Skaðar Árni Johnsen Sjálfstæðisflokkinn?

Könnun (nóv 2006) Ég dreg enda dul á það að útkoma nýrrar skoðanakönnunar Gallups er slæm fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem mælist rétt yfir kjörfylginu 2003. Mál Árna Johnsen hefur verið eitt aðalmálið síðustu vikur. Ekkert mál hefur verið erfiðara fyrir flokkinn á þessu tímabili. Árangur Árna Johnsen í prófkjörinu í Suðurkjördæmi þann 11. nóvember sl. var eitt en ummæli hans um tæknileg mistök nokkrum dögum síðar er annað og mun verra. Ég hef margoft sagt skoðanir mínar á því máli hér á vefnum.

Það leikur enginn vafi á því að ergja er meðal flokksmanna um þessi ummæli Árna Johnsen og þau komu af stað reiðiöldu innan Sjálfstæðisflokksins. Ég get sagt það bara hreint út sagt fyrir sjálfan mig að ég get ekki hugsað mér að leggja mikið að mörkum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningabaráttu verði Árni þar í framboði, úr því sem komið er. Allt tal um að veita Árna annað tækifæri er fjarstæðukennt að mínu mati. Síðbúin afsökunarbeiðni hans kom það seint að hún var varla metin trúverðug. Það hafði aldrei áður komið nein alvöru iðrun frá Árna á lögbrotum hans.

Ég finn það alveg á fólki sem ég þekki og flokksmönnum sem ég hef samskipti við að fólk telur Sjálfstæðisflokkinn varla á vetur setjandi með Árna Johnsen sem alvöru þingframbjóðanda. Úrsagnir úr flokknum hafa sagt sína sögu og ályktanir SUS og LS voru mjög afgerandi. Þetta fall Sjálfstæðisflokksins túlka ég varla nema sem fall vegna þessa máls. Ég veit ekki um neitt mál sem hefur orðið erfiðara fyrir flokkinn og umræðan um allt land vegna Árna er öllum ljós sem með fylgjast. Það treystir sér enginn sjálfstæðismaður, nema kannski frá Eyjum, orðið til að verja Árna. Ég sé mér allavega ekki fært að gera það eftir þetta dæmalausa klúður hans í orðavali. Það er mjög einfalt mál.

Það er ekki hægt að meta þessa skoðanakönnun nema líta á mikla umræðu um mál Árna. Fall Sjálfstæðisflokksins milli mánaða er það augljóst að menn verða að vega og meta stöðuna út frá fylgismissinum sem þarna blasir við. Samhengið finnst mér vera augljóst. Ég tel ekki að þetta fylgi sé hrein tilfærsla til Frjálslynda flokksins bara vegna innflytjendaumræðunnar. Ég hef rætt við fjölda fólks um málefni Árna Johnsen og ég heyri alltaf það sama, hvort sem er í hópi flokksmanna eða í hópi fjölskyldu og vina að staðan er metin nær allsstaðar eins. Sjálfstæðisflokkurinn veikist með því að hafa Árna í alvöru sæti. Það er ekki furða að menn innan flokksins séu hugsi yfir stöðunni.

Ég sagði hér fyrir viku að ég gæti ekki séð mér fært að verja að Árni tæki sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og færi á þing í nafni hans eftir það sem gerðist eftir sjálft prófkjörið. Ég var svosem aldrei yfir mig sæll með endurkomu Árna, en hann fékk þó annað tækifæri til að byggja sig upp. Árni mélaði það sjálfur. Talað er um mögulegar breytingar á framboðslista flokksins í Suðrinu á kjördæmisþingi. Ekki kemur það mér á óvart í ljósi alls sem gerst hefur.

Ég ítreka þá skoðun mína að forysta Sjálfstæðisflokksins verður að grípa til sinna ráða verði ekki brugðist við á kjördæmisþingi við þessum málum eða Árni finni það hjá sjálfum sér að framboð hans veiki Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu. Við verðum að hugsa um hag flokksins í þessum efnum. Það blasir við öllum að það mun aðeins veikja Sjálfstæðisflokkinn fari Árni ofarlega á lista úr þessu.

mbl.is Fylgi Frjálslynda flokksins eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Eða árangur undirritaðs í profkjörinu í NA kjördæmi!?!?

Sigurjón Benediktsson, 1.12.2006 kl. 07:50

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað í Norðvesturkjördæmi; með 35% og þrjá þingmenn. Tapið er aðallega á höfuðborgarsvæðinu og örlítið hér ennfremur. Flokkurinn bætir aðeins við sig milli mánaða í Suðurkjördæmi. Þetta eru merkilegar tölur og sýna vel að innkoma Árna mun skaða flokkinn allsstaðar nema í Suðurkjördæmi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.12.2006 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband