Hvar eru siðprúðu samfylkingarmennirnir núna?

Grindavík Við fregnir af falli meirihlutans í Grindavík, þar sem Samfylkingin sleit samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn án sýnilegrar ástæðu og nefna eitt mál sérstaklega, verður mér ósjálfrátt hugsað til allra stuðningsmanna Samfylkingarinnar sem töluðu svo hátt þegar meirihlutar í Reykjavík og Bolungarvík féllu fyrr á þessu ári. Þá voru stór orð látin falla og mikil dramatík sett á svið og meira að segja mótmælt vinnulaginu.

Ekki virðist vera jafnmikil hneykslan yfir sambærilegri atburðarás í Grindavík nú. Veit ekki hvort það segir meira um sveitarstjórnarpólitík eða Samfylkingarfólk. Eflaust voru mótmæli þeirra fyrr á árinu bara hrein pólitík en ekki bara umhyggja fyrir sveitarfélagi sínu eða hagsmunum þess. Þar var sett á svið leikþáttur til að gráta valdamissinn sem fylgir falli meirihluta. Erfitt er að finna út hver veldur slíkum slitum, eflaust eiga allir hlutaðeigandi einhvern hlut að máli, og furðulegt að menn reyni að kenna öðrum um slíkt eða ofurdramatíseri hlutina rétt eins og við munum eftir af mótmælum í Ráðhúsinu í janúar.

Meirihlutar koma og fara í sveitarstjórnum. Þannig getur hið pólitíska eðli orðið þar sem engum einum aðila eru falin völd með skýrum hætti. Vissulega er þetta sögulegt kjörtímabil í Reykjavík. Í síðustu kosningum náði enginn einn flokkur eða bandalag flokka meirihluta í borgarstjórn í fyrsta skipti frá borgarstjórnarkosningunum 1978 og semja þurfti. R-listinn hafði geispað golunni og Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki umboð til að leiða borgina einn, eins og kannanir höfðu bent til að gæti orðið lengi vel í kosningabaráttunni. Þá þegar var ljóst að staðan öll væri mun opnari og opið á ítalskt ástand þar sem meirihlutar gætu komið og farið, eins og gerist oft í öðrum sveitarfélögum víða um landið.

Auðvitað er fall meirihluta á miðju tímabili aldrei merki stöðugleika. En lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa umboð til verka. Ekki verður kosið aftur þó einn meirihluti falli og stuðningsmönnum fallins meirihluta líki ekki valdaskiptin. Umboðið er fjögur ár og kjörnum fulltrúum ber sú skylda að mynda nýjan meirihluta falli sá sem fyrir er og ekkert annað er í stöðunni. Fjarstæða er að tala um upplausn þegar að kjörinn fulltrúi með fullt umboð úr kosningum sér hag sínum ekki borgið í meirihlutasamstarfi og heldur í aðrar áttir og myndar nýjan meirihluta.

Ánægja Samfylkingarmanna með svipaða atburðarás nú og þeir kvörtuðu yfir fyrr á árinu vekur allavega athygli, svo ekki sé meira sagt. Get ekki séð hvað er öðruvísi. Er leiðtogi Samfylkingarinnar í Grindavík ekki bara að fiska eftir bæjarstjórastól?

mbl.is Nýr meirihluti í bæjarstjórn Grindavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Mig minnir að þér hafi bara fundist það sjálfsagt að meirihlutar féllu í Bolungarvík og Reykjavík. Stebbi...ætli við vitum ekki minnst hvað þarna hefur gengið á og ég ætla bara að bíða og sjá og heyra áður en ég legst í einhvern gír í þessu.....í það minnsta ætla ég ekki að kveða upp neina sleggjudóma um persónulegar langanir einstaklinga

Jón Ingi Cæsarsson, 9.7.2008 kl. 16:49

2 Smámynd: Sverrir Einarsson

Grindvíkingarnir hafa bara lært af Reykvíkingum og Bolvíkingum.....eða það held ég.

Sverrir Einarsson, 9.7.2008 kl. 17:43

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ein skoðun í umhverfismálum fyrir kosninga önnur eftir kosningar. Ein skoðun í hvalveiðum til heimabrúks önnur í útlöndum. Ein skoðun í Reykjavík önnur í Grindavík o.s.f..............

Sigurður Þórðarson, 9.7.2008 kl. 19:40

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jón Ingi: Málið snýst ekki um mig, heldur Samfylkingarfólkið sem talaði um að fall þessara tveggja meirihluta væru dýr fyrir sveitarfélögin og þar væri gengið gegn lýðræðinu. Sama fólk hlýtur því að hneykslast á verklagi eigin fólks. Get ekki séð nein merki um það og því er þetta bara ekta hræsni, hvorki meira né minna. Þeir sem hæst létu þá en þaga nú hafa gengisfellt sig stórlega. Enda var þetta bara pólitísk sýndarmennska hjá þeim. Get svo ekki betur séð en þetta sé valdabrölt hjá samfylkingarmönnum í Grindavík. Þeir geta ekki bent á neitt sem veldur slitunum. Þeir sem mótmæltu stöðunni í Bolungarvík, á rökum þess að engar málefnalegar ástæður væru, hljóta að mótmæla þessu. Og þó, á varla von á því, enda var þetta pólitísk sýndarmennska.

Sverrir: Það breytir engu um það að þögn Samfylkingarmanna sem fordæmdu áður er æpandi.

Sigurður: Nákvæmlega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.7.2008 kl. 21:28

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það hefur a.m.k ekkert komið fram sem er trúverðugt sem réttlætir þetta en það er örugglega gaman að vera bæjarstjóri og hvað þó það kosti Grindvíkinga nokkra tugi milljóna.

Óðinn Þórisson, 10.7.2008 kl. 13:20

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Mér sýnist þessar millur þarna smámunir miðað við milljarðinn á Laugaveginum

Jón Ingi Cæsarsson, 10.7.2008 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband