Beðið eftir Obama - varaforsetaefnið kynnt í dag

obama appBarack Obama mun svipta hulunni af varaforsetaefni sínu á næstu klukkustundum. Hann hefur tekið ákvörðun en lætur fjölmiðlana engjast í biðinni og nýtur sviðsljóssins. Pressan bíður spennt eftir því að valið verði opinberað, en svo mikil spenna er reyndar í loftinu að CNN hefur beina útsendingu frá heimilum allra líklegustu varaforsetaefnanna á vefsíðu sinni, þeir eru greinilega við öllu búnir þegar tilkynningin kemur.

Obama brýtur blað í bandarískri stjórnmálasögu með því að opinbera varaforsetavalið í tölvupósti til allra þeirra sem eru á póstlista hans, en ekki á kosningafundi í lykilríki í kosningabaráttunni, nú þegar rúmir 70 dagar eru til kjördags. Þetta er til marks um hina nýju tíma þar sem netið skiptir öllu máli, mun frekar en gamaldags trix baráttu fyrri tíma. Nýstárlegt og flott - segir allt sem segja þarf um hvort sé mikilvægara nú, netið eða gömlu góðu kosningafundirnir.

Fjölmiðlarnir vestanhafs velta helst fyrir sér Bayh, Biden og Kaine sem valkostum, rétt eins og ég gerði í pistli hér á vefnum í gær. Enda eru þeir traust veðmál. Eftir því sem liðið hefur á daginn hafa vangaveltur um Chet Edwards, fulltrúadeildarþingmann í Texas (reyndar fyrir heimahérað Bush forseta), hinsvegar aukist. Er sagður vera líklegur valkostur. Kemur fjölmörgum á óvart, enda Edwards fjarri því þekktur og gæti orðið áhugavert val einkum vegna þess. Auðvitað verða það stórtíðindi ef hann verður valinn, umfram þremenningana.

Obama hefur þegar hringt í alla sem komið hafa til greina á síðustu vikum og tilkynnt þeim niðurstöðuna. Þrátt fyrir það hafa Biden, Kaine og Bayh verið eins og pókerfés og látið á engu bera, þó þeir viti niðurstöðuna. Fannst þó Bayh brosa ansi breitt reyndar, veit ekki hvort það bendir til þess að hann verði varaforsetaefnið.

Skráði mig áðan á þennan margfræga póstlista og bíð því eftir niðurstöðunni eins og aðrir. Verður áhugavert að sjá hvað Obama gerir eftir biðina löngu, hvern hann velur. En mikil verður nú sæla fjölmiðlanna þegar að þeir losna úr þessari spennu sem hefur verið svo áberandi í allri umfjöllun þeirra síðustu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband