Sigrún Björk væntanlega næsti bæjarstjóri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, verður væntanlega næsti bæjarstjóri á Akureyri í stað Kristjáns Þórs Júlíussonar, nýkjörins leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem verið hefur bæjarstjóri í tæpan áratug. Ákvörðun um eftirmann Kristjáns Þórs og tímasetningu starfsloka hans í embætti mun liggja fyrir síðar í þessari viku. Kristján Þór hefur sagt, sem eðlilegt er, að bæjarstjóraskipti verði nú og hann einbeiti sér nú alfarið að nýju verkefni sínu, sem er að leiða flokkinn til sigurs hér á kjördæmavísu.

Það má telja nær öruggt að Sigrún Björk verði bæjarstjóri og taki við embættinu innan skamms. Fari það svo verður hún fyrsta konan til að gegna embætti bæjarstjóra hér á Akureyri. Sigrún Björk hefur verið hér bæjarfulltrúi frá árinu 2002, leitt menningarmálanefnd og stjórn Akureyrarstofu og verið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Hún er því okkur öllum kunn hér. Hún er reyndasti sitjandi bæjarfulltrúi flokksins utan Kristjáns Þórs, fráfarandi bæjarstjóra, og stendur þessu því næst að mínu mati. Það liggur því beinast við að hún taki við bæjarstjórastarfinu.

Í meirihlutasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi embætti bæjarstjóra árin 2006-2009 en Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, gegni embættinu síðustu tólf mánuði kjörtímabilsins, 2009-2010. Það er því ljóst að þrír bæjarstjórar verða á Akureyri á kjörtímabilinu. Það er nú ljóst að leiðtogaskipti verða í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Það er því hið eina rétta að röð manna færist upp, eins og ég sagði hér fyrr í dag. Sigrún Björk verði bæjarstjóri og Elín Margrét, sem var þriðja á listanum í vor, verði forseti bæjarstjórnar. Um þetta er að ég tel góð samstaða heilt yfir.

Það verða miklar breytingar hér nú þegar að Kristján Þór lætur senn af embætti bæjarstjóra og heldur í önnur verkefni. Það tryggir uppstokkun í bæjarkerfi flokksins og spennandi tíma. Það er ekkert vandamál fyrir okkur að skipa málum nú með öðrum hætti, enda höfum við hæft og gott fólk í flokksstarfinu og í ábyrgðarmiklum embættum í okkar umboði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband