Síðbúin afsökunarbeiðni á tæknilegum mistökum

Árni Johnsen Um síðustu helgi birtist grein eftir Árna Johnsen í Morgunblaðinu. Þar baðst hann afsökunar á afbrotum sínum fyrir fimm árum og að nota orðin: tæknileg mistök, um þau alvarlegu afbrot sem leiddu til þess að hann hrökklaðist af þingi með skömm. Ég las þessa grein með áhuga fyrst í kaffipásu í Oddeyrarskóla hér á Akureyri á laugardagsmorgun þar sem fram fór kjörfundur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í kjördæminu. Þetta var athyglisverð og eftirtektarverð grein, svo mikið er alveg víst.

Ég hef á þessum vef talað hreint út um málefni Árna Johnsen. Það hefur ekki verið nein tæpitunga, eins og allir vita sem lesið hafa. Mér blöskraði afleitt orðalag Árna í fjölmiðlum eftir að hann fékk annað tækifæri til framboðs fyrir Sjálfstæðisflokkinn eftir lögbrot hans á sínum tíma, sem leiddi til þess að hann varð að sitja í fangelsi fyrir. Með orðum sínum mélaði Árni Johnsen þetta gullna tækifæri og gerði að engu þá góðvild sem hann mætti meðal fjölda fólks og gerði forystumönnum Sjálfstæðisflokksins mjög erfitt fyrir. Þetta var alveg skelfilegt klúður hjá þessum manni, svo hreint út sé talað.

Mér fannst þessi grein merkileg í ljósi þess hve langt var liðið frá ummælum Árna um tæknilegu mistökin. Þá voru um tvær vikur liðnar frá þessum dæmalausu ummælum og ekkert heyrst í Árna áður nema máttlaust yfirblaður í Fréttablaðinu nokkrum dögum áður. Ég er einn þeirra sem hefði alveg getað hugsað mér að taka Árna í sátt hefði hann beðist afsökunar á réttum tímapunkti og unnið málið með eðlilegum hætti. Það kaus hann að gera ekki. Ég get því ekki litið á þessa grein með öðrum augum en að þarna komi fram þvinguð afsökunarbeiðni í ljósa hita umræðunnar sem kviknaði vegna orðavals Árna.

Mér fannst merkilegast við að lesa greinina að ég trúði ekki orði af því sem þessi maður var að skrifa. Ég sá aðeins fyrir mér sama mann muldra orðin tæknileg mistök um lögbrot sín, þar sem reynt var að gera lítið úr alvarlegum afbrotum, sem enn eru í minni landsmanna. Mér finnst gríðarleg reiði almennra flokksmanna innan Sjálfstæðisflokksins vegna þessara ummæla hafa komið vel fram í ályktunum Sambands ungra sjálfstæðismanna og Landssambands sjálfstæðiskvenna. Það eru skoðanir forystufólks í stórum landssamböndum innan flokksins. Það er rödd sem skiptir máli, á því leikur enginn vafi í huga fólks. Úrsagnir úr flokknum tala líka sínu máli.

Það er erfitt að snúa úr þessari stöðu. Ég er enn sama sinnis nú og ég var í skrifum hér á föstudagskvöldið. Mér fannst þessi grein skilja lítið eftir sig. Hefði hún komið viku fyrr hefði ég jafnvel getað hugsað mér að segja að þessi maður ætti skilið einhvern séns á því að vera fyrirgefið. Mér varð enda að orði við sessunaut minn í kaffipásunni í Oddeyrarskóla þennan laugardagsmorgun þegar að við ræddum um þetta: Too little - too late. Fá orð en þau segja allt sem ég hef að segja um þessi skrif.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

 Ég las þessa afsökun og er sammála. Ef hún hefði komið strax eftir þessi ,, mistök,, þá hefði ég kanski hugsað smá til Árna, en ekki nú og sérstakleg er hann skrifar, að mig minnir, eitthvað á þá leið að spurning fréttamannsins hefði komið honum á óvart.

En Árni má eiga það að hann vann vel fyrir sitt kjördæmi hér áður fyr, ef hann tók eitthvð að sér að gera þá gerði hann það. En svona er bara ekki hægt að stinga undir stól og gleyma.  Auðvita á að gefa fólki annað tækifæri EF það sýnir að það sé þess verðugt. En það ætti líka að skoða hvort að það ætti ekki að líða lengri tími frá broti og að uppreisn æru.

Ég var og er ekki Davíðs-fan, hann var aldrei í uppáhaldi hjá mér, en eitt er ég viss um að þetta heðfi ekki viðgengist í hans tíð.

Sigrún Sæmundsdóttir, 30.11.2006 kl. 02:49

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er viss um það að ef hann Mr Johnsen hefði verið Svíi, þá hefði þetta ekki viðgengist...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.11.2006 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband