McCain búinn að velja - tekur sviðsljósið af Obama

John McCain John McCain, forsetaefni repúblikana, hefur nú valið varaforsetaefni sitt og mun tilkynna um það á fjöldafundi í lykilfylkinu Ohio kl. 11:00 í fyrramálið að staðartíma. McCain ætlar að reyna að grípa sviðsljósið í kvöld af Obama þegar hann flytur útnefningarræðu sína í Denver með því að leka nafninu á varaforsetaefninu í fjölmiðla og þar með fá forskot fyrir tilkynninguna. Er búist við að umfjöllun um málið hefjist áður en Obama talar síðla kvölds.

Fróðlegt verður að sjá hvort McCain muni velja annan af líklegustu kostunum í stöðunni. Mikið hefur verið talað um Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóra í Massachusetts, og Tim Pawlenty, ríkisstjóra í Minnesota, þar sem flokksþing repúblikana verður haldið í næstu viku. Er mjög líklegt að annar þeirra verði fyrir valinu ef McCain vill fá einhvern við hlið sér sem hefur mikla reynslu af að vera í forystu í fylkjunum og geti fært honum eitthvað af lykilfylkjunum í baráttunni auk þess. McCain vantar klárlega yngri frambjóðanda og einhvern sem getur fært honum hnoss sem skiptir máli.

Síðustu dagana hef ég æ oftar heyrt nafn Kay Bailey Hutchison, öldungadeildarþingmanns í Texas. Hún hefur setið í öldungadeildinni frá árinu 1993, var kjörin í þingsæti demókratans Lloyd Bentsen, sem var varaforsetaefni Michael Dukakis árið 1988. Hutchison myndi geta fært McCain eitthvað af kvennafylgi Hillary Rodham Clinton og þá demókrata sem studdu hana - myndi val á henni leiða til sögulegra þáttaskil. Ef Hutchison verður varaforsetaefnið er hún aðeins önnur konan í sögu Bandaríkjanna í framboði stóru flokkanna.

Erfitt um að spá hvað gerist. Hef samt verið viss um það nokkuð lengi að Romney yrði varaforsetaefnið. Þeir hafa verið að ná vel saman að undanförnu þó þeir hafi barist í forkosningunum af miklum krafti. Hann hefur traustar tengingar í lykilfylki og styrkleika í efnahagsmálum sem McCain vantar sárlega.

En þetta verður mikilvægt val fyrir McCain. Hann þarf að fá eitthvað mjög öflugt út úr varaforsetaefninu. Gæti því komið á óvart með djörfum valkosti sem eykur stjörnuljóma framboðsins eða valið traustan valkost, mann sem yrði með honum á forsetavakt og tilbúinn í forsetahlutverkið á örlagastundu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband