Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsókn

Kristinn H. Gunnarsson Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, tilkynnti síðdegis á Rás 2 að hann ætlaði ekki að taka þriðja sætið á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem hann hlaut í póstkosningu flokksmanna fyrr í þessum mánuði. Þessi ákvörðun kemur svo sannarlega ekki að óvörum. Það var mikið pólitískt áfall fyrir Kristinn að verða undir í leiðtogaslagnum við Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, með rúmlega 200 atkvæða mun. Væntanlega hefur ráðherrastóll Magnúsar þar spilað líka stóra rullu.

Það má segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stóð hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum. Pólitískt áfall er réttnefni fyrir útkomu Kristins H.

Flest stefnir væntanlega í sérframboð hans. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Þessi ákvörðun um að fara ekki fram fyrir Framsókn eru engin tíðindi eins og staðan var. Það á ekki við pólitískan baráttumann eins og Kristinn H. að daga uppi í þriðja sætinu. Varla vildi þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir gátu varla verið einfaldari.

Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.

Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Halldór hlýtur að gleðjast með þessi tíðindi, nú rétt áður en hann heldur til kommisarvistar í Köben. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú. Hægriarmur flokksins er enda laus við Kristinn H.

Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi. Kristinn H. var reiður og fúll í pistli á vef sínum í dag. Hann er sár og beiskur eftir þessa útkomu. Það væru mikil tíðindi ef þetta yrði hans svanasöngur og síðasta pólitíska snerra. Sýnist allir búast við sérframboði þessa baráttumanns sem varla fer sneyptur af sviðinu. Hann mun væntanlega láta fyrrum samherja finna fyrir sér.

Menn eru auk þessa auðvitað mikið að spá í Valdimar Leó, óháða krataþingmanninn í Kraganum, sem tók hatt sinn og staf í Samfylkingunni í gær live on TV og gekk á dyr. Óánægja flokksmanna þar er greinileg og lítil eftirsjá þó sárindin með missi þingsætis sé greinileg. En hvenær ætli Valdimar Leó stígi skrefið til fulls og banki á dyr Guðjóns Arnars?

mbl.is Harma ákvörðun Valdimars um úrsögn úr Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Nú ertu þrisvar búinn að nefna að Valdímar Leó sé á leið í Frjálslynda flokkinn, en hefur ekkert haldbært um það. Hvað hefur þú fyrir þér með því að hann sé á leiðinni í xF?? (hann hefur sjálfur harðneitað!)

Sveinn Arnarsson, 21.11.2006 kl. 09:33

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það hefur verið þrálátur orðrómur um þetta eftir að Valdimar Leó mætti á stofnfund bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Mosfellsbæ. Ég hef heyrt þetta úr öðrum áttum síðustu daga líka. Steingrímur Sævarr Ólafsson hefur margoft fjallað um þetta ennfremur á vef sínum og gengið eiginlega enn lengra í þessum fullyrðingum en nokkru sinni ég hef gert. Greinilegt er að Valdimar Leó ætlar í framboð aftur, annars væri hann varla að þessu. Við bíðum annars og sjáum þá bara til hvað verður, en ég er þess fullviss að það verður hjá frjálslyndum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.11.2006 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband