Farið yfir ævi Vilmundar

Vilmundur Gylfason Síðustu dagana hef ég verið að lesa ævisögu Vilmundar Gylfasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, sem ber heitið Löglegt en siðlaust og var skráð af vini hans, Jóni Ormi Halldórssyni. Þetta er mjög merkileg saga svo sannarlega en Vilmundur var einn af litríkustu stjórnmálaleiðtogum sinnar kynslóðar. Bókin var skráð tveim árum eftir andlát Vilmundar, en hann lést sumarið 1983. Það verður seint sagt að stjórnmálamaðurinn Vilmundur og ég höfum aðhyllst sömu hugsjónir í stjórnmálum. Hann var mjög harður krati og barðist fyrir jafnaðarstefnu sinni, stundum með mjög áberandi hætti, en hann var alla tíð stjórnmálamaður skoðana og þótti mjög beittur í sinni pólitík.

Bókin er vissulega mikill minnisvarði um Vilmund. Hann kom sem stormsveipur í íslenska pólitík á áttunda áratugnum. Hann var hinsvegar alinn upp í stjórnmálum. Faðir hans, Gylfi Þ. Gíslason, var lengi formaður Alþýðuflokksins og gegndi embætti menntamálaráðherra samfellt í 15 ár, fyrir viðreisnartímann og á meðan hann stóð og þótti einn svipmesti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Afi hans, Vilmundur Jónsson, landlæknir, var maður skoðana og stjórnmálabaráttu og sjálfur sagði Vilmundur oft að hann væri eins og hann hvað baráttuandann snerti. Pólitík var því í lífi Vilmundar alla tíð og hann fór ósjálfrátt í þá baráttu sem faðir hans hafði helgað sig áður.

Samhliða lestri bókarinnar rifjaði ég upp þáttinn Einu sinni var, sem var sýndur á Stöð 2 í febrúar 2005, en þar fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Tilkoma flokksins varð að veruleika eftir að Vilmundur sneri baki við Alþýðuflokknum, þar sem hann hafði verið eiginlega verið fæddur og uppalinn til stjórnmálaþátttöku í. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980.

Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.

Í þættinum er eiginlega mun frekar sögð saga Stefáns Benediktssonar, arkitekts og fyrrum alþingismanns BJ. Hann fer þar yfir sögu flokksins, vandræði hans og erfiðleika við lok sögu hans. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur (dóttur Bjarna Benediktssonar), og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans.

Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað.

Með þessum þætti og mun frekar lestri bókarinnar kynntist ég betur Vilmundi Gylfasyni sem stjórnmálamanni. Ég hafði reyndar lesið bókina áður, en það er verulega langt síðan. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hvet eiginlega alla stjórnmálaáhugamenn til að lesa pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er nokkuð merkileg lesning og lýsir honum sem stjórnmálamanni langbest. Það má fullyrða að íslenskir kratar hafi misst mikið þegar að Vilmundur hvarf af sjónarsviðinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Blessaður Stefán! Það vill svo til að ég ráfaði inn í fornbókabúðina á Hverfisgötu nú á föstudaginn í leit að Uppreisn frjálshyggjunnar, þegar ég rakst á þessa bók. Fjárfesti í henni og hlakka til að lesa hana... þessi færsla þín kyndir bara undir slíkt :)

Agnar Freyr Helgason, 19.11.2006 kl. 01:52

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Heill og sæll

Já, þetta er virkilega góð bók. Hún er greinilega rituð af pólitískri ástríðu og er vinarkveðja til fallins leiðtoga, sem var greinilega mikill hugsjónamaður sem var í stjórnmálum af miklum krafti. Endalok stjórnmálaferils Vilmundar voru sorgleg, en það er greinilegt að margir hugsa til hans enn í dag.

Hugmyndir hans voru djarfar en eru mikils metnar enn í dag. Ég hef alla tíð hrifist af kraftinum í Vilmundi, krafti hugsjóna og pólitísks neista. Við sem unnum stjórnmálum unnum alltaf frásögn af slíku og ég held að merki Vilmundar verði haldið hátt á lofti þó hans ævi og pólitískum ferli hafi lokið með þessum hætti og svo snemma.

Fyrst og fremst er þetta virkilega öflug bók og mikill neisti í henni. Þú verður svo sannarlega ekki svikinn af henni. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.11.2006 kl. 02:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband