Mun Ramses hafa sömu áhrif og Gervasoni?

Paul Ramses Ekki er hægt að komast hjá því að skynja mikla ólgu í samfélaginu vegna máls Paul Ramses. Sama hvaða lagabókstaf er vitnað í til varnar ákvörðunum í þessu hugsa fjöldi fólks til eiginkonu hans og sex vikna barns. Þetta virkar kuldalegt og ómannúðlegt. Saga konunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 var mjög tilfinningarík og ég held að hún hafi haft mikil áhrif á fjölda fólks.

Hef heyrt í mörgum vegna þessa máls í gær og í dag. og heyrt sterkar skoðanir á málinu úr öllum áttum. Finn mjög vel að samúðin í málinu er með Ramses, konu hans og barni. Mér finnst það heldur ekki skrítið. Hefði þetta verið afbrotamaður og stórhættulegur glæpamaður hefði hann ekki átt sér neinar málsvarnir og ekki haft almenningsálitið með sér en í ljósi þess að svo er ekki og ekki er vitnað til neins nema túlkana á lögum finnst fólki illa farið með manninn.

Get ekki betur séð en þetta sé pólitískur flóttamaður sem hafi gert margt mjög gott. Mér finnst það mjög kuldalegt ef það fer svo að maðurinn verði sendur beint út í dauðann með heimför til Kenýa. Finnst mjög ólíklegt að hann staldri lengi við á Ítalíu og endi á heimaslóðum fyrr en síðar. Eftir því sem ég hef heyrt slapp hann þaðan við ótrúlegar aðstæður og á sér ekki bjarta framtíð ef hann lendir í klóm þeirra sem þar fara með völd. Einkum sá þáttur málsins finnst mér skipta mjög miklu máli og leiðir til þess að ég hef samúð með þessum manni og fjölskyldu hans.

Mannlega taugin í mér allavega fær mig til að skrifa um þetta mál. Finnst þetta ekki eðlileg meðferð. Hef tjáð skoðanir mínar hér og endurtek þær aftur. Finnst þær mun sterkari en allar tilvitnanir í lagabókstafinn. Að mörgu leyti minnir þetta mál mig á mál flóttamannsins Patrick Gervasoni á sínum tíma. Mál hans varð pólitískt bitbein og hann hafði áhrif á stöðu þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat við völd. Guðrún Helgadóttir, alþingismaður, beitti sér fyrir málstað Gervasonis og setti ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens í mikla hættu vegna þess árið 1980.

Mál Gervasoni vakti líka mikla athygli og hann varð einn umtalaðasti maður ársins 1980. Því máli lauk þó með því að hann fór. Man satt best að segja ekki hver örlög hans urðu, en væntanlega tókst Guðrúnu með sínu afli og baráttunni fyrir málstað hans að ljúka málinu farsællega. Gott ef hann endaði ekki í Danmörku. En hvað með það. Þar sást að stjórnmálamaður getur sett heilt kerfi út af sporinu með því að berjast einlæglega og af sannfæringarkrafti fyrir því sem viðkomandi telur rétt, hvað svo sem kerfið og lagabókstafurinn segir.

Kannski fer það svo að Paul Ramses kemur aldrei hingað aftur og fær ekki að vera hér. En eftir umtalað mál þar sem tengdadóttur þáverandi umhverfisráðherra var hyglað sérstaklega finnst mér fjarstæðukennt að þegja um akkúrat þetta mál. Vonandi finnst á því einhver lausn sem allir geta sætt sig við. Mér finnst ekki eðlilegt að koma svona fram við mann sem ekkert hefur brotið af sér, en er aðeins landflótta maður vegna stjórnmálaskoðana sinna.

mbl.is Undirskriftarlisti til stuðnings Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Góð grein Stebbi. Það var virkilega lúalegt að læðast heim til fjölskyldunnar í skjóli nætur án þess að gefa Paul nokkurt tækifæri til að áfrýja þessari ákvörðun. Ég hef lýst því yfir á bloggsíðu minni að ég mun berjast gegn kjöri Íslands í öryggisráð SÞ verði þessi gerræðisákvörðun ekki leiðrétt. Land sem sendir lögreglu á föður nokkra vikna barns og rífur hann úr faðmi fjölskyldunnar á ekkert erindi í öryggisráðið.

Guðmundur Auðunsson, 4.7.2008 kl. 13:34

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður Stefán Friðrik

Frábært framtak að skrifa um hræðilega framkomu dómsmálaráðherra og hans fylgisveina. Farið var með Paul eins og harðsvíraðan glæpamann frá Íslandi. Honum fylgt hvert fótspor og voru að mér er sagt fjórir lögregluþjónar sem fylgdu honum úr landi.

Þetta minnir líka á framkomu stjórnvalda gagnvart Gyðingum á fjórða og fimmta áratug sl. aldar. Þeir sendu gyðinga úr landi eða hömluðu að þeir kæmust hingað. Sumir voru sendir til baka til Þýskalands í Útrýmingarbúðir Nasista. Í Kenýa er Paul á dauðalista svo þá vitum við hvað Björn og hans fylgissveinar hafa á samviskunni og þetta kemur óorði á Ísland.

Guð blessi þig og varðveiti

Kær kveðja

Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.7.2008 kl. 16:44

3 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Nú væri okkur líklega hollt að hafa manneskju á borð við Guðrúnu Helgadóttur á þingi.

Heimir Eyvindarson, 4.7.2008 kl. 17:42

4 Smámynd: Ragnheiður

Nákvæmlega, nákvæmlega...góður pistill hjá þér

Ragnheiður , 4.7.2008 kl. 22:07

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Mjög svo sammála þér Stebbi.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.7.2008 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband