Klofnar Frjálslyndi flokkurinn?

Magnús Þór og Guðjón ArnarMikil innri átök um stefnumótun Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum virðast vera undir yfirborðinu meðal forystumanna þar. Deilt er um áherslur vegna skoðana þingmanna flokksins í kjölfar skrifa Jóns Magnússonar í Blaðinu um þessi mál. Greinilegt er að ekki eru allir sáttir við þá stefnu sem kennd er nú við flokkinn og virðist fremst í andstöðunni við það fara Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri flokksins og dóttir Sverris Hermannssonar, stofnanda flokksins.

Margrét hefur ekki tjáð sig víða um þessi mál en hún var mjög ákveðin í tjáningu í Fréttablaðinu á föstudag hvað þessi mál varðar og einkum varðandi skoðanir sínar á Jóni Magnússyni og sagðist hún ekki vilja vera í flokki sem markaðist af skoðunum Jóns og jafnaði þeim við þjóðernishyggju. Jón hefur víða farið í stjórnmálum. Hann vildi einu sinni áður ganga til liðs við forystu flokksins við litla hrifningu Sverris, eins og fram kemur í ævisögu hans. Jón stofnaði Nýtt afl með fleirum. Fer fáum frægðarsögum af því sem þar gerðist, en flokkurinn mældist varla í kosningunum 2003.

Sverrir hefur fram til þessa vart sparað Jóni stóru orðin og hefur það ekki breyst. Varla hefur Sverrir glaðst yfir því að sjá nú Jón með merki Frjálslynda flokksins í barmi talandi eins og fulltrúi flokksins væri í spjallþáttum og á víðum opinberum vettvangi. Sverrir segir orðrétt um Jón í Fréttablaðinu: "Ég held nú að þetta verði afgreitt í sátt og samlyndi. Um hvað er deilt? Það er deilt um það að Margrét heldur sig nákvæmlega við málefnaskrá flokksins. Og að halda það að einhver utanveltubesefi eins og Jón Magnússon, sem er ekki einu sinni löglegur félagi í Frjálslynda flokknum, hafi eitthvað um það að segja, kemur ekki til nokkurra greina".

Margrét hefur löngum verið talin einn öflugasti forystumaður Frjálslynda flokksins og verið framkvæmdastjóri flokkins frá stofnun árið 1998, eftir að faðir hennar hrökklaðist úr bankastjórastól í Landsbankanum. Hún skipaði þriðja sæti flokksins í Reykjavík í kosningunum 1999, er faðir hennar náði kjöri, og leiddi lista flokksins í Reykjavík suður í þingkosningunum 2003. Litlu munaði að hún næði kjöri á þing, en svo fór ekki. Hún beið lægri hlut í baráttu við Birgi Ármannsson í kjördæminu er yfir lauk og varð að sætta sig við að ná ekki að komast á þing. Hún hefur verið varaborgarfulltrúi Frjálslyndra frá árinu 2002 og býst nú til að halda aftur í þingframboð.

Mikla athygli vakti að heyra í Margréti Sverrisdóttur í Silfri Egils í dag. Hún var ekki ánægð með umræðuna, en gat mjög lítið gert til að kveða niður orðróminn um ósætti og deilur milli arma í flokknum. Þær sögur ganga fjöllum hærra þessa dagana og hafa magnast frekar en annað. Yfirlýsingar Margrétar breyta engu um að greinilega er talað í tvær áttir og ólíkar grunnskoðanir í innflytjendamálum eru þar uppi.  Það er greinileg ólga undir niðri í herbúðum þarna.

Það sanna yfirlýsingar feðginanna mjög vel, enda virðast þau tala með öðrum hætti en þingmenn Frjálslynda flokksins hvað málin varðar. Við hefur enda blasað hversu samhent varaformaðurinn og Jón tala um innflytjendamál. Nú reynir á stöðu mála væntanlega. Það verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu Frjálslyndir taka er yfir lýkur til innflytjendamála, en þar getur aðeins ein skoðun orðið ofan á sem opinber afstaða flokksins. Deilur virðast uppi um hvert skuli stefna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband