Örlagaríkt og falskt lokalag hjá Tjarnarkvartettinum

Óskar Bergsson Greinilegt er á atburðarás síðustu daga að Samfylkingin hefur verið svo uppljómuð af velgengni í skoðanakönnunum að það gleymdist að huga að þeim möguleika að Óskar Bergsson gæti orðið oddamaður í borgarmálum, rétt eins og Björn Ingi Hrafnsson áður. Boð til hans á örlagastundu um að styðja Tjarnarkvartettinn í óljósri mynd reyndist absúrd-veruleiki.

Ég held að það komi engum að óvörum að Samfylkingin hafi gleymt að huga að samstarfsaðilum í minnihlutanum og hafi blindast af eigin velgengni þar sem himnasælan virðist í seilingarfjarlægð, en samt svo fjarri, burtséð frá því hvort flokkurinn geti svo sótt það fylgi sem hann mælist með á þessum tímapunkti á hálfnuðu kjörtímabili. Þar var talið að Óskar myndi sigla með burtséð frá öllu öðru, á þeirra skilmálum en ekki öðrum atriðum í stöðunni. Oddaatkvæðið hans hafði sín áhrif er á reyndi, en ekki fyrir þá.

Ljóst er með atburðum síðustu viku að R-listinn verður ekki endurreistur, þrátt fyrir stöðuna í borgarmálunum undanfarna tíu mánuði. Samfylkingin vildi fyrir síðustu kosningar ekki jöfn valdaáhrif í R-lista fjórðu kosningarnar í röð en hafði ekki erindi sem erfiði í sjálfum kosningunum. Nú virðist Samfylkingin geta fengið betri kosningu og þess vegna er enginn áhugi á að endurmynda það samstarf. Framsóknarflokkurinn hafði verið hliðarkarakter í borgarmálunum í minnihlutasamstarfi kenndu við Tjarnarkvartettinn og sótti auðvitað sín áhrif þegar á reyndi.

Velgengni í könnunum og niðurstaða í kosningum þarf ekki alltaf að fara saman. Samfylkingin reyndi það í kosningunum árið 2006, þegar R-listinn var sleginn af vegna framavona allra aðila. Á þeim forsendum að Samfylkingin vildi drottna yfir minnihlutanum mátti eiga von á að samstaða þeirra væri engin og myndi bresta þegar á reyndi. Með því að endurreisa sig nú hefur Framsóknarflokkurinn náð aftur valdastöðu til að hafa áhrif á stöðu mála. Kannski mun sú valdastaða tryggja þeim oddastöðu aftur í næstu kosningum, hver veit.

Umræðan um Tjarnarkvartettinn hefur verið undarleg síðustu dagana. Þegar talað var um myndun meirihluta úr minnihlutatölu en með óljósum stuðningi varamanns kjörins fulltrúa sem aldrei ljáði máls á afsögn nema til að tryggja eigin valdastöðu enn og aftur náði umræðan hringnum í fáránleika. En hver veit nema fráfarandi borgarstjóri nái aftur aðalsöngrödd í hinum falska Tjarnarkvartett eftir allt sem á undan hefur gengið.

Merkilegustu tíðindi síðustu dagana felast þó í þeim veruleika að R-listinn heyrir sögunni til og verður ekki endurreistur á rústum fallinna meirihluta. Vissulega hefði atburðarás síðustu tíu mánaða getað orðið kjörstaða fyrir minnihlutaöflin til að binda sig saman í þessum glundroða en það gekk ekki upp. Það er merkileg söguleg þróun, en væntanlega hefur prímadonnustaða Samfylkingarinnar þar lykiláhrif á.

mbl.is Samfylkingin hafnaði nýjum Reykjavíkurlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það sem er líka merkilegt er að ekkert bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn nái meirihluta í næstu kosningum í Reykjavík. Hann á eftir að velja sér leiðtoga og þar bíða Júlíus, Hanna Birna og Gísli Marteinn í startholunum að taka slaginn.

Á sama tíma kemur Samfylkingin ósködduð út úr ölduróti sviptinga í borgarmálum, með glæsilegan og óumdeildan foringja. Því er margt sem bendir til þess að Samfylkingin verði stærsti flokkurinn í Reykjavík eftir næstu kosningar.

Vissulega er það rétt að líkt og Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki til með að ná meirihluta að þá verður á vinstri væng ekki myndað bandalag undir R-lista. Því verður að gera ráð fyrir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur myndi borgaraleg íhaldsöfl, en Samfylking og Vinstri grænir myndi stemmingu hugljúfrar jafnaðarstefnu.

Afrakstur umróts í Reykjavík er að tími örflokka sem eru opnir í báða enda er liðinn.  Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.8.2008 kl. 13:43

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég er alveg sannfærður um að sf er að toppa á kolvitlausum tíma.

Þessi meirihluti verður að vinna vel og ná trausti fólks - ef það gerist og Hanna Birna stendur sig vel í borgarstjórastólnum ætti þetta samstarf að vera gott fyrir báða flokka.
Menn verða að vera duglegir að koma fram í fjölmiðlum og kynna hvað er að gerast.

Óðinn Þórisson, 16.8.2008 kl. 13:54

3 Smámynd: Davíð Þór Kristjánsson

Það eru spennandi tímar framundan í borgarmálum og þó skoðanakannanir enduspegli gremju fólks undanfarið þá er hreinlega ekkert að marka þær í dag. Nú er komin tími til að láta verkin tala og Hanna Birna virðist hafa alla burði til að leiða þetta samstarf til frábærra verka og mér líst mjög vel á Óskar sem er röggsamur og kemur vel út í alla staði. Samfylkingin má líta í eigin barm eins og Stefán segir enda sváfu þeir þyrnirósasvefni í minnihlutanum í stað þess að leita málamiðlana með framsóknarmönnum.

Davíð Þór Kristjánsson, 17.8.2008 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband