft ólíkir hagsmunir uppi meðal kjósenda og sumir byggðakjarnar hafa orðið meira út undan en aðrir. En það er svosem ekkert að því að telja þarna. Þetta er þeirra val og það vekur allavega athygli. En þetta verða spennandi úrslit og fróðlegt að sjá hvernig fer að lokum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.11.2006 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband