Oprah þorir ekki að bjóða Söru Palin í þáttinn

Sarah Palin Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey hefur ákveðið að bjóða Söru Palin, varaforsetaefni repúblikana, ekki í þátt sinn í aðdraganda forsetakosninganna, þó hún sé eina konan sem á möguleika á því að komast í kjörið embætti í Hvíta húsinu í þessum kosningum. Þetta vekur athygli í ljósi þess að Oprah hefur látið kvenréttindamál sig miklu varða og verið áberandi í að tala fyrir jafnréttismálum og átti stjörnuleik á sínum tíma í hlutverki þeldökku kjarnakonunnar Sofiu í The Color Purple.

Oprah tók reyndar mjög pólitíska afstöðu í þessum forsetakosningum og hafði sín úrslitaáhrif með því að styðja Barack Obama á mikilvægum tímapunkti fram yfir Hillary Rodham Clinton. Yfirlýsing hennar á fjöldafundi í Iowa þrem vikum fyrir fyrstu forkosningarnar þar var fyrsta alvöru áfall Hillary í forkosningaslagnum og var undanfari þess sem síðar kom. Kvennafylgið skiptist í kjölfarið, en hinsvegar voru margar konur illar út í Opruh að styðja ekki fyrstu konuna sem átti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu, þegar tækifærið gafst fyrir alvöru.

Fullyrt er að með framgöngu sinni hafi Oprah fórnað vináttu sinni við Clinton-hjónin, sem hún studdi af krafti í forsetakosningunum 1992 og 1996. Þeldökka skáldkonan Maya Angelou tók allt aðra afstöðu en Oprah og studdi Hillary, lét jafnréttishliðina á málinu ráða afstöðu sinni frekar en styðja fyrsta þeldökka frambjóðandann sem átti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu. Oprah var reyndar ekki mikið virk í stuðningi sínum við Obama eftir fjöldafundinn í Iowa en studdi hann þó alla leið. Eins og flestir vita býr Oprah í Chicago, heimaborg Obama, og tekur upp þætti sína þar.

En þetta er auðvitað athyglisverð afstaða hjá Opruh. Þarna ræður pólitíkin ein för. Það kemur samt mjög spánskt fyrir sjónir að einu konunni sem á möguleika á að komast í kjörið embætti í Hvíta húsinu sé ekki boðið í þátt sem er sérstaklega ætlaður fyrir konur og hlýtur að vekja stórar spurningar hvort hann sé ekki bara pólitísk maskína fyrir skoðanir þáttastjórnandans, þar sem hún hefur áður boðið George W. Bush í þáttinn í aðdraganda síðustu tveggja forsetakosninga og fleiri repúblikunum.

Mikið er greinilega lagt á sig til að þóknast Barack Obama og framboði með tveimur karlmönnum á sögulegu kosningaári þegar fyrsta konan getur orðið varaforseti Bandaríkjanna. Er þetta í samræmi við lúkkið á þessum þætti? Ekki nema von að spurt sé. Jafnrétti hvað?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: fellatio

Skipta málefni ekki neinu lengur? Verður maður að gá hvernig kynfæri frambjóðendur eru með. Og síðan fara með litaspjald til að finna hörundslitinn.

Ef að Hitler væri að bjóða sig fram gegn konu verð ég þá að kjósa Hitler því hann er karlmaður?

fellatio, 5.9.2008 kl. 19:07

2 Smámynd: Eyþór Hauksson

Sæll Stefán.Ég er ekki viss um að þetta hafi neitt með pólitík að gera að hún vilji ekki bjóða henni í þáttinn.Þessi kona er náttúrulega bara öfgahægrimaður og Opruh hugnast bara ekki að leifa henni að gaspra um sínar öfgafullu skoðanir í sínum þætti.

Það er svo skrítið að ef þú getur falið þig á bakvið Bíblíuna þá er þér leifilegt að segja hvað sem er um annað fólk eins og hún gerir.Þarna er ég að benda á skoðanir hennar á samkynhneigðu fólki.En það hefur verið bent á að jafnvel gæti svo verið að Oprah sé samkynhneigð.

Eyþór Hauksson, 5.9.2008 kl. 19:56

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"En þetta er auðvitað athyglisverð afstaða hjá Opruh. Þarna ræður pólitíkin ein för," segir þú Stefán

En er það svo? Obama og Clinton hafa bæði sérstöðu; þeldökkur vs. kona, en bæði hafa svipaða pólitík með einhverjum áherslumun. Var Oprah ekki bara að kjósa litinn fram yfir kynið sitt? Lítil pólitík í því, am.k. í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.9.2008 kl. 22:30

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Með þessari ákvörðun Opruh fær þátturinn á sig stjórnmálalegan blæ, efnið ráðist einvörðungu eftir skoðunum hennar. Það hefur ekki verið svo. Hún bauð Barack Obama í þáttinn þegar hann byrjaði forsetaframboð sitt og hún hefur boðið George W. Bush þangað. En í þessum kvennaþætti er ekki rætt við einu konuna sem á möguleika á að fara í Hvíta húsið, fyrstu konuna í heil 24 ár. Oprah hefur jafnan ráðið sjálf ramma þáttanna svo að hún hefði getað stjórnað því hvernig þátturinn með Palin hefði verið svo að það er engin afsökun. Enda er þegar farið að tala um að Oprah sé hlutdræg og ímynd þáttanna hafi skaðast. Mikil ólga er meðal starfsfólks þáttanna með þessa afstöðu hennar. Þeir á DrudgeReport birtu fyrstir allra þær fréttir og síðan hefur umræðan aukist til muna.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.9.2008 kl. 23:28

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er rétt Stefán Friðrik/Opruh setur niður við þessa ákvörðun/því miður/auðvitað átti hún að fá hana i þáttinn/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.9.2008 kl. 01:19

6 identicon

Ég sá á einhverri erlendri sjónvarpsstöð í gær að Oprah hyggst bjóða Söru til sín eftir kosningarnar.  Þannig að ég skil ekki hvað þessi déskotans tittlingaskítur gengur út á.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 12:05

7 identicon

Barack Obama varð forsetaframbjóðandi Demókrata ekki vegna þess að hann er blökkumaður heldur þrátt fyrir það.  Á sama hátt er árangur Hillary Clinton vegna málefna hennar, en ekki vegna þess að hún er kona.  Verðleikar þeirra eru af eigin ranni.

Sarah Palin er hins vegar allt annað dæmi.  Hún var valin sem meðframbjóðandi John McCain af þremur ástæðum:

1.  Fyrstu valkostir John McCain hlutu ekki náð fyrir flokksstjórninni. 

2.  Val hennar á að höfða til öfgaevangílísta sem höfðu ekki sæst á val repúblikana á John McCain.

3.  Hún á að höfða til óánægðra fylgismanna Hillary Clinton - þrátt fyrir að eiga það eitt sameiginlegt að vera kvenkyns - að öðru leiti er hún algjör andstaða bæði Hillary Clinton og Barack Obama.

Að öðru leiti er hún jafn spillt og spillingin sem hún á að hafa barist við og jafn tvísaga og brúin sem hún setti á kosningastefnuskrá sína og hafnaði síðan þegar allir íbúar Alaska voru farnir að hlægja að. 

En það er ekki það hættilega við þessa skelfilegu manneskju.  Hún telur t.d. að stríðið sem allir vitibornir menn vita að eru stærstu mistök sem nokkurn tíma hefur verið háð - þ.e. Íraksstríðið - hún telur að það sé verkefni frá guði!

Oprah Winfrey veit að ef hún leyfir þessari fáránlegu rödd allrar óskynsemi að birtast í þætti sínum gæti fólk tekið það sem viðurkenning á því að eitthvað sem þessi manneskja hefur fram að færa sé réttlætanlegt.  Því fer að sjálfsögðu fjarri.

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 21:42

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sarah Palin hefur sannað styrkleika sinn og pólitíska getu. Hún var stjarna flokksþings Repúblikanaflokksins og er nú vinsælli en bæði forsetaefnin. Obama er dauðhræddur við hana enda er hún í þann veginn að taka af honum þá sérstöðu sína að vera outsider í Washington. Sarah Palin hefur aldrei gegnt embætti þar eða búið í Washington svo að hún hefur betur í þeim slag. Annars er ánægjulegt hvað kjósendur hafa tekið Söru Palin vel. Samkvæmt könnunum er hún stjarnan eftir bæði flokksþingin og hefur vakið mesta athygli og hlaut t.d. meira áhorf en Obama, sem er glæsilegur árangur. Allt í einu er farið að tala um Palin sem forsetaefni. Hún sló í gegn í ræðunni. Hún breytti öllu og nú eru menn steinhættir að efast um hæfni hennar. Oprah ætti að vera samkvæm sjálfri sér og bjóða Söru fyrst hún gat boðið George W. Bush þangað í aðdraganda forsetakosninganna 2000.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.9.2008 kl. 21:51

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég er alls ekki sammála Söru Palin í öllum málum. Enda erfitt að finna fullkominn stjórnmálamann. Auk þess er Íraksstríðið greinilega ekki issue í þessari kosningabaráttu. Mjög lítið er talað um þau mál, mun minna en í kosningunum 2004. Fyrirsjáanlegt er að Bandaríkjamenn eru á heimleið frá Írak. Þegar er farið að tala um verulega fækkun í liðsheildinni og mjög líklegt að herinn fari frá Írak á næsta kjörtímabili sama hvor verði kjörinn forseti.

H: Eftir kosningar? Á þetta að vera brandari? Af hverju býður Oprah ekki bara Söru Palin eins og George W. Bush á sínum tíma í kosningabaráttunni. Obama og Oprah eru hrædd við vinsældir Söru Palin, það er það sem er að. Hún er orðin vinsælli en Obama og McCain og langmesti áhuginn er á henni. Hún hefur fyllt upp í skarðið sem var eftir að Hillary dró sig í hlé, enda eðlilegt þar sem hún er eina konan sem getur náð í Hvíta húsið. Fleiri konur styðja McCain nú en áður en valið var tilkynnt. En það vekur athygli að ekki sé rætt við þessa einu konu sem getur náð alla leið í heil 24 ár í sérstökum kvennaþætti.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.9.2008 kl. 11:35

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég er handviss um að Bandaríkjamenn fara frá Írak á næsta kjörtímabili, eða í það minnsta hefja afgerandi flutning hermanna með afgerandi tímaramma.

Oprah er með kvennaþátt. Þetta er þáttur sem er markaðssettur fyrir konur. Og einu konunni sem á raunhæfa möguleika á því að komast í kjörið embætti í Hvíta húsinu er ekki boðið í þáttinn, fyrstu konunni í 24 ár. Þetta er bara pólitík, enda er mikil ólga meðal starfsmanna þáttarins með þessa ákvörðun og augljóst að Oprah hefur breytt ímynd sinni með þessu.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.9.2008 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband