3.9.2008 | 00:23
Flokksþing repúblikana í St. Paul: 1. dagur
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna og Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, áttu allir að flytja ávarp en afboðuðu sig allir. Dagskrá þingsins riðlaðist því verulega og í raun bjargaðist dagskráin í heildina af því að Gústaf varð ekki eins mikill fellibylur og búist var við áður. Unnið hefur verið að því í gær og í dag að raða þinginu saman aftur.
Förum yfir nokkra lykilpunkta fyrsta dagsins.
- George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, flytur tæplega tíu mínútna ávarp frá Hvíta húsinu til þingfulltrúa. Ákveðið var í samráði við yfirstjórn kosningabaráttu McCain að forsetinn kæmi ekki til St. Paul eftir að fellibylinn lægði. Forsetinn leikur því ekkert hlutverk á sjálfu flokksþinginu og Cheney varaforseti mun ekki vera í sviðsljósinu heldur. Þetta markar þau þáttaskil að McCain er tekinn við flokknum, þetta er flokksþingið hans og stjörnustund hans og Palin.
Bush var í lykilhlutverki á kjörtíma í sjónvarpi á flokksþinginu í Philadelphiu árið 2000 og í New York árið 2004. Nú er hann í mjög litlu aukahlutverki. Er fyrst og fremst að kveðja flokkinn og tala upp John McCain. Ekki búast við að hann ráðist harkalega að Barack Obama. Aðrir verða settir í það verkefni. Hann mun fyrst og fremst reyna að þjappa flokknum saman, tala vel um forsetaefnið, manninn sem hann barðist svo harkalega gegn í forkosningunum fyrir átta árum.
- Laura Welch Bush, forsetafrú, ávarpar þingið. Enginn í Hvíta húsinu er vinsælli en bókasafnsfræðingurinn frá Texas, konan við hlið forsetans. Hún var ein styrkasta stoð hans í forsetakosningunum 2000 og 2004 og er mjög vinsæl innan flokksins. Hún er sú eina í Bush-fjölskyldunni sem hefur hlutverk í St. Paul að þessu sinni og kemur varla að óvörum.
- Joe Lieberman, öldungardeildarþingmaður í Connecticut, flytur ávarp. Lieberman hefur verið í öldungadeildinni í tvo áratugi og var varaforsetaefni Al Gore í forsetakosningunum 2000; fyrsti gyðingurinn sem er hluti af forsetaframboði í sögu Bandaríkjanna. Hann náði ekki útnefningu Demókrataflokksins árið 2004 og varð undir í forkosningum innan flokksins í baráttu um þingsæti sitt árið 2006.
Lieberman sagði skilið við demókrata og varði sætið sem óháður. Hefur samt varið meirihluta demókrata í öldungadeildinni og er nefndaformaður í nafni demókrata. Styður McCain, gamlan vin sinn, heilshugar í þessu forsetakjöri og hefur valdið mikilli ólgu innan síns gamla flokks með hlutverki sínu í St. Paul. Stóra spurningin er hvort hann ráðist að Obama í nótt.
- Fred Thompson, fyrrum öldungadeildarþingmaður í Tennessee og forsetaframbjóðandi í forkosningum repúblikana, flytur ávarp. Talið er að hann muni ganga lengst í beinum árásum að demókrötum og tala sérstaklega gegn Barack Obama. Einnig að hann muni verja Söru Palin af krafti í ræðunni. Thompson var leikari fyrir og eftir þingferilinn, en hann náði þingsæti Al Gore eftir að hann varð varaforseti. Lék m.a. í Die Hard 2 og Law and Order.
- John Boehner, minnihlutaleiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, talar flokkinn upp í baráttunni fyrir því að ná yfirráðum þar aftur. Repúblikanar misstu deildina í kosningunum 2006, rétt eins og öldungadeildina, og kannanir benda til þess að repúblikanar eigi nær engan séns á að ná deildinni úr klóm Pelosi og demókrata.
- Norm Coleman, öldungadeildarþingmaður í Minnesota, flytur ræðu á heimavelli. Hann náði þingsæti Paul Wellstone eftir að hann lést í flugslysi í aðdraganda þingkosninganna 2002 og sækist nú eftir endurkjöri. Sigur hans á Walter Mondale, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, í þeim kosningum vakti mikla athygli og hann hefur verið framarlega í flokki repúblikana í öldungadeildinni síðustu árin.
Þetta verður áhugavert og sögulegt flokksþing, enda fyrsta konan útnefnd sem varaforsetaefni í sögu Repúblikanaflokksins og elsta forsetaefnið í sögu Bandaríkjanna útnefnt. Þau verða þó hvorug í sviðsljósinu í kvöld, heldur mun frekar fráfarandi forseti í fjarlægri kveðjuræðu og demókrati á nýjum pólitískum vettvangi sem honum hefði ekki órað fyrir að hann myndi verða á fyrir átta árum er hann varð næstum varaforseti Bandaríkjanna við hlið Al Gore.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.