Líður að lokum prófkjörsbaráttunnar

Sjálfstæðisflokkurinn Það líður að lokum prófkjörsbaráttunnar hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi. Á laugardaginn ganga flokksmenn hér að kjörborðinu og velja eftirmann Halldórs Blöndals á leiðtogastóli flokksins í kjördæminu og frambjóðendur í efstu sæti framboðslistans. Mesta spennan er auðvitað hver verði nýr leiðtogi í kjördæminu. Þar takast á þau Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, og Þorvaldur Ingvarsson, læknir.

Mér finnst lítið bera á málefnum í þessari prófkjörsbaráttu. Enda er þetta fólk svipaðra áherslna sem takast á. Flokksmenn eru fyrst og fremst að velja forystumann, hvernig týpu þeir vilji sjá við stjórnvölinn í kjördæmastarfinu í þessum kosningum og næstu árin. Það bíður mikið verkefni nýs leiðtoga. Flokkurinn hlaut aðeins tvo þingmenn kjörna í síðustu þingkosningum og verkefni nýs leiðtoga verður að sækja að meira fylgi og efla stöðu flokksins á svæðinu. Kannanir hafa verið að gefa okkur sóknarfæri upp á mikla fylgisaukningu. Eftir sunnudaginn hefst verkefnið fyrir nýjan leiðtoga að sækja þetta fylgi - sækja fram í kosningunum.

Mér finnst eftirsjá af Halldóri Blöndal. Ég verð fúslega að viðurkenna það. Halldór hefur unnið vel fyrir flokkinn hér og fært okkur forystu sem hefur verið gagnleg og góð fyrir okkur öll. Hann hefur á þeim 23 árum sem hann hefur verið kjördæmaleiðtogi hér stýrt af krafti. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan leiðtoga að taka við keflinu. Við höfum notið þess að eiga traustan og öflugan forystumann. Halldór stóð sig vel um daginn er hann skammaði samgönguráðherrann vegna málefna Akureyrarflugvallar. En nú er komið að leiðarlokum. Við munum þó auðvitað njóta reynslu og þekkingar Halldórs í baráttu næstu mánaða. Hann er öflugur liðsmaður.

Það verður mikið um að vera um helgina. Við höfum kjörfund í Oddeyrarskóla á laugardaginn milli kl. 9:00 og 18:00 og á 20 öðrum stöðum í kjördæminu á sama tíma. Talning atkvæða hefst eftir hádegið á sunnudeginum, en það tekur sinn tíma í svo víðfeðmu kjördæmi að safna öllum atkvæðum saman. Fyrstu tölur ættu að liggja fyrir kl. 18:00 á sunnudag, sólarhring eftir að kjörstaðir loka á Akureyri. Það verður spennandi að sjá fyrstu tölur og stöðu mála. Heilt yfir finnst mér þessi prófkjörsslagur vera flokknum til sóma. Veðrið hefur sett sinn strik í reikninginn varðandi fundi frambjóðenda, en nú hefur batnað yfir í því og vonandi mun kosningin ganga vel.

Ég bendi hérmeð á heimasíður þeirra frambjóðenda sem hafa opnað vefgátt
Arnbjörg Sveinsdóttir
Kristinn Pétursson
Kristján Þór Júlíusson
Ólöf Nordal
Sigríður Ingvarsdóttir
Sigurjón Benediktsson
Þorvaldur Ingvarsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband