Nicolas Sarkozy í forsetaframboð

Nicolas Sarkozy Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, hefur nú formlega tilkynnt um forsetaframboð sitt. Forseti Frakklands verður kjörinn í tveim umferðum, ef með þarf, 22. apríl og 6. maí nk. Áhugi Sarkozy á forsetaembættinu er löngu kunnur og þessi yfirlýsing hans kemur engum að óvörum. Það vekur þó mikla athygli að hann lýsi yfir framboði sínu áður en vitað er hvort að Jacques Chirac, núverandi forseti Frakklands, gefi kost á sér eður ei.

Lengi vel var talið útilokað að Chirac færi fram aftur, en það vakti undrun margra er Bernadette, eiginkona hans, lýsti því yfir í mánuðinum að hann hefði ekki enn útilokað þann valkost. Þessi staða mála bendir til þess að ekki verði samstaða um kandidat hægrimanna. Það að frambjóðendur séu farnir að lýsa yfir áhuga á forsetastólnum á hægrivængnum með forsetann enn í hugleiðingum um pólitíska stöðu sína vekur altént verulega athygli og hugleiðinga stjórnmálaáhugamanna. En nú líður væntanlega að því að línur skýrist á hægrivængnum og forsetinn þarf mjög bráðlega að taka ákvörðun um pólitíska framtíð sína og fyrirætlanir.

Flestir ganga þó að því sem gefnu að Chirac hætti. Hann er orðinn veiklulegur og sést hefur á síðustu mánuðum að heilsa hans er tekin að dala. Hann hefur væntanlega hvorki úthald né áhuga á að halda í annað fimm ára kjörtímabil. Ef marka má kannanir hafa Frakkar ennfremur takmarkaðan áhuga á honum nú. Chirac hefur mistekist að skipta um áherslur og stefnu í kjölfar taps í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2005 um stjórnarskrá ESB. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í fyrra.

Í staðinn var hann gerður að innanríkisráðherra. Töldu bæði Chirac og Dominique de Villepin, forsætisráðherra, að Sarkozy myndi ekki geta staðið undir því. Það minnkaði ekki vinsældir hans að vera þar og hann virðist langvinsælasti stjórnmálamaður Frakka á hægrivængnum nú í upphafi þessa mikilvæga kosningavetrar í frönskum stjórnmálum. Chirac hafði væntingar um að de Villepin gæti notað forsætið í stjórninni sem stökkpall í forsetaframboð en svo fór ekki - hann skaddaðist verulega á því, enda þótt klaufalegur. Sarkozy virðist geta leikandi létt tryggt sér útnefningu og það jafnvel án atbeina forsetans og stuðningsmanna hans.

Sarko, eins og hann er almennt kallaður, telst óskabarn hægrimanna fyrir kosningarnar og mælist langvinsælastur þeirra nú og mun væntanlega takast að verða kandidat hægriblokkarinnar, hvað sem Chirac tautar eða raular. Forkosningar hægrimanna um opinberan kandidat þeirra fer fram í janúar. Þar sem Sarkozy er umdeildur gæti hægriblokkin klofnað upp. Það myndi aðeins styrkja Segolene Royal, frambjóðanda sósíalista, sem tryggði sér útnefningu flokks síns með yfirburðum fyrr í þessum mánuði. Flest bendir til kapphlaups milli Sego og Sarko - gæti það farið á hvorn veginn sem er.

En beðið er nú ákvörðunar Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem væntanlega mun taka af skarið með pólitíska framtíð sína fyrir jólin. Það er mikið hugsað í Elysée-höll þessar vikurnar, er líður að úrslitastund í frönskum stjórnmálum og væntanlega pólitískum leiðarlokum hins umdeilda 74 ára forseta, sem er að upplifa sína endamánuði í embætti með sama beiska hættinum og forveri hans, Francois Mitterrand, gerði er líða tók á árið 1994 og fram undir síðustu mánuðina á árinu 1995.

mbl.is Nicolas Sarkozy býður sig fram til forseta Frakklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband