Morðvopnið í Palme-málinu fundið?

Olof Palme Tveim áratugum eftir morðið á Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, bendir flest til þess að morðvopnið sé fundið. Mikill leyndarhjúpur hvílir enn yfir því hvað gerðist í Tunnelgötu í Stokkhólmi að kvöldi föstudagsins 28. febrúar 1986 er Palme var myrtur. Hann var ásamt eiginkonu sinni, Lisbeth, á heimleið frá kvikmyndahúsi í miðborg Stokkhólms þegar að tilræðismaður varð á vegi þeirra og skaut þau af skömmu færi. Palme lést á leiðinni á sjúkrahús en Lisbeth lifði árásina af.

Þetta var eftirminnileg atburðarás og hafði áhrif á alla sem fylgdust með fréttum og upplifðu þennan tíma. Sérstaklega stóð þetta okkur nærri, enda Svíþjóð nálæg okkur og fram að því hafði það aldrei gerst að norrænn þjóðarleiðtogi hlyti slík örlög. Sænska þjóðin var enda felmtri slegin. Tveim áratugum síðar er málið enn óupplýst. Olof Palme hafði við andlát sitt verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svíþjóðar í fjöldamörg ár, verið forsætisráðherra Svíþjóðar 1969-1976 og 1982-1986. Stórt skarð varð innan flokks hans og í sænskum stjórnmálum við sviplegan dauða hans. Ingvar Carlsson tók við pólitískum embættum hans, en arfleifð Palmes er enn áberandi í sænskum stjórnmálum.

Olof Palme Gátan um hver það var sem myrti Olof Palme á götuhorninu í Stokkhólmi fyrir tveim áratugum er eins og fyrr sagði óleyst. Þó bendir flest til þess að Christer Pettersson hafi myrt Palme. Lisbeth, ekkja Palmes, var eina manneskjan sem sá morðingjann augliti til auglitis. Hún hafði meðvitund allan tímann þrátt fyrir að hún hefði særst í árásinni. Hún bar vitni fyrir dómi um það að Pettersson væri morðinginn. Þrátt fyrir það var hann sýknaður. Reyndar má segja að lögreglan í Stokkhólmi sem stýrði rannsókninni hafi með öllu klúðrað henni á frumstigi og með því gert ókleift að leysa í upphafi hver myrti Palme.

Pettersson neitaði til fjölda ára að hafa banað forsætisráðherranum. Á dánarbeði árið 2004 viðurkenndi hann að hafa myrt Palme. Sekt hans hefur þó aldrei formlega verið staðfest svo öruggt sé, þó flest bendi til þess að augljósast sé að Pettersson hafi myrt Palme. Nú fyrir skömmu kom fram í nýrri heimildarmynd sem gerð var til að minnast morðsins haft eftir vini Petterssons að hann hefði séð hann skjóta Palme, en það hafi verið fyrir mistök. Ætlun hans hafi verið að ráða eiturlyfjasala af dögum en farið mannavillt.

Það eru stór tíðindi málsins að morðvopnið hafi verið fundið. Fannst byssan, Smith og Wesson 357, við köfun í vatni nærri Mockfjerd í Dölunum. Fram kemur í sænskum netmiðlum í dag að byssunni hafi verið stolið í innbroti í Haparanda árið 1983 og verið notuð við rán í Mockfjerd í Dölunum síðar það sama ár. Rannsóknir á kúlum úr byssunni þykja benda til þess að hún hafi verið notuð þegar Palme var myrtur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi merki fundur varpar meira ljósi á þetta eitt athyglisverðasta morðmál síðustu áratuga á Norðurlöndum.

mbl.is Hugsanlegt morðvopn í Palme-málinu fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband