Dr. Sigurbjörn Einarsson látinn

sigurbjorn biskupDr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, er látinn, 97 ára að aldri. Með Sigurbirni er fallinn í valinn einn traustasti leiðtogi kristinnar trúar í sögu íslensku þjóðarinnar og einn merkasti Íslendingur vorra daga, maður sem naut mikillar virðingar fyrir verk sín og þá forystu sem hann veitti íslensku þjóðinni í blíðu og stríðu.

Sigurbjörn biskup talaði alla tíð kjarnyrta íslensku til þjóðarinnar úr predikunarstól og ritaði bækur og íhuganir sem lifa með þjóðinni. Hann er einn áhrifamesti maðurinn í sögu íslensku þjóðkirkjunnar og segja má að dr. Sigurbjörn hafi verið einn bæði merkasti leiðtogi kristinnar trúar síðustu aldir og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi.

Ekki leikur nokkur vafi á því að Sigurbjörn biskup er einn þeirra manna sem settu mestan svip á 20. öldina sem naut mestrar virðingar. Hann náði til fólks hvar svo sem í stétt það var. Áhrif Sigurbjörns Einarssonar á íslensku þjóðkirkjuna eru og verða óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra.

Sigurbjörn var líka einn þeirra manna sem höfðu þá náðargáfu að geta talað bæði af visku og kærleika svo að fólk hlustaði. Predikanir hans voru ógleymanlegar. Það var þjóðinni mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann. Hann hafði sem biskup mikil áhrif á margar kynslóðir Íslendinga og lék lykilhlutverk í því að kynna fyrir okkur kristna trú og gildi hennar, ekki bara sem biskup heldur og mun frekar á árunum eftir að hann lét af störfum og flutti predikanir.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera margoft við predikanir hans hér í Eyjafirði og kynnast því hversu traustur og notalegur ræðumaður hann var, ekki bara um kristileg málefni heldur og mun frekar að tala um gildi samfélagsins og mannleg mál, kærleikann og lífið sjálft. Hann hafði svo margt fram að færa - það mun lifa með þjóðinni.

Nú síðustu árin minnist ég helst viðtalsins sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir átti við Sigurbjörn og sýnt var á jólunum 2006. Þar talaði Sigurbjörn bæði um sig og sín málefni, fór yfir allt sem hann taldi merkilegast í lífinu. Merkilegt viðtal og vandað.

Svo gleymir enginn ræðunni þegar hann tók við málfræðiverðlaunum Jónasar fyrir tæpu ári. Þá fór hann upp á svið með stafinn sinn og flutti blaðlaust eina merkilegustu ræðu sem ég hef heyrt í mínu lífi. Sigurbjörn þurfti ekki að hafa fyrir þessu.

Ég vil votta fjölskyldu dr. Sigurbjörns Einarssonar innilega samúð mína. Mætur Íslendingur er fallinn frá. Guð blessi minningu hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Tek heilshugar undir hvert orð í pistli þínum  Stefán Friðrik  og votta fjölskyldu dr, Sigurbjörns Einarsonar  samúð mína

Gylfi Björgvinsson, 28.8.2008 kl. 11:22

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sigurbjörn var mikilmenni í ríki andans. Hann var afburða ræðumaður, snillingur á sviði íslenskrar tungu og guðfræði. Hans verður sárt saknað en lengi minnst fyrir afurðagreind á sviði siðferðis, sögu og trúar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 28.8.2008 kl. 13:17

3 identicon

Þeir sem guðirnir elska, deyja ungir.

Amadeus Anton Ásgeirsson (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband