Ólafur F. tilbúinn til að kvitta upp á eigið klúður

Ólafur F. MagnússonMér finnst það mjög kómískt að Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, hafi verið tilbúinn til að skrifa upp á eigið klúður í embætti með því að afsala sér borgarfulltrúasætinu til að reyna að endurvekja Tjarnarkvartettinn sáluga, sem hann sjálfur slátraði. Þetta er held ég besti pólitíski brandari ársins, burtséð frá mörgu öðru fyndnu.

En ég held að rétt sé að vorkenna Ólafi F. nú þegar hann missir borgarstjórakeðjuna. Hann hefur spilað svo ævintýralega rassinn úr buxunum með verklagi sínu að undanförnu að leitun er að öðru eins. Fyrst henti hann Ólöfu Guðnýju út úr skipulagsráði, svo ræður hann Gunnar Smára í óljós verkefni undir formerkjum Dægradvalar og svo þegar hann hefur misst allt býðst hann til að upphefja Margréti Sverrisdóttur.

Þvílíkt og annað eins - er þetta ekki efni í sápuóperu um ástir og pólitísk örlög frjálslyndra og óháðra, hvað svo sem sá hópur heitir annars frá degi til dags. En ætlar Ólafur F. að axla sín pólitísku skinn með því hvernig hann spilaði sig út úr borgarstjóraskrifstofunni og afhenda Margréti Sverrisdóttur sætið eða er þetta bara pólitískur leikaraskapur?

Hversu einlægt eða trúverðugt þetta boð Ólafs F. Magnússonar um afsögn telst mun eflaust ráðast. Mínir heimildarmenn innan Sjálfstæðisflokksins telja þetta uppspuna og auglýsingabrellu hjá leifum Tjarnarkvartettsins. En beðið er nú yfirlýsingar borgarstjórans fráfarandi um framtíð hans í borgarmálunum sem greinilega er í óvissu ef þessi orðrómur er réttur, burtséð frá því að hann er að missa borgarstjórastólinn.

Mikið væri það nú fyndið ef hann myndi nú standa við fyrra boð og leyfa Margréti að klára kjörtímabilið. Eða ætlar hann að sitja sem áheyrnarfulltrúi í borgarráði?


mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur

Stebbi, hvort heldur þú að borgarbúar vilji frekar? D+B með 28,8% stuðning eða Tjarnarkvertett með Dag sem borgarstjóra, sem er oddviti flokks sem nánast helmingur borgarbúa mundi kjósa ef þeir fengju að kjósa í dag?

Ingólfur, 14.8.2008 kl. 16:14

2 Smámynd: Bumba

Hvernig dettur Ingólfi í hug að borgarbúar muni kjósa vinstra pakkið? Það verður aldrei. Með beztu kveðju.

Bumba, 14.8.2008 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband