Obama - Biden: plúsar og mínusar í stöðunni

Barack Obama og Joe Biden Bandarískir kjósendur eru nú farnir að máta sig við tvíeykið Obama-Biden á elleftu stundu fyrir flokksþingið í Denver. Þeir sem áttu von á sjarmerandi varaforsetaefni með stjörnuhæfileika til að heilla kjósendur í lykilfylkjunum hafa örugglega orðið fyrir miklum vonbrigðum. Í staðinn fá þeir gráhærða manninn í jakkafötunum, reyndan mann án poppstjörnuglansans.

Í dag eiga þeir sína fyrstu framboðsstund í Springfield. Eflaust munu allir með snefil af pólitískum áhuga horfa á hvernig þeir lúkka saman, gamli maðurinn og vonarstjarnan. Þetta er ekta framboðstvíeyki sem reynir að samtvinna trausta reynslu og stjörnuljóma. Veit ekki hvort það á eftir að heilla alla kjósendur, enda voru margir sem vildu fá reynslu í umbúðum stjörnuljóma, t.d. í Evan Bayh eða Hillary Rodham Clinton.

Eftir margra mánaða spár um hvern Obama veldi við hlið sér var ekki óeðlilegt að hann veldi að lokum reynsluna, honum vantaði hana sárlega og veðjaði frekar á þann hestinn sem færði honum undirstöður undir stjörnuljómann. Mér finnst þetta mjög traust val en velti því fyrir mér hvort ungu fólki muni finnast Obama sami vonarneistinn um breytingar í Washington með ekta kerfiskarl með áratuga tengsl bakvið tjöldin sér við hlið. Framboðið verður auðvitað eldra í miðri reynslunni. Ekki verða allir hoppandi sælir.

En ég held að Obama hafi metið þetta rétt að því marki að reynsluna skorti. Hann gat ekki farið á leiðarenda með framboð sem byggði eingöngu á því sem hann hafði. Breytingamaskínan varð að víkja og hann sækir í þann reynslubrunn sem Hillary Rodham Clinton reyndi að marka sér. Vissulega mjög kaldhæðnislegt, en Obama varð að gera fleira en honum gott þótti. Hefði hann haft traust forskot nú hefði hann haft frjálsari hendur með valið og örugglega frekar valið Tim Kaine eða Kathleen Sebelius.

Skiljanlega eru stuðningsmenn Hillary fúlir. En það er bara staðreyndin að Hillary kom aldrei til greina, hún hafði mikinn farangur með sér og hafði auk þess stjörnuljóma sem hefði yfirskyggt bæði Michelle og Barack Obama á árinu þeirra. Þau voru búin að ná það langt að þau vildu ekki framboð með fyrstu konunni er átti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu. Er heldur ekki viss um að Hillary hafi viljað vera varaforsetaefnið. Obama er mun veikari frambjóðandi nú en í vor og hún ætlar að bíða þetta af sér.

Hverjir eru helstir plúsarnir við Biden. Förum yfir þá.

+ Traustur talsmaður fyrir framboðið í utanríkismálum. Obama var vandræðalegur þegar hann talaði um átakamál á erlendri grundu og skorti þungann í tal sitt með sína punkta við hliðina á sér. Biden getur talað blaðalaust um helstu málefni alþjóðastjórnmála og gert það bæði með því að fanga athyglina og talað af viti. Þetta skorti Obama og þetta mat hann að lokum sinn helsta veikleika, veikleika sem varð að tækla með varaforsetaefni sem ekki talaði með því að skyggja á sig sjálfan.

+ Eldri borgarar eru mjög hrifnir af honum. Hann gæti náð til eldri borgara og alþýðuhópanna sem studdi Hillary út í rauðan dauðann í leiðarlokunum í júní. Biden er sjálfur að verða eldri borgari. Hann verður 66 ára eftir nokkra mánuði og er því sex árum yngri en John McCain. Obama skortir sárlega stuðning í þessum hópum, þeim hópi gæti Biden náð.

+ Biden er góður í pólitískum árásum og rökræðum. Getur oft verið ansi beittur og sparar sig hvergi í alvöru pólitískum slag. Getur verið kjaftfor og árásargjarn. Hann mun augljóslega eiga að tækla John McCain, starfsfélaga sinn í öldungadeildinni í rúma tvo áratugi, og passa upp á rökræðuna við repúblikana. Verður einskonar varðhundur og getur rifist við McCain um hernaðar- og utanríkismál fram og til baka.

+ Eins og allir vita hefur Delaware aðeins þrjá kjörmenn og er traust vígi demókrata svo Biden kemur ekki með neitt stórt hnoss að borðinu fyrir Obama. Hinsvegar á hann traustar tengingar til Pennsylvaníu, enda fæddur þar og bjó allt þar til hann var tíu ára. Hann gæti talað fyrir framboðinu sannfærandi bæði í Ohio og Pennsylvaníu. Annarsstaðar mun hann ekki eiga séns á að leika lykilhlutverk. Obama þarf að stóla á sjálfan sig með lykilfylkin.

+ Biden er kaþólikki. Talar þó um trúmál án þess að virka eins og trúboði.

Mínusarnir eru margþekktir. Hann er lausmáll og getur sagt of mikið á örlagastundu, hefur oftar en ekki látið ummæli falla sem hann sér eftir og gæti komið framboðinu í vandræði. Er engu skárri en Bill Clinton og John Kerry hvað það varðar að geta misst sig á viðkvæmasta augnabliki. Hann er orðinn 66 ára og mun ekki fúnkera vel með breytingamaskínu Obama og spurning hvort framboðið geti auglýst sig þannig. Hann færir ekkert traust á borðið í kjörmannapælingunum.

Hvað missir Obama hinsvegar með því að hafa ekki valið Evan Bayh ekki sér við hlið? Það er eitt og annað, sumt mjög traust sem hefði getað ráðið úrslitum. Mér finnst reyndar Obama taka mikla áhættu með því að hafa ekki valið Bayh, enda hefði hann fært honum möguleika í fylkjum og haft stjörnuljóma með reynslunni.

Förum yfir nokkur atriði um hvað Obama er að missa af án Evan Bayh.

- Hann missir möguleikann á því að vinna í Indiana. Framboð með Bayh sem varaforsetaefni hefði átt mjög góða möguleika á sigri þar. Lyndon Baines Johnson er eini demókratinn sem hefur unnið Indiana í forsetakosningum frá árinu 1936. Ég er mjög efins um að Obama - Biden teymið geti tekið Indiana og fengið þar ellefu mikilvæga kjörmenn.

- Bayh var traustur stuðningsmaður Hillary Rodham Clinton og fylgdi henni í gegnum súrt og sætt. Færði henni nauman sigur í Indiana með því að tala máli hennar dag og nótt þar. Val á Bayh hefði tryggt traustar tengingar framboðsins við Clinton-hjónin án þess þó að velja þau. Fjarri því er að algjör samstaða sé meðal demókrata. Þar eru mikil sár undir niðri. Nýjustu kannanir gefa til kynna að aðeins helmingur stuðningsmanna Hillary sé kominn um borð hjá Obama. Bayh hefði getað tæklað það.

- Bayh hefði getað náð til óháðra kjósenda og haft meiri trúverðugleika í þeim hópi. Biden hefur ekki þessa sömu útgeislun. Hann er vænlegur fyrir demókrata, trausta fylgismenn flokksins, en hann mun ekki sópa að sér miklu fylgi utan flokksins. Hans hlutverk verður því að vinna í baklandinu og tryggja trúverðugleikann. Obama mun ætla sér að sjá um óháðu kjósendurna einn en hefði getað sett Bayh í það verkefni.

- Bayh á hina fullkomnu fjölskyldu í augum Bandaríkjamanna. Hann á ljóshærða myndarlega eiginkonu og þrettán ára tvíburadrengi. Hefði verið draumamyndin fyrir demókrata að hafa tvo trausta frambjóðendur á sviðinu á flokksþinginu með börnin sín. Biden á fjölskyldu en hún er kannski of gömul fyrir draumamyndina sem á að fylgja framboðinu í 70 daga.

Svona val verður alltaf með plúsum og mínusum. Ekki verður bæði sleppt og haldið og að lokum ákvað Obama að stóla á reynsluna. Ekki óeðlilegt, enda er það eini áberandi veikleikinn sem gæti sökkt framboðinu á lokasprettinum. En það er spurningin hvort Biden mun gera nokkuð annað en passa upp á kjarnafylgið. Ekki er líklegt að hann muni marka söguleg skref í að tryggja framboðinu sigur. Hann verður á vaktinni, eins og við segjum.

Annars minnir þetta val mig mjög á það þegar Michael Dukakis, ríkisstjóri í Massachusetts, valdi reynsluna árið 1988 og valdi Lloyd Bentsen, öldungadeildarþingmann í Texas, sem varaforsetaefni sitt. Bentsen var hinn vænsti maður, traustur demókrati og færði framboðinu reynsluljómann sem undirstöðu. Samt sem áður töpuðu þeir kosningunum. Að lokum tapaði Dukakis kosningunum á reynsluleysi sínu og vandræðagangi.

En Obama valdi klettinn í hafinu, einkum fyrir flokkshagsmuni, mann sem getur verið traustur og mun aldrei ógna honum. 66 ára gamall maður sem hefur tvisvar mistekist að verða forsetaefni mun sætta sig við að fá að vera á forsetavakt með yngri manni. Hann er engin ógn og mun ekki verða forsetaefni 2012 fari svo að Obama tapi.

Kannski er það stóra ástæðan. Obama vill mann með sér sem er fókuseraður á verkefnið framundan en ekki að byggja undir sig sem forsetaefni síðar.


mbl.is Obama velur Joseph Biden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein og samantekt,og maður vill breytingar þarna /en verða þær???/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.8.2008 kl. 17:03

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Nei, Halli gamli. Það breytist ekki neitt.

Takk fyrir fræðandi pistil, Stefán.

Villi Asgeirsson, 23.8.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband