Súmmering: Forseti kveður - Lieberman stuðar

George W. Bush
Flokksþing repúblikana hófst af krafti í St. Paul í gærkvöldi. Eftir brösótta byrjun vegna Gústafs fóru repúblikanar beint að verki og áttu betri upphafskvöld en demókratar. Án væmni var farið beint í að tala um alvöru pólitík og lykilmál baráttunnar. Pólitíska umræðan var mjög beinskeytt og ákveðin. Forsetinn kvaddi flokksmenn í einlægri en mjög fjarlægri kveðjuræðu úr Hvíta húsinu, Joe Lieberman stuðaði demókrata allhressilega með tryggum stuðningi við McCain og Palin og Fred Thompson talaði ákveðið gegn Barack Obama.

Í gegnum allt kvöldið var John McCain kynntur sem stríðshetjan mikla sem helst væri treystandi fyrir forsetaembættinu. Á skjánum í bakgrunni ræðumanna voru myndir af McCain frá því í Víetnam og í gegnum langan feril sem hermaður og stjórnmálamaður. Sýnt var að McCain hefði reynsluna sem þurfti og hefði þurft að hafa fyrir sínu. Þetta var mjög ákveðin kynning í myndrænum skilningi og eflaust pólitískum líka. Enda er enginn vafi á því að svona verður McCain kynntur í gegnum baráttuna. Spilað verður á reynslu hans.

Munurinn á kynningu forsetaefnanna á upphafskvöldum flokksþinganna er sú að Obama var kynntur sem tilfinningasamur maður breytinganna án reynslu en McCain var kynntur sem stríðshetja sem hefði afrekað eitthvað og hefði víðtæka reynslu, einkum í utanríkismálum. Þetta eru tveir mjög ólíkir menn, menn tveggja ólíkra kynslóða, og því fátt líkt með persónulegri kynningu á þeim. McCain ætlar sér að vera hörkutólið á forsetavakt, maður með þekkingu á öllum helstu lykilmálum. Þetta er sú ímynd sem hann þarf að kynna.

Förum yfir helstu punkta fyrsta þingkvöldsins í St. Paul.

George W. Bush
- George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, flutti mjög fjarlæga kveðjuræðu frá Hvíta húsinu. Talaði í innan við tíu mínútur og fjallaði nær einvörðungu um helstu kosti John McCain sem forsetaframbjóðanda. Talaði ekkert um andstæðing hans né lykilmál kosningabaráttunnar að þessu sinni. Sjónarhornið minnti mann svolítið á tal hans í kosningabaráttunni 2004, en hann fór á engin hættusvæði í ræðunni. Þetta var traust ræða út frá flokkshagsmunum og var um leið viss kveðja hans til flokksins sem tvisvar valdi hann sem forsetaefni.

Með fjarlægðinni við St. Paul sýnir Bush fjarlægð sína við kosningabaráttuna og átakamál hennar. McCain vill hafa forsetann sem lengst frá flokksþinginu og eflaust eru menn innan flokksins ánægðir með þá fjarlægð sem var yfir ræðunni. Hún var hæfilega löng fyrir yfirstjórn McCain en áberandi stutt fyrir stjórnmálaáhugamenn. Hann er einfaldlega farinn af sviðinu og ræðan ber öll merki þess að John McCain er tekinn við flokknum. Við þurfum ekki að eiga von á að Bush verða áberandi í kosningabaráttunni.

Laura Welch Bush
- Laura Welch Bush, forsetafrú, er vinsælasta manneskjan í Hvíta húsinu og sem er tengd ríkisstjórn Bandaríkjanna nú um stundir. Bókasafnsfræðingurinn frá Texas, ópólitískasta manneskjan í Hvíta húsinu, ber höfuð og herðar yfir alla í ríkisstjórn Bandaríkjanna um þessar mundir. Hún flutti óvenju pólitíska ræðu. Eiginlega fór frú Bush yfir þau mál sem herra Bush á forsetavakt fjallaði ekki um. Hún talaði ákveðið um Söru Palin, afrek mannsins síns á forsetastóli og persónu. Hún tæklaði málin sem hvorki Bush né McCain vildu fjalla um.

Joe Lieberman
- Fyrir átta árum var Joe Lieberman næstum orðinn varaforseti Bandaríkjanna við hlið Al Gore og háði harða rimmu við George W. Bush og Dick Cheney ekki aðeins í kosningabaráttunni heldur og mun frekar 36 dagana eftir kjördag þar sem hitinn varð meiri en í aðdraganda kosninganna. Tæpum hundrað mánuðum síðar var hann hinsvegar kominn á flokksþing Repúblikanaflokksins, talaði ákveðið til stuðnings frambjóðanda repúblikana og varði meira að segja Söru Palin, konu sem hefur allt aðrar lífshugsjónir en hann sjálfur. Merkilegur viðsnúningur.

Lieberman er óvæntasta stjarnan innan Repúblikanaflokksins á þessu flokksþingi. Hann vandaði fornum samherjum ekki kveðjurnar - stuðaði demókrata gríðarlega með orðavali sínu um McCain og með því að gera lítið úr Barack Obama sem stjórnmálamanni. Óhætt er að fullyrða að kólnað hafi endanlega yfir ástarglæðum Demókrataflokksins og Joe Lieberman. Allt frá því hann studdi Bush ákveðið í Íraksstríðinu hafa böndin slitnað og augljóslega ekki aftur snúið. Hann hefur endanlega slitið á böndin og ætlar að heyja næstu baráttu með McCain.

Lieberman tekur pólitískar áhættur. Verði McCain ekki kjörinn forseti Bandaríkjanna er augljóst að hann er kominn út í horn sem óháður þingmaður en verður væntanlega ráðherraefni ef McCain sigrar. Honum verði launaður stuðningurinn með feitu embætti og losni undan samstarfi við forna samherja ef McCain sigrar. Lieberman á varla afturkvæmt í nefndaformennskur í öldungadeildinni í skjóli demókrata. Einfalt reikningsdæmi. Lieberman leggur allt undir - en hann brosti breitt og hafði greinilega gaman af að hjóla í forna samherja.

Fred Thompson
- Fred Thompson, fyrrum öldungadeildarþingmaður í Tennessee, flutti trausta og góða ræðu til stuðnings John McCain - flutti bestu ræðu kvöldsins að mínu mati. Thompson var traustur og ákveðinn, var betri í þessari einu ræðu en í öllu forsetaframboði sínu, sem rann út í sandinn fljótlega í forkosningunum. Í því var ekkert púður og enginn stjörnuljómi. Hann náði aldrei flugi, kom of seint í slaginn og sýndi aldrei kraftinn og seigluna sem þurfti. Í ræðunni í St. Paul sáum við þann Fred Thompson sem aldrei sást í forkosningunum.

Thompson var ekkert að hika, hjólaði beint í Obama og var bæði einbeittur og óvæginn í gagnrýni sinni á demókrata. Thompson súmmeraði upp átakapunkta repúblikana í þessum kosningum og kom nokkurnveginn með þann neista sem McCain þarf til að sigra kosningarnar. Thompson kom flokknum virkilega á skrið bæði á þessu fyrsta flokksþingskvöldi og eins í baráttunni framundan. Talað var um baráttu McCain fyrir ættjörðina, hetjudáðirnar miklu og dregin upp mynd af hversu ólíkir valkostirnir eru. Flott ræða.

Og auðvitað varði Thompson Söru Palin af miklum krafti. Greinilegt er að búið er að slá skjaldborg um hana á flokksþinginu. Átökin síðustu dagana hafa augljóslega aðeins styrk hana innan flokksins.

Í heildina var þetta fín byrjun fyrir repúblikana. Forsetinn var þó eins og leiðtogi í útlegð, fékk aðeins örfáar mínútur til að tala flokkinn saman. Hann var mjög fjarlægur og augljóst að hann var bæði að kveðja og sýna fjarlægð sína. En neistar flugu. Lieberman tókst að ergja demókrata gríðarlega, eins og sést hefur á allri umfjöllun og Thompson kveikti kosninganeistann í íhaldsmönnunum. Í heildina því vel heppnað kvöld og góð byrjun, þó fjarlægðin við Bush-fjölskylduna hafi verið pínlega áberandi.


mbl.is Bandaríkin öruggari í höndum McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband